Níels Danakonungur
Níels eða Nikulás (um 1064 – 25. júní 1134) var konungur Danmerkur frá 1104 til dauðadags. Hann var fimmti frillusonur Sveins Ástríðarsonar sem settist í hásætið og sá þeirra sem ríkti langlengst, eða í þrjátíu ár.
Bróðir Níels, Eiríkur góði, dó á Kýpur 1103 í pílagrímsferð til Jerúsalem. Hann hafði sett frilluson sinn, Harald kesju, sem staðgengil sinn en þegar danskir höfðingjar komu saman til að velja konung kusu þeir hann ekki, heldur Níels. Vera má að þeir hafi talið að hann yrði þeim ráðþægari en Haraldur, enda þótti Níels ekki sérlega sterkur konungur. Þó voru stjórnarár hans lengi vel friðsamleg. Honum tókst að koma á tíundargreiðslum til kirkjunnar. Hann kom á vísi að embættismannakerfi þar sem hirðmenn voru settir á ýmsa staði í ríkinu og þeim falið að innheimta sektir og fleira.
Um svipað leyti og Níels tók við krúnunni giftist hann Margréti dóttur Inga konungs eldri af Svíþjóð, sem kölluð var friðkolla (Fredkulla) af því að hún hafði áður verið gift Magnúsi berfætta Noregskonungi sem hluti af friðarsamningum sem gerðir voru í Konungahellu 1101. Sonur þeirra Níelsar var Magnús sterki. Hún dó um 1127 og árið 1130 giftist Níels Úlfhildi Hákonardóttur, sem hafði verið gift Inga yngri konungi Svíþjóðar. Hún skildi þó fljótt við Níels og giftist Sörkvi Svíakonungi.
Knútur lávarður, sonur Eiríks góða, ólst upp hjá Hvide-ættinni á Sjálandi og einnig í Þýskalandi. Hann var gerður hertogi af Slésvík 1115 og aflaði sér mikilla vinsælda þar. Magnús sterki fór að líta á Knút sem hættulegan keppinaut um ríkiserfðir og í ársbyrjun 1131 bauð hann Knúti á fund í Haraldsted-skógi við Ringsted og myrti hann þar 7. janúar. Morðið var kveikjan að margra ára borgarastríði milli Magnúsar og Eiríks eymuna, hálfbróður Knúts. Varð það til þess að Innósentíus II páfi svipti dönsku kirkjuna sjálfstæði og lagði hana aftur undir erkibiskupsdæmið í Hamborg-Brimum. Það varð aftur til þess að afla Eiríki öflugra fylgismanna. Þann 4. júní 1134 varð bardagi milli fylkinganna nálægt Lundi. Þar féll Magnús. Níels konungur flúði til Slésvíkur en íbúar þar hefndu Knúts lávarðs og drápu hann. Hann var lagður til hvílu í dómkirkjunni í Slésvík.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Niels af Danmark“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. mars 2010.
Fyrirrennari: Eiríkur góði |
|
Eftirmaður: Eiríkur eymuni |