Bertil Ohlin
Bertil Gotthard Ohlin (f. 23. apríl 1899 – d. 3. ágúst 1979) var sænskur hagfræðingur og stjórnmálamaður. Hann telst til nýklassískra hagfræðinga og var einn forsprakka Stokkhólmsskólans í hagfræði á þriðja áratugnum, prófessor í hagfræði við Viðskiptaháskóla Stokkhólms (Sænska: Handelshögskolan i Stockholm) 1929-1965, formaður Frjálslynda flokksins (sænska: Liberalerna) 1944-1965, og þingmaður sama flokks 1938-1970, og Viðskiptaráðherra árin 1944-1945. Ohlin er þekktur fyrir Heckscher-Ohlin módelið, sem hann þróaði ásamt hagfræðingunum og kennara sínum Eli Filip Heckscher, og snýr sú kenning að viðskiptum á milli landa.[1] Ohlin hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1977 fyrir framlög sín til kenninga um alþjóðaviðskipti.
Bertil Ohlin | |
---|---|
Viðskiptaráðherra Svíþjóðar | |
Í embætti 1944 – 1945 | |
Forsætisráðherra | Per Albin Hansson |
Forveri | Herman Eriksson |
Eftirmaður | Gunnar Myrdal |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 23. apríl 1899 Klippan, Svíþjóð |
Látinn | 3. ágúst 1979 (80 ára) Vålådalen, Jamtalandssýslu, Svíþjóð |
Þjóðerni | Sænskur |
Stjórnmálaflokkur | Frjálslyndi flokkurinn |
Maki | Evy Kruse (g. 1931) |
Börn | Hellen Ohlin, Tomas Ohlin, Anne Wibble |
Háskóli | Lundarháskóli (B.A.) Hagfræðiskólinn í Stokkhólmi (MSc.) Harvard-háskóli (M.A.) Stokkhólmsháskóli (PhD) |
Ævi og störf
breytaBertil Ohlin lauk stúdentsprófi í Helsingjaborg og fór þaðan í Háskólann í Lundi, þar sem hann útskrifaðist með BA gráðu árið 1917. Meðal kennara hans í Lundi voru Knut Wicksell og Emil Sommarin. Eftir það hóf hann nám í hagfræði við Viðskiptaháskóla Stokkhólms þar sem hann nam undir handleiðslu Heckscher, og lauk MSc gráðu árið 1919, MA gráðu frá Harvard árið 1923, og doktorsgráðu frá Viðskiptaháskóla Stokkhólms árið 1924. Auk Heckscher hafði Gustav Cassel mikil áhrif á Ohlin, en Cassel var prófessor í hagfræði við Stokkhólmsháskóla árin 1904-1933. Eftir útskrift var Ohlin skipaður prófessor í hagfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1925. Hann fékkst einnig við ritstörf og tók þátt í stjórnmálaumræðum og sat í fjölda opinberra nefnda um efnahagsmál.
Á þeim tíma þótti óvenjulegt að hagfræðingar tækju beinan þátt í stjórnmálum, þó þeir væru virkir þátttakendur í samfélagsumræðu. Cassel skrifaði til að mynda reglulegar greinar um efnahagsmál í Svenska Dagbladet. Ohlin settist á þing fyrir Frjálslynda flokkinn árið 1938, og sat á þingi allt til 1970.
Framlög til hagfræði
breytaÁ þriðja áratugnum var Ohlin einn mest áberandi fulltrúa hins svokallaða Stokkhólmsskóla, en aðrir fulltrúar hans eru Gustav Åkerman, Gunnar Myrdal, Erik Lundberg, Erik Lindahl og Dag Hammarskjöld. Stokkhólmshagfræðingar þessa tíma eru best þekktir fyrir kenningar um utanríkisviðskipti og hagsveiflur. Kenningar Stokkhólmsskólans voru um marg svipaðar þeim hugmyndum sem John Maynard Keynes setti síðar fram í bók sinni The General Theory of Employment (1936).[2] Ohlin stóð í persónulegum bréfaskiptum við Keynes, sem hann hafði mikið álit á. Síðar átti stuðningur Ohlin við kenningar Keynes um opinber inngrip til að tryggja eftirspurn til þess að leiðir hans og Heckscher skildu. Ohlin var alla tíð eindreginn stuðningsmaður frjálsra milliríkjaviðskipta.
Fræðilegur áhugi Ohlin beindist fyrst og fremst að utanríkisviðskiptum. Hann var árið 1931 beðinn um að semja skýrslu fyrir Þjóðabandalagið um orsakir heimskreppunnar. Skýrslan, sem bar heitið The Course and Phases of the World Economic Depression (1931) beindi sjónum að hlut alþjóðaviðskipta og óstöðugleika í gengismálum í kreppunni. Önnur markverð rit Ohlin eru helst Utrikshandel och, handelspolitik (1934), Penningpolitik, offentliga arbeten, subventioner och tullar som medel mot arbetslöshet (1934), Fri eller dirigerad ekonomi (1936) og Kapitalmarknad och räntepolitik (1941).[2]
Mikilvægasta rit Ohlin var Interregional and International Trade (1933) þar sem útskýrði hann utanríkisviðskipti á grundvelli hlutfallslegra yfirburða og verðmyndunarkenningar í stað vinnugildiskenningarinnar sem David Ricardo hafði notað. Kenning Ohlin byggði á kenningum Heckscher og hugmyndum sem Ohlin hafði þróað í doktorsritgerð sinni.
Ohlin hafði fyrst reifað kenningar sínar meðan hann var í námi, árið 1922. Hann gerði aðra atlögu að því að setja kenninguna fram í doktorsritgerð sinni árið 1924. Hún var gefin út árið 1991 á ensku og bar heitið The Theory of Trade (Heckscher and Ohlin). Ritgerð hans frá árinu 1922 var ekki þýdd yfir á ensku fyrr en árið 1999, og bar þá heitið The Theory of Interregional Echange. Hugmyndir Ohlin voru undir sterkum áhrif af kennara hans, Heckscher og Gustav Cassel sem Ohlin umgekkst.[3]
Árið 1977 var Ohlin, veitt Nóbelsverðlaunin í hagfræði ásamt James Edward Meade, fyrir framlög til kenninga um alþjóðaviðskipti og alþjóðlega fjármagnshreyfinga.
Heckscher-Ohlin (framleiðsluþátta hlutfalls) módelið
breytaÞekktasta framlag Ohlin til hagfræðinnar er Heckscher-Ohlin módelið (H-O módelið) er heildarjafnvægismódel (e general equilibrium) um milliríkjaviðskipti. Telst það vera framlenging af kenningu David Ricardo um hlutfallslega yfirburði landa. Mikilvægasti munurinn felst í því að Heckscher og Ohlin tekur til fleiri framleiðsluþátta, og skýrir hlutfallslega yfirbyrði og milliríkjaviðskipti þar sem framleiðslutækni er sú sama. Í módeli Ricardo er aðeins einn framleiðsluþáttur, vinnuafl, og ólík framleiðslutækni skýrir hlutfallslega yfirburði og þar með viðskipti milli landa. Án ólíkrar framleiðslutækni (framleiðni) milli ríkja væru engin viðskipti milli ríkja, samkvæmt módeli Ricardo.
Ólíkt módeli Ricardo gerir H-O módelið ekki ráð fyrir ólíkri framleiðslutækni, heldur ólíkri samsetningu framleiðsluþátta. Í H-O módelinu eru tveir framleiðsluþættir, vinnuafl og fjármagn, sem geta fært sig milli geira, en ekki milli landa. Ef framleiðslutæknin er sú sama í báðum löndum ræður samsetning framleiðsluþáttanna hlutfallslega yfirburði: Það land sem hefur hlutfallslega meira af vinnuafli en fjármunum mun framleiða vörur sem er krefjast meira vinnuafl en fjármuni og öfugt.[4]
Eftirfarandi forsendur þurfa að fera fyrir hendi:
- Hlutfallslegt framboð framleiðsluþátta í löndunum er ólíkt.
- Framleiðsla á ólíkum vörum krefst ólíkrar samsetningar framleiðsluþáttanna.
- Framleiðsluþættir færast ekki á milli landanna.
- Enginn flutningskostnaður er fyrir vörurnar milli landanna.
- Íbúar beggja landa hafa sömu þarfir.[5]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Bertil Gotthard Ohlin“. Econlib (bandarísk enska). Sótt 4. september 2022.
- ↑ 2,0 2,1 Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 4. september 2022.
- ↑ „Wayback Machine“ (PDF). web.archive.org. 19. febrúar 2006. Afritað af uppruna á 19. febrúar 2006. Sótt 4. september 2022.
- ↑ „Heckscher-Ohlin Model“. www2.econ.iastate.edu. Sótt 18. september 2022.
- ↑ Ásgeir Jónsson, Ásta Herdís Hall, Gylfi Zoega, Marta Skúladóttir og Tryggvi Þór Herbertsson. „Tekjuskipting á Íslandi“ (PDF). Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.