Mont Pèlerin Society

Mont Pèlerin Society, eða Mont Pèlerin-samtökin á íslensku, eru alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem hittist annaðhvort ár og stundum oftar. Margir telja, að þau hafi haft mikil áhrif á það, að víða um heim hefur verið snúið aftur til þeirrar frjálshyggju, sem hafði veruleg áhrif á hagstjórn og löggjöf á 18. og 19. öld.

Stofnun

breyta

Mont Pèlerin-samtökin voru stofnuð í apríl 1947 í Sviss, þegar 47 menntamenn komu þar saman, en austurrísk-breski hagfræðingurinn Friedrich A. von Hayek hafði boðið þeim þangað. Á meðal fundarmanna voru Frank H. Knight, sem var áhrifamestur Chicago-hagfræðinganna svonefndu á öndverðri öldinni, Ludwig von Mises, einn aðalleiðtogi austurrísku hagfræðinganna svonefndu, heimspekingarnir Karl R. Popper, Michael Polanyi og Bertrand de Jouvenel, hagfræðingarnir Luigi Einaudi, forseti Ítalíu, Jacques Rueff, einn aðalráðgjafi de Gaulles, hershöfðingja og síðar forseta Frakklands, Wilhelm Röpke, sem var áhrifamikill í Vestur-Þýskalandi eftir stríð, og hagfræðingarnir von Hayek, Maurice Allais, Milton Friedman og George J. Stigler, sem allir áttu eftir að hljóta Nóbelsverðlaun í hagfræði. Stofnendur samtakanna samþykktu í fundarlok ávarp, þar sem lýst var áhyggjum af vaxandi ríkisvaldi og minnkandi einstaklingsfrelsi á Vesturlöndum. Ýmsir frjálslyndir menntamenn vildu þó ekki ganga í samtökin, þar sem þeir töldu Hayek og félaga hans halda of fast í hina klassísku frjálshyggju 18. og 19. aldar, sem væri orðin úrelt. Þeirra á meðal voru sænski stjórnmálaheimspekingurinn Herbert Tingsten, þótt hann sæti stofnfundinn, landi hans, hagfræðingurinn Bertil Ohlin og franski félagsfræðingurinn Raymond Aron, þótt hann héldi að vísu seinna erindi á einum fundi samtakanna.

Kunnir félagar

breyta

Á meðal félaga í samtökunum hafa verið Ludwig Erhard, kanslari Þýska sambandslýðveldisins, Otto von Habsburg, sonur síðasta austurríska keisarans, Arthur Burns, aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna, Sir Geoffrey Howe, fjármálaráðherra og síðar utanríkisráðherra Stóra-Bretlands, William E. Simon og George Shultz, sem báðir hafa verið fjármálaráðherrar Bandaríkjanna (og Shultz einnig utanríkisráðherra), Vaclav Klaus, forseti Tékkneska lýðveldisins, Antonio Martino, varnarmálaráðherra Ítalíu, og Nóbelsverðlaunahafarnir Gary Becker, James M. Buchanan (forvígismaður Virginíu-hagfræðinganna svonefndu), Ronald Coase og Vernon Smith. Einn íslenskur félagi er í samtökunum, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, og sat hann í stjórn þeirra 1998-2004.

Stefna og áhrif

breyta

Mont Pèlerin samtökin hafa enga yfirlýsta stefnu, þótt óhætt sé að telja flesta eða alla félaga í þeim eindregna stuðningsmenn frjálshyggju. Margir telja, að samtökin hafi átt drjúgan þátt í því, að frjálshyggja, sem beið mikinn hnekki í heimsstyrjöldunum tveimur og heimskreppunni, efldist mjög á síðasta fjórðungi 20. aldar, þótt eflaust hafi hrun sósíalistaríkjanna í Austur-Evrópu einnig haft þar sitt að segja. Flestir félagarnir eru háskólaprófessorar, aðallega í hagfræði, en sumir eru kaupsýslumenn og rithöfundar. Forsvarsmenn ýmissa áhrifamikilla rannsóknastofnana eru félagar í samtökunum, til dæmis Institute of Economic Affairs í Lundúnum, Heritage Foundation, American Enterprise Institute og Cato Institute í Washington, DC, og Hoover Institution í Stanford-háskóla.

Forsetar Mont Pèlerin Society

breyta

Forseti samtakanna frá 2010 er Kenneth Minogue, fyrrverandi prófessor í stjórnmálaheimspeki í Hagfræðiskólanum í Lundúnum. Fyrri forsetar voru:

Mont Pèlerin Society á Íslandi

breyta

Nokkrir Íslendingar hafa sótt fundi Mont Pèlerin-samtakanna auk Hannesar H. Gissurarsonar, þar á meðal Birgir Ísl. Gunnarsson, Geir H. Haarde, Friðbjörn Orri Ketilsson og Hörður Sigurgestsson. Mont Pèlerin-samtökin héldu fund á Íslandi í ágúst 2005 um "Frelsi og eignarrétt á nýrri öld" (Liberty and Property in the 21st Century). Á meðal umræðuefna voru einkaeignarréttur á útvarpsrásum, fiskistofnum og erfðavísum, hvort lítil ríki væru hagkvæmari einingar en stór og hvers vegna flestir menntamenn aðhyllast sósíalisma. Á meðal erlendra fyrirlesara voru Vaclav Klaus, forseti Tékkneska lýðveldisins, Andrei Illarionov, þá aðalefnahagsráðgjafi Pútíns Rússlandsforseta, Mart Laar, fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands, Harold Demsetz, einn helsti eignarréttarhagfræðingur heims, og Arnold Harberger, sem er einna kunnastur Chicago-hagfræðinganna svonefndu. Íslenskir fyrirlesarar voru Davíð Oddsson, þá utanríkisráðherra, Ragnar Árnason prófessor, Þráinn Eggertsson prófessor, Birgir Þór Runólfsson dósent, Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og dr. Kári Stefánsson forstjóri.

Tenglar

breyta