Duus Safnahús
Duus Safnahús eru lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar og hýsa aðal sýningarsali Lista- og Byggðasafns Reykjanesbæjar. Bæði söfnin hafa hlotið viðurkenningu Safnaráðs. Þar er einnig Gestastofa Reykjaness jarðvangs (Geopark), Bátasafn Gríms Karlssonar og fleiri sýningar.
Fjölbreytt menningarstarf er rekið í þessum gömlu verslunar- og fiskvinnsluhúsum. Saga þeirra nær aftur á 19. öld en elsta húsið, Bryggjuhúsið, var reist árið 1877 af Duus-verslun. Byggingarsaga húsalengjunnar er því vel yfir aldarlöng. Byggt var við húsin eftir þörfum hverju sinni. Um miðja 20. öld hætti verslunin rekstri og voru húsin þá notuð í tengslum við útgerð. Undir lok síðustu aldar keypti bærinn húsin fyrir safna- og menningarstarf. Nú hefur öll lengjan verið endurbyggð en því verki lauk árið 2014. 14. júní 2016 friðlýsti Minjastofnun byggingarnar sem eru nú samtengdar.[1][2]
Í húsinu eru sjö sýningarsalir af misjafnri stærð. Byggðasafnið er meðal annars með sýninguna Fast þeir sóttu sjóinn - Bátasafn Gríms Karlssonar sem opnuð var fyrst árið 2002 í Bátasal sem nú hýsir sýningar Listasafns Reykjanesbæjar og síðar árið 2021 á Miðloftinu í Bryggjuhúsinu. Sýningunni er ætlað að gefa gestum innsýn í þennan mikilvæga þátt í atvinnulífi Suðurnesjamanna þar sem allt snerist í aldir og áratugi um fiskveiðar. Listasafnið stendur fyrir fjölbreyttu sýningahaldi í Listasölum hússins árið um kring og hafa salirnir hýst afar ólíka listsköpun bæði heimamanna og annarra.
Efstu húsin: Anddyri, Bátasalur og Listasalur
Milli húsin: Gryfja, Bíósalur
Neðsta húsið, Bryggjuhús: Gestastofa, Stofa, Miðloft og Ris.
Hægt er að ganga inn í húsin um anddyri og Bryggjuhús.
Duus Safnahús eru í hjarta gamla bæjarins. Fyrir framan þau má enn sjá leifar af Keflavíkurbænum og þar sem hringtorgið er staðsett var Stokkavörin, aðal lendingarstaður báta fram á 19. öld og eitthvað lengur. Til vinstri má sjá leifar af Dráttarbraut Keflavíkur og smábátahöfnin í Gróf er í næsta nágrenni ásamt Skessunni í hellinum. Þægilegar gönguleiðir eru bæði út á Berg til vinstri og til hægri hefst göngubrautin, Strandleiðin, sem er 10 km stígur meðfram sjónum og nær inn að Vogastapa í Innri-Njarðvík. Meðfram leiðinni eru upplýsingaskilti um sögu og náttúrufar svæðisins.
Tenglar
breyta- ↑ „Duusgata 2, Bryggjuhús, Keflavík“. Minjastofnun.
- ↑ „Duusgata 4, Bíósalur, Keflavík“. Minjastofnun.