Marta María Stephensen

Marta María Diðriksdóttir Hölter Stephensen (17. nóvember 177014. júní 1805) var dansk-íslensk húsmóðir og fyrri kona Stefáns Stephensen, síðar amtmanns. Hún er skráð höfundur fyrstu íslensku matreiðslubókarinnar og jafnframt fyrstu bókarinnar sem út kom eftir konu á Íslandi.

Marta María var dóttir Diðriks Hölter, kaupmanns í Höfðakaupstað á Skagaströnd og síðar í Stykkishólmi, þar sem hann lést á gamlársdag 1787. Ekki er vitað hver móðir Mörtu Maríu var. Þann 10. júní 1790 giftist hún í Kaupmannahöfn Stefáni Stephensen assessor, sem var sonur Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns, og var hjónaband þeirra án vitundar foreldra hans.[1] Þau fóru svo til Íslands og bjuggu á Innra-Hólmi, Hvanneyri og síðast á Hvítárvöllum, þar sem Marta María lést 34 ára að aldri, sama dag og hún ól tíunda barn sitt. Börnin komust öll nema eitt upp. Jón Espólín segir um hana að hún hafi verið góð kona.

Árið 1800 kom út bókin Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur og er höfundur hennar skráður frú assessorinna Marta María Stephensen. Þetta er fyrsta prentaða íslenska matreiðslubókin og fyrsta bókin sem prentuð var á Íslandi og kennd konu. Þó er talið næsta víst að Magnús Stephensen dómstjóri, mágur Mörtu Maríu og útgefandi bókarinnar, hafi skrifað hana að einhverju eða öllu leyti. Í ævisögu sinni segir Magnús að hann hafi skrifað bókina að mestu þegar hann var tepptur í Noregi veturinn 1783-1784 og þá væntanlega upp úr uppskriftabók konu Þorkels Fjeldsted, sem hann dvaldi hjá, en þetta er þó allt óljóst og vel má vera að Marta María eigi einhvern þátt í bókinni og Magnús hafi bætt efni úr uppskriftabók hennar við það sem hann hafði áður skrifað hjá sér, en hann segist í ævisögunni hafa skrifað bókina í nafni Mörtu Maríu af því að það hæfði betur hennar standi. Í formála Stefáns manns Mörtu (sem kann þó vel að vera skrifaður af Magnúsi bróður hans) segir svo:

„Vegna konu minnar ber mjer að afsaka hjer með einni línu, að hún framselur þetta Vasaqver til að leggjast fyrir almenningsaugu, enn þótt þess upphafleg útkast væri henni sjálfri einungis ætlað til minnis. Valda því tilmæli okkar elskulega Bróðurs hra Jústis-Ráðs og Justitiarii M. Stephensens hverjum ekki þótti þessu Vasa-qveri ofaukið, þó findist í nokkuð fleiri heldri manna húsum. Fyrir þess háttar menn en ekki eginlega almúga, er það og ætlað, og eptir fyrirmanna efnum og ýmissu standi lagað, bæði með einfalda en þó velhentandi matreiðslu og aðra vandhæfnari til hátíða og veizlu borðhalds þá viðliggur. — Samt sem áður vonast að almúga fólk gjeti hjer af margt til hagnaðar og velsæmandi tilbúnings hreinlegs og ljúffengs matar numið, og þessvegna ekki yðrist eptir, að ljá hjer sýndri meðferð á mat auga, enn þótt meiri partur qversins sé æðri manna borðhaldi samboðnari. Sjálfur verð ég að biðja velvirðingar á orðfæri og stýl qversins, að því leiti, sem almenningur kann að ætla mjer, að hafa hann nokkuð lagfært fyrir konu mína, áður en blöð þessi gæfust pressunni; því játa má ég mjer um þessháttar efni mjög svo ótamar Ritgjörðir.“

Tilvísanir

breyta
  1. Saga Jóns Espólíns hins fróða, bls. 14.

Heimildir

breyta
  • Einfaldt Matreidslu Vasa-Qver, fyrir heldri manna Húss-freyjur / Utgefid af Frú Assessorinnu Mørtu Maríu Stephensen. Leirárgörðum við Leirá, 1800. (stafrænu) Geymt 20 mars 2017 í Wayback Machine
  • Saga Jóns Espólíns hins fróða. Kaupmannahöfn, 1895.
  • Hallgerður Gísladóttir (1999). Íslensk matarhefð. Mál og menning, Reykjavík.