Vaka-Helgafell er bókaforlag sem var stofnað 30. september 1985 þegar Bókaforlagið Vaka (stofnað 1981) keypti bókaforlagið Helgafell (stofnað 1942). Ólafur Ragnarsson, stofnandi og aðaleigandi Vöku, stýrði forlaginu alla tíð.

30. júní árið 2000 sameinaðist Vaka-Helgafell aðalsamkeppnisaðila sínum til margra ára Máli og menningu og stofnaði bókaforlagið Eddu - miðlun og útgáfu. Nýja forlagið hélt áfram að gefa út bækur með nöfnum bókaforlaganna tveggja. Árið 2003 keypti svo Edda bókaforlagið Iðunni. Eftir sameiningu útgáfuhluta Eddu og JPV gengu forlögin inn í nýtt forlag, Forlagið, sem var stofnað 1. október 2007.

Þrátt fyrir sameininguna koma bækur enn út undir nafni Vöku-Helgafells og á meðal þeirra höfunda sem þar gefa út bækur sínar er söluhæsti rithöfundur þjóðarinnar, Arnaldur Indriðason, en allar bækur hans hafa komið út undir nafni forlagsins. Einnig er Vaka-Helgafell útgefandi verka Halldórs Laxness en fyrirrennarinn, Helgafell, gaf út bækur hans allt frá stofnun 1942. Annars gefur Vaka-Helgafell nú einkum út handbækur af ýmsu tagi, svo og barnabækur.

Heimildir

breyta
  • „Í hringekju sögunnar. Gagnasafn Morgunblaðsins, skoðað 25. apríl 2011“.
  • „Mál og Menning og JPV sameinast“. ruv.is.