Helga Kress
Helga Kress (f. 21. september 1939) er prófessor emeritus í almennri bókmenntafræði við Hugvísindadeild Háskóla Íslands.[1]
Einkalíf
breytaHelga Kress er fædd í Reykjavík og er dóttir hjónanna Kristínar Önnu Thoroddsen (1904-1988), matreiðslukennara, og Bruno Kress (1907-1997), menntaskólakennara í Reykjavík og síðar prófessors í norrænum fræðum við Háskólann í Greifswald. Börn Helgu eru Már Jónsson (1959), sagnfræðingur, og Kristín Anna Jónsdóttir (1969), hjúkrunarfræðingur. Barnabörnin eru sex.
Ferill
breytaHelga lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1959, nam þýsku við háskólana í Köln og Freiburg í Þýskalandi árið 1963, lauk kandídatsprófi í íslensku með þýsku með aukagrein frá heimspekideild Háskóla Íslands vorið 1969 og prófi í almennri bókmenntafræði frá Universitetet í Bergen í Noregi árið 1980. Hún var lektor í íslensku fyrir erlenda stúdenta við heimspekideild Háskóla Íslands 1970 til 1973, fyrsta konan sem var fastráðin kennari við deildina. Á árunum 1973 til 1979 var hún sendikennari við Universitetet i Bergen, auk þess sem hún stundaði þar framhaldsnám í bókmenntafræði. Árið 1981 var hún skipuð lektor og síðan dósent í almennri bókmenntafræði við heimspekideild Háskóla Íslands. Hún stundaði rannsóknir og kennslu við norrænudeild Kaliforníuháskóla í Berkeley frá ársbyrjun 1989 til hausts 1990. Á kvennadaginn 19. júní 1991 var hún skipuð prófessor í almennri bókmenntafræði við heimspekdideild Háskóla Íslands með forsetabréfi undirrituðu af Vigdísi Finnbogadóttur. Hún var forseti heimspekideildar Háskóla Íslands 1997-1999, fyrsta konan sem kjörin var til embættis deildarforseta við Háskóla Íslands frá stofnun hans 1911.[2][3] Helga hefur verið prófessor emeritus frá september 2009.
Rannsóknir
breytaRannsóknir Helgu hafa einkum beinst að íslenskri bókmenntasögu og íslenskri bókmenntahefð að fornu og nýju frá kvenna- og kynjafræðilegu sjónarhorni. Hún er brautryðjandi í femínískum bókmenntarannsóknum á Íslandi og meðal mikilvirkustu og áhrifamestu bókmenntafræðinga landsins. Hún hefur rannsakað sögu íslenskra kvennabókmennta frá upphafi með áherslu á fyrstu kvenrithöfundana, ósýnileika þeirra og viðtökur í karllægri bókmenntahefð. Einnig hefur hún kannað sjálfsævisöguleg skrif kvenna og kvenlýsingar í verkum karlhöfunda, einkum Jónasar Hallgrímssonar og Halldórs Laxness. Samband karnivals, kvenleika og karlmennsku í íslenskum miðaldabókmenntum, einkum Íslendingasögum og Eddukvæðum hefur einnig verið viðfangsefni rannsókna hennar. Þá hefur hún fengist við ritstjórn og þýðingar sem og greiningu á rannsókna- og ritstuldi (plagíarisma).[4][1]
Helstu ritverk
breyta- Máttugar meyjar. Íslensk fornbókmenntasaga Geymt 15 október 2019 í Wayback Machine (1993).
- Fyrir dyrum fóstru. Konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum (1996).
- Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur Geymt 15 október 2019 í Wayback Machine (1997).
- Speglanir. Konur í íslenskri bókmenntahefð og bókmenntasögu Geymt 15 október 2019 í Wayback Machine (2000).
- Óþarfar unnustur og aðrar greinar um íslenskar bókmenntir Geymt 15 október 2019 í Wayback Machine (2009).
Viðurkenningar
breytaHelga hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir rannsóknir sínar og ritstörf. Á nýársdag 1998 var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir bókmenntarannsóknir,[5] 24. október árið 2000 hlaut hún viðurkenningu Jafnréttisráðs sem brautryðjandi í jafnréttismálum[6] og 27. apríl 2007 var hún gerð heiðursfélagi í Félagi íslenskra fræða.[4] Þá efndu Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum og EDDU-öndvegissetur til málþingsins “Staðlausir stafir” Helgu til heiðurs árið 2010.[7]
Ýmis störf og verkefni
breytaAuk kennslu og rannsókna hefur Helga gegnt ýmsum stjórnunar- og trúnaðarstörfum.[1] Árin 1971-1973 sat hún í stjórn Félags íslenskra fræða og 1981-1991 í stjórn og úthlutunarnefnd Vísindasjóðs (síðar Vísindaráðs). Hún sat í Menntamálaráði Íslands og stjórn Menningarsjóðs 1987-1991 og var í fyrstu stjórn Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands 1990-1998[2] og fyrsti forstöðumaður stofunnar. Þá var hún forstöðumaður Bókmenntafræðastofnunar Háskóla Íslands 1992-1995 og forseti International Association for Scandinavian Studies (IASS) 1992-1994. Í ágúst 1994 stjórnaði Helga alþjóðlegri ráðstefnu sem samtökin stóðu fyrir undir nafninu „Litteratur og kjønn i Norden“ í Reykjavík. Hún hefur verið félagi í Vísindafélagi Íslendinga frá 1986, ásamt því að vera í stjórn þess 2005-2009.[4][1]
Heimildir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 „ACADEMIA. Helga Kress“. Sótt 15. október 2019.
- ↑ 2,0 2,1 „Erla Hulda Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir. (1998). Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna (bls. 55)“. Sótt 15. október 2019.
- ↑ Morgunblaðið, „Í fyrsta sinn í sögu HÍ“, 22. apríl 1997. Sótt 17. júní 2019.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 „Vísindavefur. (2018). Hvaða rannsóknir hefur Helga Kress stundað?“. Sótt 15. október 2019.
- ↑ Forseti Íslands. Orðuhafaskrá Geymt 26 ágúst 2019 í Wayback Machine. Sótt 15. október 2019.
- ↑ Mbl.is. (2000, 25. október). Viðurkenning Jafnréttisráðs ári 2000. Veitt viðurkenning fyrir brautryðjendastörf. Sótt 15. október 2019.
- ↑ Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Staðlausir stafir – Málþing til heiðurs Helgu Kress. Sótt 15. október 2019.