Muammar Gaddafi
Muammar Muhammad Abu Minyar al-Gaddafi (arabíska: مُعَمَّر القَذَّافِي Muʿammar al-Qaḏḏāfī, 7. júní 1942 – 20. október 2011), þekktur sem Muammar Gaddafi (stundum skrifað Gaddafí á íslensku) var einræðisherra Líbíu frá 1969 til 2011. Hann var þjóðhöfðingi Líbíu frá 1969 til ársins 1977. Eftir það sagðist hann vera tákngervingur landsins og bar titilinn „hinn bróðurlegi leiðtogi og vegvísir byltingarinnar og Jamahiriya“.[1] Hann var fangaður í orrustunni við Sirte og var þá drepinn.
Muammar Gaddafi معمر محمد أبو منيار القذافي | |
---|---|
Þjóðhöfðingi Líbíu | |
Í embætti 1. september 1969 – 20. október 2011 | |
Forsætisráðherra | |
Forveri | Idris (sem konungur) |
Eftirmaður | Mustafa Abdul Jalil (sem formaður þjóðarráðs) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 7. júní 1942 Qasr Abu Hadi, Líbíu |
Látinn | 20. október 2011 (69 ára) Sirte, Líbíu |
Þjóðerni | Líbískur |
Stjórnmálaflokkur | Arabíska sósíalistabandalagið (1969–70) Óflokksbundinn (1970–2011) |
Maki | Fatiha al-Nuri (1969–70) Safia el-Brasai (1970–2011) |
Börn | 10 |
Starf | Hermaður, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Gaddafi var mjög umdeildur leiðtogi sem drottnaði yfir líbískum stjórnmálum í fjóra áratugi og hvatti á þeim tíma til mikillar leiðtogadýrkunar á sjálfum sér. Fylgjendur hans litu á hann sem fánabera andstöðu gegn vestrænni heimsvaldshyggju og fyrir arabískri og síðar afrískri samstöðu. Íslamskir bókstafstrúarmenn voru ákaflega mótfallnir samfélags- og efnahagsbreytingum hans. Gaddafi var jafnframt sakaður um kynferðisofbeldi eftir dauða sinn. Víðast hvar var hann fordæmdur sem einræðisherra sem bar ábyrgð á grófum mannréttindabrotum og studdi við hryðjuverkahópa um allan heim.[2][3]
Æviágrip
breytaGaddafi fæddist nærri Sirte til fátækrar Bedúinafjölskyldu á tímum ítalskra nýlenduyfirráða í Líbíu. Hann fór að aðhyllast arabíska þjóðernishyggju sem nemandi í skóla í Sabha og gekk síðar í konunglega hernaðarháskólann í Benghazi. Gaddafi stofnaði leynifélag „Frjálsra liðsforingja“[4] innan hersins og leiddi með því byltingu gegn Idris Líbíukonungi árið 1969. Eftir byltinguna breytti Gaddafi Líbíu í lýðveldi sem stjórnað var af byltingarráði undir formennsku hans. Gaddafi réð landinu með stjórnartilskipunum og lét reka bæði almenna ítalska borgara og vestræna hermenn úr landinu.[4] Hann ræktaði hins vegar samband Líbíu við aðrar þjóðernissinnaðar arabastjórnir, sér í lagi stjórn Nassers í Egyptalandi,[2] og hvatti án árangurs til arabískrar stjórnarsameiningar.
Gaddafi var hlynntur íslamskri nútímavæðingu og byggði lagakerfi sem hann kallaði „íslamskan sósíalisma“ á túlkun sinni á sjaríalögum. Hann þjóðnýtti líbíska olíuiðnaðinn og notaði tekjurnar af honum til að styrkja ríkisherinn, fjármagna byltingarhreyfingar í öðrum löndum og til að hrinda af stað ýmsum samfélagsverkefnum,[2] þar á meðal byggingu nýrra húsa, sterkari heilsugæslu og víðameira menntakerfi. Árið 1973 hratt Gaddafi af stað svokallaðri „alþýðubyltingu“ sem kom að nafninu til á kerfi beins lýðræðis í Líbíu, en í reynd viðhélt Gaddafi þó ákvörðunarrétti í öllum mikilvægum málefnum. Sama ár gaf Gaddafi út „Græna kverið“, þar sem hann lýsti hinni svokölluðu „þriðju allsherjarkenningu“ sem hann hugðist byggja stjórn sína á. Í bókinni hafnaði Gaddafi bæði kapítalisma og kommúnisma og kvaðst ætla að byggja svokallað „ríki fjöldans“ eða Janahitiyah í Líbíu.[2]
Gaddafi gerðist að orðinu til táknrænn þjóðarleiðtogi og afsalaði sér embættislegum völdum árið 1977[3] en í reynd var hann áfram leiðtogi hernaðar- og byltingarráðanna sem sáu um lögsögu og um að kveða niður andóf. Á áttunda og níunda áratugnum leiddu landamæradeilur Líbíu við Egyptaland og Tjad auk meintra tengsla landsins við Lockerbie-sprenguárásina í Skotlandi og skæruhernað í ýmsum löndum til þess að Líbía einangraðist á alþjóðasviðinu. Sér í lagi versnaði samband Líbíu við Bretland, Bandaríkin og Ísrael. Árið 1986 gerðu Bandaríkin loftárásir á Líbíu og Sameinuðu þjóðirnar hófu efnahagsþvinganir gegn landinu.
Frá og með árinu 1999 sneri Gaddafi baki við arabískum sósíalisma og fór þess í stað að styðja einkavæðingu í efnahagsmálum, bætt samskipti við vesturveldin og samstöðu milli Afríkuríkja. Gaddafi var formaður Afríkusambandsins frá 2009 til 2010.
Í arabíska vorinu árið 2011 brutust út mótmæli gegn víðtækri spillingu og atvinnuleysi í austurhluta Líbíu. Óeirðirnar leiddu til borgarastyrjaldar og Atlantshafsbandalagið ákvað að grípa inn í til stuðnings andstæðingum Gaddafi. Stjórn Gaddafi var steypt af stóli og Gaddafi flúði til Sirte en var þar handsamaður og drepinn af uppreisnarmönnunum.
Tilvísanir
breyta- ↑ Björn Teitsson (25. febrúar 2011). „Píslarvottur byltingarinnar“. Dagblaðið Vísir. Sótt 9. nóvember 2018.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 „Muammar el Gaddafi“. Morgunblaðið. 6. febrúar 1982. Sótt 9. nóvember 2018. „Hann heldur straum af kostnaði við starfsemi hryðjuverkamanna í 45 löndum heims og liggur undir grun um að hafa staðið að morðtilræðum að sex þjóðarleiðtogum.“
- ↑ 3,0 3,1 „Gaddafi nýtur ekki góðs umtals erlendis“. Dagblaðið Vísir. 9. janúar 1986. Sótt 9. nóvember 2018.
- ↑ 4,0 4,1 „Maðurinn sem Ísrael óttast“. Vikan. 3. maí 1973. Sótt 9. nóvember 2018.