Eiríkur góði (um 10561103) var konungur Danmerkur frá 1095 til dauðadags. Hann var fjórði sonur Sveins Ástríðarsonar sem settist á konungsstól. Hann var frilluborinn og er nafn móður hans óþekkt.

Grafsteinn Eiríks góða

Eiríkur var kjörinn konungur eftir lát Ólafs bróður síns sumarið 1095. Hann var hávaxinn og sterkur og sagður hafa verið vinsælastur bræðra sinna. Hann var með Knúti helga bróður sínum þegar hann var myrtur í dómkirkjunni í Óðinsvéum og var sá eini af mönnum hans sem slapp þaðan lifandi.

Í upphafi konungsferils síns átti hann í harðri baráttu við Vinda í Norður-Þýskalandi og hafði betur. Hann hélt svo áfram að berjast fyrir því að fá Knút bróður sinn tekinn í helgra manna tölu, en á því hafði hann byrjað þegar eftir dráp Knúts, og tókst það. Einnig hélt hann áfram baráttu sem faðir hans hafði hafið fyrir því að fá sjálfstætt erkibiskupsdæmi í Danmörku og losa dönsku kirkjuna undir valdi erkibiskupsins í Hamborg-Brimum. Þetta tókst árið 1103, þegar erkibiskupsdæmið í Lundi (sem þá og lengi síðan tilheyrði Danmörku) var stofnað.

Sama ár ákvað Eiríkur að fara í pílagrímsferð til Jerúsalem. Hann hélt með fjölmennu fylgdarliði suður um Rússland og til Miklagarðs, þar sem hann heimsótti keisarann. Hann komst þó aldrei á áfangasað, heldur dó á Kýpur og er grafinn í Paphos. Bóthildur drottning, sem var með í för, hélt áfram til Landsins helga og dó að sögn á Olíufjallinu.

Sonur Eiríks og Bóthildar var Knútur lávarður (1096-1131), faðir Valdimars mikla Knútssonar konungs. Hann var barn að aldri þegar foreldrar hans dóu og Níels föðurbróðir hans var því valinn konungur. Eiríkur átti líka nokkur frillubörn, þar á meðal Harald kesju, sem settur var til að stjórna ríkinu þegar faðir hans fór í pílagrímsferðina, en þótti mjög harður og ófyrirleitinn og átti það stóran þátt í að hann varð ekki konungur eftir lát Eiríks þótt hann gerði kröfu til þess; Eirík eymuna, síðar konung, og Ragnhildi, móður Eiríks lambs, síðar konungs.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Ólafur hungur
Konungur Danmerkur
(10951103)
Eftirmaður:
Níels