Frank Hyneman Knight (7. nóvember 1885 - 15. apríl 1972) var kunnur bandarískur hagfræðingur, sem kenndi í Chicago-háskóla. Hann er einn helsti upphafsmaður Chicago-hagfræðinganna svonefndu og einn af stofnendum Mont Pèlerin Society, alþjóðlegs málfundafélags frjálshyggjumanna.

Knight fæddist í White Oak Township í McLean í Illinois. Hann lauk doktorsprófi í hagfræði frá Cornell-háskóla 1916. Vakti doktorsritgerð hans mikla athygli og kom á prent, Risk, Uncertainty and Profit (1921). Þar gerði hann greinarmun á áhættu og óvissu og hélt því fram, að gróði myndi óvissunnar vegna aldrei eyðast upp í frjálsri og fullkominni samkeppni, eins og talið hafði verið. Knight kenndi í háskólunum í Cornell, Chicago og Iowa, uns hann varð prófessor í Chicago-háskóla 1922, en þar starfaði hann til 1952 og bjó í Chicago til æviloka.

Árið 1924 átti Knight í frægri ritdeilu við A. C. Pigou, sem hafði í bókinni Economics of Welfare (Farsældarfræði) sett fram þá skoðun, að ríkið gæti betrumbætt markaðinn, lagfært ýmsar afleiðingar frjálsra viðskipta. Pigou nefndi mengun og fleiri vandræði, sem hlotist gætu af óheftri samkeppni. Eitt dæmið var af tveimur misgóðum vegum, sem lægju milli tveggja borga. Umferð myndi ekki skiptast milli þeirra á hagkvæmasta hátt, heldur verða meiri umferð (og því alvarlegri umferðartruflanir) á betri veginum. Þessu mætti kippa í lag, sagði Pigou, með vegartollum, sem ríkið innheimti af hinum misgóðu vegum. Þeir yrðu misháir eftir misjöfnum gæðum veganna. Þá myndi umferðin milli þeirra skiptast á hagkvæmasta hátt. Þá myndi ólíkt verð endurspegla ólík gæði, eins og það á að gera. Knight benti á, að Pigou hefði ekki gert ráð fyrir, að vegirnir gætu verið í einkaeigu. Væri svo, þá myndu eigendur þeirra innheimta eðlilegt verð fyrir þá, eigandi betra vegarins hærra verð en eigandi verri vegarins, svo að markaðurinn kæmist sjálfkrafa að sömu niðurstöðu og Pigou vildi láta ríkið koma í kring. Dæmi Pigous væri því ekki um galla á markaðsviðskiptum (sem hagfræðingar kalla nú á dögum á e. market failure), heldur um galla á ríkisafskiptum (e. government failure), því að ríkið hefði ekki skilgreint eða leyft eignarrétt á vegum. Segja má, að kenning Ronalds Coases um utanaðkomandi kostnað (e. social cost) sé í svipuðum anda og þessi athugasemd Knighs.

Knight var efahyggjumaður, ekki síst um ríkisvaldið. Hann sagði nemendum sínum: „Þegar ég heyri einhvern segja: Ég þarf vald til að gera góða hluti, strika ég í huganum út síðustu orðin, og þá stendur aðeins eftir: Ég þarf vald. Það þarf alltaf að hlusta af tortryggni á þá kröfu.“ Hann snerist eins og margir aðrir hagfræðingar í Chicago-háskóla gegn hugmyndum Johns Maynards Keynes á fjórða áratug um, að ríkið þyrfti aukið vald til að geta stýrt atvinnulífinu fram hjá kreppum og öðrum hagsveiflum. Með þessu valdi yrði illt gert verra. Þess í stað ætti að treysta á frjálsa verðmyndun á markaði til að koma á jafnvægi í atvinnulífinu. Efasemdir Knights náðu raunar líka til ýmissa samherja hans, til dæmis Austurrísku hagfræðinganna, sem honum fundust heldur vissir í sinni sök. Knight var frjálshyggjumaður, af því að hann treysti ríkinu enn verr en markaðnum, en ekki af því að hann teldi markaðinn fullkominn. Hann hafði mikil áhrif á nemendur sína, til dæmis þá Milton Friedman, George J. Stigler og James M. Buchanan.

Rit breyta

  • „Some Fallacies in the Interpretation of Social Cost,“ Quarterly Journal of Economics, 38 (1924): 582-606.
  • Freedom and Reform: Essays in Economics and Social Philosophy. Ritstj. James M. Buchanan. Indianapolis: Liberty Fund 1982 (upphafl. útg. 1947).

Tenglar breyta