Muhammadu Buhari

Fyrrum forseti Nígeríu

Muhammadu Buhari (f. 17. desember 1943) er nígerískur stjórnmálamaður og herforingi sem var forseti Nígeríu frá árinu 2015 til ársins 2023. Hann var áður forseti landsins frá 1983 til 1985. Á fyrri stjórnartíð sinni var Buhari leiðtogi herforingjastjórnar sem tók völdin í landinu eftir valdarán gegn forsetanum Shehu Shagari. Buhari var sjálfum steypt af stóli eftir um eitt og hálft ár í embætti.

Muhammadu Buhari
Buhari árið 2015.
Forseti Nígeríu
Í embætti
29. maí 2015 – 29. maí 2023
VaraforsetiYemi Osinbajo
ForveriGoodluck Jonathan
EftirmaðurBola Tinubu
Í embætti
31. desember 1983 – 27. ágúst 1985
ForveriShehu Shagari
EftirmaðurIbrahim Babangida
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. desember 1943 (1943-12-17) (80 ára)
Daura, Nígeríu
ÞjóðerniNígerískur
StjórnmálaflokkurAllsherjarráð framfarasinna (2013–)
MakiSafinatu Yusuf (g. 1971; sk. 1988)
Aisha Halilu (g. 1989)
Börn10
HáskóliNígeríski herþjálfunarháskólinn
Mons-kadetskólinn
Stríðsháskóli Bandaríkjahers
VefsíðaOpinber heimasíða

Buhari komst aftur til valda með lýðræðislegum hætti árið 2015 eftir að hafa unnið forsetakosningar á móti sitjandi forsetanum Goodluck Jonathan.[1] Hann tók við embætti þann 29. maí sama ár og vann endurkjör í forsetakosningum árið 2019.[2]

Æviágrip

breyta

Buhari fæddist í þorpinu Daura í Kadunahéraði og gekk í ýmsa skóla áður en hann hóf nám við nígerískan herþjálfunarskóla, þar sem hann vakti athygli breskra herforingja. Bretarnir kostuðu hann til náms í kadettaskólanum í Aldershot á Englandi.[3] Eftir heimkomuna til Nígeríu varð Buhari strax liðsforingi í nígeríska hernum og árið 1975 var hann meðal liðsforingja sem skipulögðu byltingu gegn herforingjastjórn Yakubu Gowon.[4]

Á tíma herforingjastjórnar Olusegun Obasanjo á áttunda áratugnum gegndi Buhari ýmsum ábyrgðarstörfum og var meðal annars ráðherra olíumála og formaður ríkisolíufélagsins.[3]

Borgaraleg stjórn tók við völdum í Nígeríu árið 1979 og Shehu Shagari varð þá fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Nígeríu. Árið 1983 leiddi Buhari hins vegar herforingjabyltingu gegn Shagari og lýsti sjálfan sig forseta.[5] Miklar vonir voru í fyrstu bundnar við að Buhari gæti unnið bug á spillingu og ráðstafað olíuarði ríkisins betur, en svo fór að stjórn hans entist aðeins í um eitt og hálft ár áður en annar herforingi, Ibrahim Babangida, steypti Buhari af stóli.[6]

Buhari var haldið í fangelsi í þrjú ár eftir að honum var steypt af stóli en honum var síðan sleppt árið 1988. Eftir frelsi sitt hóf Buhari afskipti af stjórnmálum á ný og bauð sig fram til forseta árin 2003, 2007 og 2011 en án árangurs.

Árið 2015 bauð Buhari sig fram gegn sitjandi forsetanum Goodluck Jonathan og gagnrýndi hann meðal annars fyrir að takast ekki að vinna bug á hryðjuverkahópnum Boko Haram eða finna 219 skólastúlkur sem samtökin höfðu rænt árið áður.[7] Buhari vann kosningarnar með rúmum meirihluta og Jonathan viðurkenndi ósigur.[1] Þetta var í fyrsta sinn sem friðsamleg stjórnarskipti fóru fram í Nígeríu.

Í desember 2016 lýsti Buhari því yfir að Boko Haram hefði verið sigrað.[8]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Bu­hari for­seti Níg­er­íu“. mbl.is. 31. mars 2015. Sótt 22. október 2020.
  2. „Bu­hari end­ur­kjör­inn for­seti Níg­er­íu“. mbl.is. 27. febrúar 2019. Sótt 22. október 2020.
  3. 3,0 3,1 Guðmundur Pétursson (11. janúar 1984). „Buhari vekur traust landsmanna sinna“. Dagblaðið Vísir. bls. 10.
  4. Þórarinn Þórarinsson (18. janúar 1984). „Tekst Buhari að uppræta spillinguna í Nígeríu?“. Tíminn. bls. 5.
  5. „Þegar strákarnir sneru aftur“. Dagblaðið Vísir. 24. júlí 1984. bls. 52-53.
  6. „Babangida skipar nýtt stjórnarráð“. Dagblaðið Vísir. 30. ágúst 1985. bls. 9.
  7. Ásta Sigrún Magnúsdóttir (24. mars 2015). „„Ég trúi því að við finnum þær". Dagblaðið Vísir. bls. 13.
  8. „Lýsir yfir sigri á Boko Haram“. Viðskiptablaðið. 24. desember 2016. Sótt 22. október 2020.


Fyrirrennari:
Shehu Shagari
Forseti Nígeríu
(31. desember 198327. ágúst 1985)
Eftirmaður:
Ibrahim Babangida
Fyrirrennari:
Goodluck Jonathan
Forseti Nígeríu
(29. maí 201529. maí 2023)
Eftirmaður:
Bola Tinubu