Helga Kress (f. 21. september 1939) er prófessor emeritus í almennri bókmenntafræði við Hugvísindadeild Háskóla Íslands.[1]

Einkalíf

breyta

Helga Kress er fædd í Reykjavík og er dóttir hjónanna Kristínar Önnu Thoroddsen (1904-1988), matreiðslukennara, og Bruno Kress (1907-1997), menntaskólakennara í Reykjavík og síðar prófessors í norrænum fræðum við Háskólann í Greifswald. Börn Helgu eru Már Jónsson (1959), sagnfræðingur, og Kristín Anna Jónsdóttir (1969), hjúkrunarfræðingur. Barnabörnin eru sex.

Ferill

breyta

Helga lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1959, nam þýsku við háskólana í Köln og Freiburg í Þýskalandi árið 1963, lauk kandídatsprófi í íslensku með þýsku með aukagrein frá heimspekideild Háskóla Íslands vorið 1969 og prófi í almennri bókmenntafræði frá Universitetet í Bergen í Noregi árið 1980. Hún var lektor í íslensku fyrir erlenda stúdenta við heimspekideild Háskóla Íslands 1970 til 1973, fyrsta konan sem var fastráðin kennari við deildina. Á árunum 1973 til 1979 var hún sendikennari við Universitetet i Bergen, auk þess sem hún stundaði þar framhaldsnám í bókmenntafræði. Árið 1981 var hún skipuð lektor og síðan dósent í almennri bókmenntafræði við heimspekideild Háskóla Íslands. Hún stundaði rannsóknir og kennslu við norrænudeild Kaliforníuháskóla í Berkeley frá ársbyrjun 1989 til hausts 1990. Á kvennadaginn 19. júní 1991 var hún skipuð prófessor í almennri bókmenntafræði við heimspekdideild Háskóla Íslands með forsetabréfi undirrituðu af Vigdísi Finnbogadóttur. Hún var forseti heimspekideildar Háskóla Íslands 1997-1999, fyrsta konan sem kjörin var til embættis deildarforseta við Háskóla Íslands frá stofnun hans 1911.[2][3] Helga hefur verið prófessor emeritus frá september 2009.

Rannsóknir

breyta

Rannsóknir Helgu hafa einkum beinst að íslenskri bókmenntasögu og íslenskri bókmenntahefð að fornu og nýju frá kvenna- og kynjafræðilegu sjónarhorni. Hún er brautryðjandi í femínískum bókmenntarannsóknum á Íslandi og meðal mikilvirkustu og áhrifamestu bókmenntafræðinga landsins. Hún hefur rannsakað sögu íslenskra kvennabókmennta frá upphafi með áherslu á fyrstu kvenrithöfundana, ósýnileika þeirra og viðtökur í karllægri bókmenntahefð. Einnig hefur hún kannað sjálfsævisöguleg skrif kvenna og kvenlýsingar í verkum karlhöfunda, einkum Jónasar Hallgrímssonar og Halldórs Laxness. Samband karnivals, kvenleika og karlmennsku í íslenskum miðaldabókmenntum, einkum Íslendingasögum og Eddukvæðum hefur einnig verið viðfangsefni rannsókna hennar. Þá hefur hún fengist við ritstjórn og þýðingar sem og greiningu á rannsókna- og ritstuldi (plagíarisma).[4][1]

Helstu ritverk

breyta

Viðurkenningar

breyta

Helga hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir rannsóknir sínar og ritstörf. Á nýársdag 1998 var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir bókmenntarannsóknir,[5] 24. október árið 2000 hlaut hún viðurkenningu Jafnréttisráðs sem brautryðjandi í jafnréttismálum[6] og 27. apríl 2007 var hún gerð heiðursfélagi í Félagi íslenskra fræða.[4] Þá efndu Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum og EDDU-öndvegissetur til málþingsins “Staðlausir stafir” Helgu til heiðurs árið 2010.[7]

Ýmis störf og verkefni

breyta

Auk kennslu og rannsókna hefur Helga gegnt ýmsum stjórnunar- og trúnaðarstörfum.[1] Árin 1971-1973 sat hún í stjórn Félags íslenskra fræða og 1981-1991 í stjórn og úthlutunarnefnd Vísindasjóðs (síðar Vísindaráðs). Hún sat í Menntamálaráði Íslands og stjórn Menningarsjóðs 1987-1991 og var í fyrstu stjórn Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands 1990-1998[2] og fyrsti forstöðumaður stofunnar. Þá var hún forstöðumaður Bókmenntafræðastofnunar Háskóla Íslands 1992-1995 og forseti International Association for Scandinavian Studies (IASS) 1992-1994. Í ágúst 1994 stjórnaði Helga alþjóðlegri ráðstefnu sem samtökin stóðu fyrir undir nafninu „Litteratur og kjønn i Norden“ í Reykjavík. Hún hefur verið félagi í Vísindafélagi Íslendinga frá 1986, ásamt því að vera í stjórn þess 2005-2009.[4][1]

Heimildir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „ACADEMIA. Helga Kress“. Sótt 15. október 2019.
  2. 2,0 2,1 „Erla Hulda Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir. (1998). Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna (bls. 55)“. Sótt 15. október 2019.
  3. Morgunblaðið, „Í fyrsta sinn í sögu HÍ“, 22. apríl 1997. Sótt 17. júní 2019.
  4. 4,0 4,1 4,2 „Vísindavefur. (2018). Hvaða rannsóknir hefur Helga Kress stundað?“. Sótt 15. október 2019.
  5. Forseti Íslands. Orðuhafaskrá Geymt 26 ágúst 2019 í Wayback Machine. Sótt 15. október 2019.
  6. Mbl.is. (2000, 25. október). Viðurkenning Jafnréttisráðs ári 2000. Veitt viðurkenning fyrir brautryðjendastörf. Sótt 15. október 2019.
  7. Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Staðlausir stafir – Málþing til heiðurs Helgu Kress. Sótt 15. október 2019.