Egg (matvæli)
Egg er okfruma ásamt næringarforða handa nýjum einstaklingi, innilukt í hýði eða skurn, og skiptist í eggjarauðu, sem er aðalnæring fósturvísisins, og eggjahvítu, sem hefur aðallega það hlutverk að verja rauðuna og fósturvísinn en inniheldur einnig næringu, einkum prótein.
Kvendýr ýmissa tegunda, bæði fugla, skriðdýra og froskdýra, verpa eggjum til þess að fjölga sér. Þau egg sem höfð eru til manneldis koma oftast frá alidýrum en þó er einnig nokkuð um að egg villtra dýra séu tínd og höfð til matar.
Flest ætileg egg, meðal annars fugla- og skjaldbökuegg eru samsett úr harðri ytri eggjaskurn, eggjahvítu, eggjarauðu og þunnum himnum sem skilja á milli hluta eggsins. Allir hlutar eggsinns eru ætilegir, þótt eggjaskurnin sé sjaldan höfð til matar. Hún er kalkauðug og fyrir kemur að hún er mulin í duft og höfð í mat.
Egg fugla eru algengur matur og koma egg, sem höfðu eru til manneldis, aðallega úr hænum, öndum og gæsum, en egg margra annarra fugla, bæði villtra og taminna, eru einnig borðuð. Strútsegg eru til dæmis höfð til matar í Afríku. Þau eru um 1,5 kg hvert og eru stærst allra eggja. Á Íslandi eru svartfuglsegg oft höfð til matar og seld í verslunum og einnig egg ýmissa annarra villtra fugla.
Nú á tímum koma langflest hænuegg af stórum búum þar sem varphænurnar eru hafðar í þröngum búrum en einnig er hægt að fá egg úr lausagönguhænum, sem eru þá ekki í búrum, heldur ganga lausar en þó inni í húsi, svo og úr hænum sem fá að ganga frjálsar og fara út. Langflest hænuegg sem seld eru í verslunum eru ófrjóvguð, enda er yfirleitt ekki hafður hani með hænunum á eggjabúum. Ef eggin eru frjóvguð getur ungi farið að myndast í þeim en það gerist þó ekki ef eggin eru geymd í kæli þar sem kælingin kemur í veg fyrir slíkt.
Egg eru matreidd á ýmsan hátt, linsoðin, harðsoðin, steikt, bökuð, og einnig notuð í ýmiss konar eggjarétti, kökur, eftirrétti, sósur og margt fleira. Einnig má borða þau hrá en þó er viss hætta á salmonellusýkingu fyrir hendi.
Egg eru fremur næringarrík; í rauðu úr meðalstóru hænueggi eru um 60 hitaeiningar en 15 í hvítunni. Eggjarauður innihalda A-, D- og E-vítamín en eru kólesterólauðugar og því er yfirleitt ekki mælt með því að borða mjög mikið af eggjum. Eggjahvítur eru aftur á móti nær fitulausar.
Egg eru borðuð allt árið en hafa frá fornu fari tengst páskum sérstaklega. Í mörgum löndum er aldalöng hefð fyrir því að mála og skreyta páskaegg á ýmsan hátt og sumstaðar eru eggin falin og börn látin leita að þeim.
Í íslensku er til gáta um egg: „Hvað er fullt hús matar sem engar dyr eru á?“. Sams konar gáta um „fullt hús drykkjar“ á við ber.
Eggjakast
breytaÞó svo að egg séu vanalega nýtt til matar er þeim stundum hent í hús, bíla og fólk. Slíkt athæfi flokkast sem veigalítið skemmdarverk. Eggjakast getur einnig skaðað eignir (eggjahvíta getur eyðilaggt sumar tegundir bílamálningar) og valdið meiðslum ef eggin lenda í augum manna. Á hrekkjavöku er hefð í sumum löndum fyrir því að börn fari á milli húsa og biðji um nammi, og þar sem þau fá ekkert er algengt að eggjum sé fleygt í hús. Í mótmælum vörubílstjóra árið 2008 hentu mótmælendur eggjum í íslenska lögreglumenn.