Rauðsokkahreyfingin

Íslensk grasrótarhreyfing jafnréttis (1970-1982)

Rauðsokkahreyfingin var íslensk grasrótarhreyfing stofnuð árið 1970 í kjölfar ‘68-byltingarinnar í Evrópu sem átti rætur að rekja til mannréttinda- og friðarhreyfinga sem þá höfðu látið til sín taka vestan hafs og austan. Á þessum árum spruttu upp róttækir kvennahópar víða um lönd. Í Bandaríkjunum höfðu orðið til kvenfrelsishreyfingar, Women’s Lib, samstíga baráttu blökkumanna gegn kynþáttamismunun. Í Evrópu má nefna dönsku hreyfinguna Rødstrømperne, sænsku Grupp 8, Kvinnefronten í Noregi og Dolle Mina í Hollandi. Konur hvöttu hver aðra til að krefjast sjálfstæðis og jafnréttis á við karla og mannsæmandi lífskjara. Hreyfingin hér á landi lét fyrst að sér kveða þegar „konur á rauðum sokkum“ hópuðust saman á Hlemmi 1. maí 1970 [1] eftir að hafa heyrt hvatningu sem Vilborg Dagbjartsdóttir kom í ríkisútvarpið: „Konur á rauðum sokkum, hittumst á Hlemmi klukkan hálf eitt.“ Þær gengu síðan aftast í göngunni, þrátt fyrir andstöðu skipulagsnefndar verkalýðsfélaganna, og báru á öxlum sér stóra Venusarstyttu þar sem á stóð "Manneskja ekki markaðsvara". Styttan var leikmunur úr leiksýningunni Lýsiströtu. Eftir nokkra fundi um sumarið var Rauðsokkahreyfingin formlega kynnt til sögunnar á fjölmennum fundi í Norræna húsinu í október 1970 þar sem um 100 manns skráðu sig í starfshópa.[2]  Hreyfingin var litríkt og lifandi afl þar til hún var lögð niður árið 1982.

Lýsistrata í göngu
Venus borin í göngu 1. maí 1970. Messíana Tómasdóttir gerði styttunaLjósmyndari: Ari Kárason

Áhrifavaldar breyta

Meðal áhrifavalda að baki þessum hræringum voru rithöfundar svo sem John Stuart Mill (Kúgun kvenna), Friedrich Engels (Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins) og Simone de Beauvoir (Hitt kynið). Innlend samtímaáhrif komu meðal annars frá skáldkonunum Jakobínu Sigurðardóttur og Svövu Jakobsdóttur. Þann 19. mars 1971 var frumsýnt í nýju sjónvarpi landsmanna RÚV leikrit Svövu Jakobsdóttur Hvað er í blýhólknum?[3] Þetta er kaldhæðið verk með sterkum femíniskum boðskap og vakti gríðarlega athygli og mikið áhorf. Bandaríska tímaritið MS var lesið í leshringjum og ýmis rit norrænna baráttukvenna svo sem To køn - ét samfund, Kvinden i klassesamfundet eftir Hanne Reintoft og Kvindens lille røde[4] en einnig var horft til efnis frá samsvarandi norrænum hreyfingum. Goðsagan um konuna eftir Betty Friedan, Kvennaklósettið eftir Marilyn French og Kvengeldingurinn eftir áströlsku fræðikonuna Germaine Greer veittu rauðsokkum einnig innblástur. Sama átti við um barátturit eins og Against our will: Man, Woman and Rape  eftir Susan Brownmiller og Sexual Politics eftir Kate Millett. Greinar Helgu Kress um kvennarannsóknir í bókmenntum og fræðastarf norrænna femínista höfðu einnig mikil áhrif.

Konur fóru í vaxandi mæli að láta til sín taka í myndlistarheiminum og nýta sér efnivið utan hins hefðbundna málverks svo sem þráðlist og ljósmyndir. Á alþjóðavísu var þessum sjálfsprottnu kvennahreyfingum mikill styrkur að margvíslegri listrænni tjáningu.

Strax frá byrjun fóru að birtast skrif rauðsokka sjálfra í blöðum og tímaritum um stöðu kvenna frá mismunandi sjónarhornum sem vöktu konur til vitundar og urðu þeim hvatning til að rísa upp og sækja fram. Að baki rauðsokka var að sjálfsögðu áralöng barátta íslenskra kvenna fyrir kosningarétti og Kvenréttindafélags Íslands fyrir auknum réttindum kvenna í samfélaginu.

Þjóðfélagsaðstæður 1970 breyta

Viðhorf jafnt kvenna sem karla á þessum tíma var að starf kvenna á eigin heimili ætti að vera aðalstarf þeirra og launuð vinna úti í atvinnulífinu einungis tímabundin fyrir giftingu, það væri karlmannsins að sjá fyrir sér og sínum. Þrátt fyrir þetta vann fjöldi kvenna fulla launavinnu utan heimilis, ekki síst einhleypar konur og ekkjur, og margar giftar konur voru í ýmis konar hlutastörfum. En ríkjandi hugmyndir um stöðu og hlutverk kvenna tóku að úreltast. Jafnhliða breyttust viðhorf til atvinnu kvenna utan heimilis.[5]  

Á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina jókst smám saman hlutfall kvenna sem sótti sér framhaldsmenntun og æ fleiri konur héldu út á vinnumarkaðinn. Þótt konur væru þegar þriðjungur mannafla atvinnulífsins árið 1970 skorti mikið á að staða þeirra þar væri sambærileg við kjör og aðstæður karla. Margar stéttir voru konum lokaðar, launakjör þeirra yfirleitt bág og þeim að jafnaði haldið utan við stjórnunarstörf.[6] Laun fiskverkunarkvenna voru mjög lág en unnt að hækka þau með miklu vinnuálagi „bónuskerfis“. Þetta kom illa niður á konum í útgerðarbæjum um allt land.[7] [8] Sama gilti um verkakonur í þrifum og þjónustu. Alþjóðalög um sömu laun fyrir sömu vinnu, innleidd að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna, voru samþykkt hér á landi árið 1961 og áttu að koma til fullra framkvæmda árið 1967, en í þeim var ekki talað um jafngild störf. Skattamál endurspegluðu úreltan hugsunarhátt. Giftar konur töldu ekki fram til skatts í eigin nafni heldur voru tekjur þeirra lagðar við tekjur eiginmannsins, en 50% launa þeirra voru skattfrjáls. Það átti ekki við um laun einhleypra kvenna.

Heilsdagsgæsla á vegum ríkis og sveitarfélaga var eingöngu rekin fyrir börn einstæðra foreldra og lítinn hluta námsmanna. Verkakonur fengu flestar hálfsmánaðar til þriggja vikna fæðingarorlof sem greitt var úr sjóðum stéttarfélaga. Þær sem unnu hjá því opinbera áttu kost á þriggja mánaða fæðingarorlofi.

Í kringum 1970 voru konur um 15% þeirra sem luku prófi frá Háskóla Íslands. Í námsbókum voru kynin niðurnjörvuð í aldagömlum hlutverkum. Sumir skólar voru lokaðir konum. Ritverk kvenna voru kölluð kerlingabækur og erfitt fyrir konur að fá útgefanda að bókum sínum. Raddir kvenna heyrðust vart í útvarpi eða sjónvarpi. Á sviði stjórnmálanna voru konur afar fáar. Af 60 alþingismönnum sat ein kona á þingi og þrjár konur voru í 15 manna borgarstjórn Reykjavíkur.

Þær róttæku konur sem stofnuðu Rauðsokkahreyfinguna voru meðvitaðar um ójafna stöðu kynjanna í samfélaginu og staðráðnar í að knýja fram breytingar.

Skipulag hreyfingarinnar breyta

Rauðsokkahreyfingin var grasrótarhreyfing og vildi frá upphafi aðskilja sig frá því píramídaskipulagi sem ríkti hvarvetna í samfélaginu, innan félagasamtaka, hjá stjórnmálaflokkum, á Alþingi og í stjórnum fyrirtækja.[9]

Erlendis voru hugmyndir um hópefli og virkari félagaþátttöku farnar að ryðja sér til rúms. Skipulag Rauðsokkanna byggðist á sjálfsprottnum starfshópum og miðstöð. Hreyfingin hélt fast við þetta flata og opna skipulag allan starfstímann. Hún var opin öllum, bæði konum og körlum, sem vildu vinna að málefninu. Miðstöð, misfjölmenn, hélt utan um starfið án þess þó að stjórna því, en var gjarnan í leiðandi hlutverki. Þegar á leið var hlutverk miðstöðvar aukið, henni falin umsjá fjármála og stundum aðgerða og kveðið á um reglubundin fulltrúaskipti. Þannig færðist starfið smám saman í fastari skorður. Félagatal var ekkert, en haldið yfirlit eða spjaldskrá yfir virka félaga í málefnahópum, leshringjum eða fjölbreyttum átaksverkefnum.

Er líða tók á starfið sætti þetta opna félagsform gagnrýni fyrir að vera laust í reipunum og óskilvirkt. Nokkuð var til í gagnrýninni en allan tímann var talið mikilvægara að þátttaka væri frjáls og sveigjanleg og hóparnir hefðu sjálfræði um viðfangsefni, starfsaðferðir og starfstíma. Hreyfingin hafði enga fasta tekjustofna og æ erfiðara reyndist að fjármagna starfsemina sem alfarið byggðist á sjálfboðaliðastarfi.

Aðsetur rauðsokka breyta

Fyrstu árin átti hreyfingin fasta fundaaðstöðu í kjallararými að Ásvallagötu 8, Reykjavík, og hélt uppi laugardagskaffi í félagsheimilinu Hamragörðum. Frá árinu 1974 var leigt rúmgott húsnæði að Skólavörðustíg 12 í Reykjavík sem nefnt var Sokkholt. Þar voru haldnir fundir, samkomur og opið hús á laugardagsmorgnum, stundum með fyrirlestri eða umræðu um efni ofarlega á baugi. Konur skiptu með sér að sitja símavakt og opið hús var í tvær klukkustundir á virkum dögum. Í Sokkholti var barnahorn og notalegt andrúmsloft. Framan af skráðu félagar sig fyrir reglubundnum fjárframlögum til að greiða leiguna. Þegar á leið var farið að selja póstkort, límmerki, kaffikrúsir og hálsmen með merkjum hreyfingarinnar til fjármögnunar.

Kynning á málstaðnum: útgáfur, erindi, uppákomur og myndefni breyta

Hugmyndir Rauðsokka voru kynntar í töluðu og rituðu máli. Þær voru einnig settar fram í myndrænu formi með veggspjöldum og fjölbreyttum uppákomum á götum úti. Þetta gerði kvennabaráttuna mjög sýnilega öll árin sem hreyfingin starfaði.

Rauðsokkar komu fram í fjölmiðlum, fluttu erindi á ráðstefnum sem hreyfingin stóð fyrir eða tóku þátt í með öðrum félagasamtökum. Félagar höfðu framsögu á fundum klúbba og félagasamtaka þar sem málstaðurinn var kynntur, einkum á fyrri árum hreyfingarinnar. Fóru þá ætíð tveir eða fleiri fulltrúar saman því oft var hart sótt að þeim.

Sem dæmi um uppákomur má nefna þegar farið var með kvíguna Perlu til að taka þátt í fegurðarsamkeppni á Akranesi árið 1972 eða þegar þreytta húsmóðirin var hengd á jólatré í Austurstræti á Þorláksmessu árið 1974. Þessi karnívalismi þar sem hlutverk kvenna voru sýnd í nýju og oft framandlegu ljósi hélt áfram að einkenna hreyfinguna fram á síðustu árin eins og sjá mátti á „Kvennauppboði á Bernhöftstorfu“ í júlí 1980 þar sem fulltrúar ýmissa „kvennastarfa“ voru „boðnar upp“ og slegnar hæstbjóðanda.[10] Slagorðið frá fyrstu göngunni 1970 „Manneskja ekki markaðsvara!“ hljómaði í lok uppákomunnar.

Rauðsokkar sáu um tíu útvarpsþætti í Ríkisútvarpinu haustið 1972 sem nefndust „Ég er forvitin rauð“ og fjölluðu um vitundarvakningu kvenna, sambýlishætti og samlíf, dagvistun barna, menntun kvenna, atvinnumál, konuímynd í bókmenntum og fleira. Greiðslur fyrir þættina runnu til blaðaútgáfu.

Blaðið Forvitin rauð kom út árlega, ýmist eitt blað eða fleiri í ellefu ár, frá 1972–1982. Greinar fjölluðu meðal annars um stöðu kvenna á vinnumarkaði og þá ekki síst málefni verkakvenna, dagvistunarmál, fjölskylduna, pólitískt inntak femínismans og aðrar fréttir úr baráttunni. Í blaðinu sést kraftur hins myndræna forms glögglega. Útgáfan náði út fyrir landsteinana. Á árunum 1979–1982 voru nokkrir rauðsokkar við nám í Kaupmannahöfn og komu þar á fót kvennahópum sem meðal annars gáfu út eitt hefti Forvitinnar rauðrar. Fréttabréfið Staglið kom út óreglulega og beindist að innra starfi, svo sem verkefnum miðstöðvar og hópastarfi.

Á árunum 1973 til 1976 hélt Vilborg Harðardóttir blaðamaður úti Jafnréttissíðu Þjóðviljans á sunnudögum og átti síðan frumkvæði að því í nóvemberbyrjun 1977 að hleypt var af stokkunum sérstakri heilsíðu í Þjóðviljanum  sem birtist á laugardögum undir ritstjórn fimm manna hóps rauðsokka.[11] Síðan varð mikilvægur vettvangur fyrir miðlun upplýsinga, greina og viðtala um femínisma frá viku til viku, sem oft vöktu athygli og umræður. Skipt var reglulega um ritstjórn. Rauðsokkasíðan birtist til ársins 1980. Tekjum af síðunni var varið til leigu Sokkholts.

Starfið fram að kvennafrídeginum 1975 breyta

Frá upphafi var höfuðáhersla lögð á vitundarvakningu og fræðslu um stöðu kvenna. Starfshópar störfuðu um margvísleg málefni á fyrri hluta starfstíma hreyfingarinnar frá 1970–1975. Þátttaka kvenna í atvinnulífinu, kynjaður vinnumarkaður og fyrirvinnuhugtakið var í brennidepli. Margar ráðstefnur voru haldnar um þessi efni á fyrstu árunum, ekki síst um stöðu verkakvenna, gjarnan í samstarfi við verkalýðs- og stéttafélög. Nátengt umfjöllun um þátttöku í atvinnulífi var umfjöllun rauðsokka um möguleika kvenna til mennta og hindranir sem þær mættu við náms- og starfsval. Jafnframt var bent á mismunun í lögum, svo sem hjúskapar- og tryggingalöggjöf.[12] Svava Jakobsdóttir, alþingismaður, sem kom að starfi rauðsokkahreyfingarinnar, átti frumkvæði að frumvarpi um jafnlaunadóm sem ekki hlaut brautargengi, en í framhaldinu voru samþykkt lög um Jafnlaunaráð sem stofnað var árið 1973.[13] Fyrstu lög um jafnrétti kvenna og karla voru síðan samþykkt árið 1976.[14] [15] 

Skortur á dagvistun barna hamlaði þátttöku kvenna í atvinnulífinu, en rauðsokkar lögðu ekki síst áherslu á uppeldisgildi leikskóla. Kannanir voru gerðar á stöðu og þörf í dagvistarmálum og niðurstöður kynntar viðkomandi sveitarstjórnum og á opnum umræðufundum, einkum á árunum 1971 og 1972.[16] Rauðsokkar og Fóstrufélag Íslands héldu ráðstefnur um dagvistun barna árin 1974 og 1975 og voru samstíga í baráttu fyrir breytingum á lögum um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagheimila. Andstaða var víða í þjóðfélaginu gegn hugmyndum um slíka þjónustu sem birtist gjarnan á síðum dagblaða.[17] Jafnræði í menntun barna var jafnframt undir smásjá og beindist athyglin í því sambandi að kynjuðu efni í námsbókum og barnabókum og mismunun í handmenntum stúlkna og drengja.

Möguleikar til heilbrigðs lífernis voru eitt af baráttumálum rauðsokka. Ekkert verkefni var eins erfitt og sársaukafullt og baráttan fyrir ákvörðunarrétti kvenna til fóstureyðinga, en Rauðsokkar lögðu áherslu á að börn fæddust velkomin í heiminn og konur hefðu yfirráð yfir eigin líkama. Á þessum tíma fór fram endurskoðun á tvennum lögum er snertu þetta efni. Rauðsokkar dreifðu upplýsingum, skrifuðu greinar, héldu erindi og stóðu fyrir fundum um málið ásamt öðrum.[18] Lög um ráðgjöf, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir voru samþykkt árið 1975.[19] Vilborg Harðardóttir, félagi í hreyfingunni, átti þar mikilvægan þátt, en hún sat um tíma á Alþingi og var fulltrúi í nefnd sem samdi frumvarp sem lagt var fram á Alþingi árið 1973 en tók síðan nokkrum breytingum. Lögin mörkuðu tímamót fyrir konur, þótt fullnaðarsigur væri ekki unninn enn.[20] 

Á ráðstefnu rauðsokka á Skógum undir Eyjafjöllum sumarið 1974 var samþykkt róttæk stefnuyfirlýsing þar sem sagði að kvennabarátta yrði ekki slitin úr tengslum við stéttabaráttu. Samþykktin var umdeild og nokkrar konur sem voru ósáttar við hana gengu úr hreyfingunni. Þessi stefnumörkun hafði áhrif á starfið á síðari hluta starfstíma hreyfingarinnar.

Kvennaverkfall - Kvennafrí 1975 breyta

Sú hugmynd að konur leggðu niður störf í einn dag til að undirstrika mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og krefjast sömu réttinda og karlar hafði verið lifandi í rauðsokkahreyfingunni frá fyrstu árum hennar og víða sett fram og rædd við ýmsa aðila. Loks var ákveðið að láta til skarar skríða á því ári sem Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu konum undir kjörorðunum Jafnrétti, framþróun, friður. Í janúar 1975 var haldin láglaunaráðstefna í Lindarbæ á vegum rauðsokkahreyfingarinnar í samstarfi við Félag afgreiðslustúlkna í mjólkurbúðum, Iðju, félag verksmiðjufólks, Starfsstúlknafélagið Sókn og Starfsmannafélag ríkisstofnana. Þar var hugmyndinni um kvennaverkfall komið á framfæri og tillaga um að stefna að kvennaverkfalli samþykkt samhljóða í lok ráðstefnunnar.[21] Önnur ráðstefna var haldin í febrúar með Fóstrufélaginu og þar var hugmyndin ítrekuð og einnig á ráðstefnu um konur til sjávar og sveita í Neskaupstað um vorið.

Kvennaársnefnd á vegum hins opinbera var loks skipuð í lok maí 1975 og átti Rauðsokkahreyfingin fulltrúa í henni. Í framhaldinu var haldin fjölmenn ráðstefna að Hótel Loftleiðum með þátttöku sex samtaka. Stéttarfélög karla og kvenna og kvenfélög stjórnmálaflokkanna voru meðal þátttakenda. Í fundarlok var hugmyndin um kvennaverkfall lögð fram. Hart var tekist á um tillöguna en hún að lokum samþykkt eftir að Valborg Bentsdóttir snaraðist í pontu og mælti fyrir því að nefna aðgerðina ekki verkfall heldur myndu konur taka sér frí frá störfum í einn dag.[22] Í framhaldi af þessari samþykkt komu fulltrúar yfir 50 félagasamtaka saman til fundar og náðist þar samstaða þvert á faglegar stéttir og stjórnmálaskoðanir um að konur legðu niður vinnu um land allt á stofndegi Sameinuðu þjóðanna 24. október. Sérstök framkvæmdanefnd var skipuð og fjöldi sjálfboðaliða lagði málefninu lið. Þessi kvennahópur hvatti konur til samstöðu og undirbjó dagskrá útifundar á Lækjartorgi í Reykjavík og fundir voru undirbúnar víðar um land. Þátttaka varð geysimikil, á Lækjartorg komu um 25.000 konur og vakti atburðurinn athygli langt út fyrir landsteinana.[23] Markmiðið var skýrt afmarkað frá upphafi: Konur vildu sýna fram á að vinnuframlag þeirra úti í samfélaginu og inni á heimilunum væri svo afgerandi að án þess stöðvuðust hjól atvinnulífsins.

Starfið eftir kvennafrídaginn 1975 breyta

Nokkur vatnaskil urðu í Rauðsokkahreyfingunni eftir Kvennafrídaginn. Geysistórum áfanga var náð, draumur hafði ræst. Nýir félagar komu til liðs innblásnir af eldmóði útifundarins, skráðu sig í starfshópa og urðu virkir félagar. Sumar frumkvöðlanna voru horfnar á braut en aðrar störfuðu áfram og miðluðu reynslu til nýrra félaga. Svo mikil athygli beindist að Rauðsokkahreyfingunni á þessum tímamótum að hún laðaði að sér fylgismenn úr röðum róttækra stjórnmálahópa á vinstri væng sem vildu laga hana að sinni pólitísku stefnu. Skilningur Rauðsokka var að þótt ekki væri hægt að aðskilja kvennabaráttu og stéttabaráttu ætti erindi hreyfingarinnar fyrst og fremst að vera kvennapólitískt og alla stefnu skyldi móta á þeim forsendum. Sú varð niðurstaðan eftir umtalsverð átök milli þessara hópa.[24] [25]  

Segja má að hugmyndafræðilegar umræður og ágreiningur hafi einkennt tímabilið 1976–1982 sem og áhersla á menningu og miðlun. Þrjú þing voru haldin sérstaklega um skipulag og verkefni Rauðsokkahreyfingarinnar eða í september 1976 á Selfossi, í október 1978 í Ölfusborgum[26] og á Selfossi í október 1979.[27]  Launajafnrétti kvenna og karla var ætíð eitt meginbaráttumálið, rauðsokkar fylgdust vel með verkalýðshreyfingunni og áttu samstarf við félög verkakvenna. Rauðsokkahreyfingin studdi baráttu farandverkafólks og flutti fréttir af baráttunni í blaði sínu Forvitinni rauðri.[28]

Eitt af verkefnum Rauðsokkahreyfingarinnar var að draga fram hlut kvenna í sögu og menningu þjóðarinnar. Haustið 1978 var efnt til námskeiðs þar sem fjallað var um sögu kvennabaráttunnar, fjölskyldupólitík, uppruna kvennakúgunar, konur og verkalýðsmál, kvennabókmenntir o.fl. Efni af námskeiðinu var nýtt víðar um landið, til dæmis á námskeiði á vegum Námsflokka Neskaupstaðar. Á 8. mars, alþjóðlegum baráttudegi verkakvenna 1978, hélt Rauðsokkahreyfingin ásamt Kvenfélagi sósíalista og Menningar og friðarsamtökum íslenskra kvenna fjölmennan baráttufund. Þar var flutt dagskrá um sögu og baráttu verkakvenna í tali og tónum. Rauðsokkar gáfu dagskrána síðan út að viðbættum söngtextum og ítarefni.[29] Samsvarandi dagskrá um sögu og baráttu verkakvenna var gerð um og í samvinnu við Verkakvennafélagið Snót í Vestmannaeyjum og flutt á ráðstefnunni Maðurinn og hafið í júlí 1978. Rauðsokkar héldu fjölsóttar dagskrár í Reykjavík um rithöfundana Ástu Sigurðardóttur árið 1977,[30] sem var endurtekin í Neskaupstað sama ár, og Jakobínu Sigurðardóttur árið 1979.[31] Kvennahátíðin Frá morgni til kvölds var haldin í Tónabæ á árinu 1979 og endurtekin á Akureyri. Önnur hátíð undir yfirskriftinni Konur og atvinnulífið var haldin árið 1980. Baráttusöngvar gegndu stóru hlutverki í Rauðsokkahreyfingunni allt frá upphafi og margir tónlistarmenn lögðu henni lið. Rauðsokkakór starfaði á árunum1978-1980 og margir sönghópar komu og fóru.[32] Gefin var út söngbókin Syngjandi sokkar.

Á vegum Rauðsokkahreyfingarinnar var stofnaður hópur um heilsuvernd og heilbrigðismál kvenna sem ákvað að þýða og staðfæra dönsku bókina Kvinde kend din krop (1975). Vinna við bókina tók tvö ár og kom hún út undir nafninu Nýi kvennafræðarinn 1981.[33]  

Þegar komið var fram á níunda áratuginn voru nýir vindar farnir að blása og tími breytinga rann upp. Rauðsokkahreyfingin var lögð niður árið 1982. Nýjar kvennahreyfingar urðu til.

Arfleifð Rauðsokkahreyfingarinnar breyta

Rauðsokkahreyfingin var róttæk grasrótarhreyfing sem gagnrýndi feðraveldi kapítalismans. Hún einbeitti sér fyrst og fremst að vitundarvakningu kvenna um þá kúgun sem þær sættu í samfélaginu og byggðist einkum á lágum launum þeirra, tvöföldu vinnuálagi og ábyrgð. Þetta leiddi til mikilvægrar baráttu fyrir breytingum á stöðu og möguleikum kvenna. Einn af veigamestu áföngunum á starfstíma hreyfingarinnar var samþykkt laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir 1975 sem veitti konum aukinn sjálfsákvörðunarrétt yfir líkama sínum. Fullur sjálfsákvörðunarréttur náðist þó ekki fyrr en lög um þungunarrof voru samþykkt á Alþingi árið 2019. Rauðsokkahreyfingin setti sömuleiðis fram þýðingarmiklar tillögur og kröfur um dagvistarmál sem segja má að hafi reyndar ekki náð fram að ganga fyrr en um 30 árum eftir stofnun hreyfingarinnar. Sama á við um kröfur um lengt fæðingarorlof fyrir báða foreldra. Stofnun Jafnlaunaráðs, setning laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og stofnun Jafnréttisráðs voru mikilvægir áfangar sem áttu eftir að þróast enn frekar. Rauðsokkahreyfingin rauf þögnina um ofbeldi gegn konum með greinum í Forvitinni rauðri og víðar og félagar í hreyfingunni komu að stofnun Kvennaathvarfsins sem stofnað var í júní 1982.[34] Í Forvitinni rauðri var líka opnuð umræða um konur og fíkn[35] [36] og undir lok hreyfingarinnar tók hún málefni samkynhneigðra liðsmanna til umfjöllunar.[37] Rauðsokkahreyfingin markaði djúp spor í umræðu um bókmenntir og listir. Mikilvægust var þó stöðug umræða um það kynjamisrétti sem konur bjuggu við.

Rauðsokkahreyfingin hleypti af stokkunum róttækri kvennahreyfingu á grunni fyrri baráttu formæðranna fyrir kvenréttindum. Hún gagnrýndi ríkjandi samfélagsgerð og viðhorf til kvenna í þeirra mörgu hlutverkum, en fékk í kjölfarið á sig harða andstöðu og árásir, bæði pólitískar og persónulegar, jafnvel í formi hatursorðræðu og ógnana. Rauðsokkahreyfingin var brimbrjótur fyrir þær kvennahreyfingar sem á eftir komu.

Heimildir breyta

Bækur: breyta

 • Dagný Kristjánsdóttir. (1978). Frelsi og öryggi: Um sögur Svövu Jakobsdóttur og íslenska kvennahreyfingu (netútgáfa). https://hdl.handle.net/2027/wu.89050888510
 • Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. (2020). Konur sem kjósa. Sögufélagið.
 • Herdís Helgadóttir. (1996). Vaknaðu kona! Barátta rauðsokka frá þeirra eigin sjónarhóli. Skjaldborg.
 • Hildur Hákonardóttir. (2005). Já, ég þori, get og vil: Kvennafrídagurinn 1975, Vilborg Harðardóttir og allar konurnar sem bjuggu hann til. Salka.
 • Olga Guðrún Árnadóttir (ritstjóri). (2011). Á rauðum sokkum. Baráttukonur segja frá. Háskólaútgáfan. http://hdl.handle.net/10802/23236[óvirkur tengill]

Greinar og bókakaflar: breyta

 • Auður Styrkársdóttir. (1986). From social movement to politicial party: the new women's movement in Iceland. Í Drude Dahlerup (ritstjóri), The new women’s movement. Feminism and political power in Europe and the USA (bls. 140–157). Sage.
 • Kristín Ástgeirsdóttir. (2006). „Þar sem völdin eru, þar eru konurnar ekki“. Kvennaráðstefnur og kvennaáratugur Sameinuðu þjóðanna og áhrif þeirra á Íslandi 1975–2005. Saga XLIV(2), 7–49. https://timarit.is/files/44328044

Viðtöl: breyta

Heimildamynd: breyta

Tilvísanir breyta

 1. Konur mótmæla í dag! Tíminn 1. maí 1970.
 2. Rauðsokkahreyfingin myndar marga fjölþætta starfshópa. Þjóðv. 21. okt. 1970, bls. 3.
 3. Hvað er í blýhólknum 19. júní 1971.
 4. Silja Aðalsteinsdóttir, þýddi. Þýðing úr bókinn Kvinnens lille röde. Forvitin rauð, 1973, 2. tbl. bls. 18-19.
 5. Samvinnan. Konan er maður. 5. tbl. 1971 (allt heftið helgað Rauðsokkahreyfingunni).
 6. Gerður G. Óskarsdóttir. Konur á vinnumarkaðnum. Réttur, 4. tlb. 1973, bls. 216–240.
 7. Forvitin rauð, 1. maí 1973 (mest allt blaðið).
 8. Bónusvinna – þrælavinna. Rætt við Herdísi Ólafsdóttur á Akranesi. Þjóðv. 17. nóv. 1979, bls. 6.
 9. Hildur Hákonardóttir. Hornsteinar og höfuðpaurar. Samvinnan, 5. tbl. 1971, bls. 12–13.
 10. Kvennauppboð á Bernhöftstorfu: "Verkalýðskippan slegin á 80 þúsund!" Tíminn, 5. júlí 1980, bls. 3.
 11. Rauðsokkahreyfingin: Dagný Kristjánsdóttir o.fl. Út í hött að tala um jafrétti við óbreytt þjóðskipulag. Þjóðv., 5. nóv. 1977, bls. 6 og 14.
 12. Helga Sigurjónsdóttir. Lagafrumvörp. Samvinnan, 5. tbl. 1971, bls. 20–21.
 13. Frumvarp til laga um Jafnlaunaráð.
 14. Lög um jafnrétti kvenna og karla nr. 78/1976.
 15. Jafnréttisstofa. Eldri lög um jafnrétti kynja.
 16. Gerður G. Óskarsdóttir, Viðhorf Rauðsokka til barnaheimilismála. Samvinnan, 5. tbl. 1971, bls. 28-29.
 17. Kristján J. Gunnarsson. Staða konunnar í þjóðfélaginu. Tækniþróun og uppeldi. Mbl. 19. jan. 1971, bls. 17 og 24.
 18. Forvitin rauð, jan. 1974, 3. blað (allt blaðið tileinkað þessu efni).
 19. Lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975.
 20. Guðrún Kristinsdóttir. Konur taki höndum saman. Um framkvæmd fóstureyðingalaganna. 19. júní, ársrit Kvenréttindafélags Íslands 1983, bls. 70–71.
 21. Guðrún Ágústsdóttir o.fl. Leggjum niður vinnu til að sýna að munar um okkur! Þjóðv. 7. febr. 1975, bls. 7–10 (ræður fluttar á ráðstefnunni).
 22. Kristín Svava Tómasdóttir. 24.oktober 1975 – Kvennafrí eða kvennaverkfall. Sagnir, 2009, bls. 19-25.
 23. Kvennafrídagur 24. október 1975. Kvennasögusafn Íslands.
 24. Hlín Agnarsdóttir og Þórdís Richardsdóttir. Við viljum nýja kvennahreyfingu og það strax. Þjóðv. 10. nóv. 1978, bls. 7.
 25. Sólrún Gísladóttir. Sóun á "dýrmætum baráttukröftum". Þjóðv. 3. febr. 1979, bls. 7.
 26. Rauðsokkahátíð og útgáfustarfsemi meðal næstu verkefna, Þjóðv. 18.okt. 1978, bls. 11.
 27. Fjörug ráðstefna á Selfossi. Þjóðv., 3. nóv. 1979, bls. 7.
 28. Kasja Kasprzyk Copeland. Eins og dýr í búri. Forvitin rauð, 1980, 1. tbl. bls. 2–3.
 29. 8. mars !!: alþjóðlegur baráttudagur verkakvenna. Rauðsokkahreyfingin, Kvenfélag sósíalista, M.F.Í.K.
 30. Rauðsokkar kynna Ástu Sigurðardóttur, skáldkonu. Mbl. 26. febr. 1977, bls. 3 og 22.
 31. Jakobínuvaka, Mbl, 6. júní 1979, bls. 37.
 32. Kór rauðsokka (1978–1982).
 33. Nýi kvennafræðarinn. Handbók fyrir konur á öllum aldri. 1981, MM. Umsögn í 19. Júní, 1982, bls. 63.
 34. Elísabet Gunnarsdóttir. Eins og hvert annað heimili. 19. júní, ársrit Kvenréttindafélags Íslands 1983, bls. 62–64.
 35. Að vera í alkóhólnum. Hvernig líf er það. Þjóðv. 23. des. 1978, bls. 8.
 36. Dagný Kristjánsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir. Konur og vímugjafar. Forvitin rauð, 1980, 3. tbl., bls. 6.
 37. Að hafa kynhneigð til eigin kyns. Forvitin rauð, 1. tbl. 1980, bls. 6-7.