Margrét friðkolla

Margrét friðkolla Ingadóttir (d. 1130) var sænsk konungsdóttir sem varð drottning Noregs 1101-1103 og síðar Danmerkur frá 1105 til dauðadags og var þá hinn raunverulegi stjórnandi landsins.

Margrét var dóttir Inga eldri Steinkelssonar, konungs Svíþjóðar. Þegar Svíar og Norðmenn sömdu frið í Konungahellu 1101 var hjónaband milli hennar og Magnúsar berfætts Noregskonungs hluti af samkomulaginu og var Margrét send til Noregs með fríðu föruneyti. Viðurnefnið friðkolla er rakið til þessara friðarsamninga. Hjónabandið var þó skammvinnt því Magnús féll á Írlandi 1103. Þau höfðu ekki átt barn saman.

Árið 1105 giftist Margrét svo Níels, yngsta syni Sveins Ástríðarsonar, sem hafði orðið konungur Danmerkur ári fyrr. Hann þótti ekki stjórnsamur og er sagt að Margrét drottning hafi að mestu séð um að stýra ríkinu. Það mun henni hafa farist vel úr hendi og voru samskipti við Svíþjóð til dæmis sérlega friðsamleg meðan hún lifði. Hún lét slá sína eigin mynt og stendur á peningum Margareta-Nicalas (Margrét-Níels).

Margrét dó árið 1130 og eftir lát hennar giftist Níels Úlfhildi Hákonardóttur, ekkju Inga yngri Svíakonungs, sem skildi þó fljótt við Níels og giftist Sörkvi eldri Svíakonungi.

Margrét og Níels áttu synina Magnús sterka og Inga, sem dó á barnsaldri.

Heimildir

breyta