Súla (fugl)
Súla (fræðiheiti: Morus bassanus og einnig Sula bassana) er sjófugl sem heldur sig úti á rúmsjó nema yfir varptímann í apríl og maí þegar hún sækir í klettaeyjar í Norður-Atlantshafinu til að verpa. Hún er stærsti sjófugl Evrópu með vænghaf milli 170 til 180 cm og fuglinn sjálfur um 90 til 100 cm langur. Fræðinafn sitt dregur hún af eyjunni Bass Rock við Firth of Forth í Skotlandi.
Súla | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Súlupar
| ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Morus bassanus | ||||||||||||||
Útbreiðsla súlu sýnd með blágrænum lit
|
Súlur eru einkvænisfuglar og trygglyndar við varpsetur. Súlur geta orðið nokkuð gamlar og eru taldar verpa 12 sinum að meðaltali. Parið heilsast með þanda vængi bringu við bringu og strjúka saman nefjum. Ungfuglar eru dökkbrúnir fyrsta árið en lýsast með ári hverju þar til þeir verða kynþroska við fimm ára aldur.
Veiðiaðferð súlunar er kallað súlukast. Þær steypa sér hátt úr lofti, úr 10 til 40 metra hæð og lóðrétt niður ef að fiskurinn er djúpt í sjó. Loftsekkir framan á fuglinum verkar sem púðar og í kastinu mynda beinagrind og vöðvar spjótlaga líkamsform.
Um 2/3 hlutar heildarstofnsins halda til umhverfis Bretlandseyjar. Eitt stærsta súluvarp í heimi er á Bonaventure-eyju við Kanada en þar verpa um 60.000 pör, en stærstu vörp í Evrópu eru á eyjunum Bass Rock og St. Kilda báðar við Skotland. Eldey undan Reykjanesi er meðal stærri súluvarpa í heimi, en þar verpa um 14.000 - 18.000 pör árlega. Á Íslandi verpir súlan einungis á fáeinum stöðum, fyrir utan Eldey, í Súlnaskeri í Vestmanneyjum, á Langanesi, Melrakkasléttu og á eyjunni Skrúði í Fáskrúðsfirði. Talið er að heildarstofninn við Ísland sé milli 40.000 til 50.000 fuglar.
Lífseig mýta segir að varpið í Eldey sé það stærsta í heimi en það er ekki rétt. Við talningu í Kanada voru þar samtals 77700 pör árið 1999[1]. Við Bretlandseyjar töldust samtals 230 þús. súlupör árið 2000 [2]. Þar er stærsta súlubyggð í heimi, á St. Kilda, með 60428 pörum 1994-95 og áætluð vera 61340 árið 2000. Þar voru þegar orðin um 50 þús. varppör um 1960. Árið 2000 voru sex aðrar súlubyggðir á Bretlandseyjumn stærri en Eldey, Bass Rock við Edinborg (44110), Ailsa Craig við vesturströnd Skotlands (35825), Grassholm í Wales (30688), Little Skellig á Írlandi (28799) og Mermaness í Hjaltlandseyjum (16386). Það er því löngu liðin tíð að Eldey sé stærsta súlubyggð í heimi en þar eru vissulega flest súlupör verpandi hér við Ísland.
Þann 20. janúar 2008 var leiðangur farinn til Eldeyjar en tilgangur ferðarinnar var að koma upp myndavélabúnaði á eyjunni sem sendir myndefni frá eyjunni allan sólarhringinn. Þar sést Súlubyggðin í Eldey mjög vel.
Árið 2017 var súluvarp í Eldey talið í fyrsta skipti með dróna og voru talin þar 14.982 setur.[3]
Tungumál | Heiti |
---|---|
Enska | Northern Gannet |
Tilvísanir
breyta- ↑ J. Chardine 2000. Census of Northern Gannet colonies in the Atlantic Region in 1999. Canadian Wildlife Service, Atlantic Region Technical Report Series 361: 1-13
- ↑ P.I. Mitchell, S.F. Newton, N. Ratcliffe & T. Dunn 2004. Seabird Populations of Britain and Ireland (Results of the Seabird 2000 Census (1998-2002). Poyser. 511 bls
- ↑ Ævar Petersen, Yann Kolbeinsson, & Cristian Gallo. (2021). Súlur leita á fyrri varpstöðvar. Náttúrufræðingurinn 1.-2. tbl.
Heimildir
breyta- Fuglar í náttúru Íslands, höfundur Guðmundur Páll Ólafsson, Mál og menning, 2006. ISBN 9979-3-2650-6
- Fæða súlu við Ísland Geymt 29 janúar 2020 í Wayback Machine