Virginíu-hagfræðingarnir

Virginíu-hagfræðingarnir (e. Virginia School of Economics) er hópur hagfræðinga undir forystu James M. Buchanans og Gordons Tullocks, sem einbeitir sér að rannsóknum á hópvali eða almannavali (e. public choice) frekar en einkavali. Hópurinn er kenndur við Virginíu, því að upphafsmennirnir störfuðu í háskólum þar, um skeið í Virginíu-háskóla (University of Virginia) í Charlottesville, síðan í Virginia Polytechnic í Blacksburg, en loks í George Mason-háskóla í Fairfax.

Þeir Buchanan og Tullock gáfu 1962 út bókina The Calculus of Consent, þar sem þeir settu fram sjónarmið sín. Hagfræðingar höfðu iðulega skoðað dæmi, þar sem viðskipti tveggja manna bitnuðu á hinum þriðja, sem engan þátt hafði þó tekið í víðskiptunum. Þetta hefur stundum verið nefnt á ensku „social cost“ eða „negative externality“, sem þýða mætti á íslensku sem „utanaðkomandi kostnað“. Ákvarðanir mannanna tveggja bitnuðu á þriðja manninum. En þeir Buchanan og Tullock bentu á, að þá þyrfti líka að hafa áhyggjur af því, þegar þrír menn greiddu atkvæði, þar sem tveir þeirra tækju ákvarðanir, sem bitnuðu á hinum þriðja, með öðrum orðum þar sem meiri hlutinn sveigði minni hlutann undir vilja sinn. Í augum þriðja mannsins, sem lenti í minni hluta, væri hér um „utanaðkomandi kostnað“ að ræða.

Hliðstæðan við einkaval, þegar ekki er um neinn utanaðkomandi kostnað að ræða, svo að viðskiptin eru báðum aðilum í hag, allir græða og enginn tapar, væri í hópvali, þegar allir eru sammála. Þá er enginn kúgaður, og þá bitna ákvarðanir sumra ekki á öðrum. Virginíu-hagfræðingarnir viðurkenna að vísu, að óraunhæft er að krefjast þess, að allir séu sammála, því að þá geta einhverjir misnotað það neitunarvald, sem þeir fá með því. En þeir telja, að skoða eigi vandlega þann kost að krefjast aukins meiri hluta í atkvæðagreiðslum, þegar teknar eru mikilvægar ákvarðanir, sem allir verða að una.

Virginíu-hagfræðingarnir afhelga stjórnmál, ef svo má segja. Þeir rannsaka stjórnmál ekki sem leit upplýstra og góðviljaðra manna að almannaheill, heldur sem viðskipti sérgóðra einstaklinga. Þeir spyrja, hvers vegna eigi að taka stjórnmálamenn trúanlega um það, að fyrir þeim vaki ekkert annað en almannaheill, úr því að ætíð er gert ráð fyrir því í líkönum hagfræðinga af hegðun einstaklinga á markaði, að kaupsýslumenn vilji aðeins græða sem mest fé, hvað sem þeir sjálfir segja. Buchanan og félagar hans viðurkenna að vísu, að í veruleikanum sé málið flóknara, af því að ekki stefna allir að því að hámarka eigin hag. En þeir benda á, að líkan sitt af stjórnmálum sé einfalt og hafi skýringarmátt og forsagnargildi.

Virginíu-hagfræðingarnir stunda það, sem kallað er almannavalsfræði (e. public choice theory) eða hagfræði stjórnmálanna (e. economics of politics). Þeir hafa með sér félag, The Public Choice Society, til að bera saman bækur sínar. Ein ályktun Buchanans og fleiri í þessum hóp af fræðum sínum er, að setja verði valdi stjórnmálamanna hömlur, svo að þeir geti ekki misnotað það. Menn megi ekki í nafni meiri hlutans kúga minni hlutann. Buchanan hefur í því sambandi aðallega bent á hömlur við skattlagningar- og seðlaprentunarvaldi ríkisins.

Hliðstætt efni breyta

Tenglar breyta