Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur
Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur eða Einfaldt Matreidslu Vasa-Qver fyrir heldri manna Húss-freyjur, útgefid af frú Assessorinnu Mørtu Maríu Stephensen, var fyrsta matreiðslubók sem út kom á íslensku og var bókin prentuð í Leirárgörðum árið 1800.
Bókin er gefin út undir nafni Mörtu Maríu Stephensen, eiginkonu Stefáns Stephensen, síðar amtmanns, og er hún jafnframt fyrsta bók sem út kom á íslensku og kennd var konu. Það var mágur hennar, Magnús Stephensen, sem gaf bókina út og er hann nú oftast talinn höfundur hennar, enda segir hann svo sjálfur í ævisögu sinni, en þó kann að vera að einnig hafi verið bætt við efni frá Mörtu Maríu.
Magnús, sem var mikill áhugamaður um mat og hafði oft hvatt til þess að skrifuð yrði íslensk matreiðslubók, segist hafa skrifað uppskriftirnar í Noregi veturinn 1783-1784 og þá væntanlega upp úr uppskriftabók norskrar eiginkonu Þorkels Fjeldsted, sem hann dvaldi hjá. Svo mikið er víst að uppskriftirnar í bókinni eru flestar eða allar erlendar að uppruna - en það hefði væntanlega líka gilt um margar af uppskriftum Mörtu Maríu - og þar eru notuð ýmis hráefni sem ekki hafa verið á hvers manns borði á Íslandi; þar er meðal annars uppskrift að steiktum kalkúna og fleiru slíku, svo að ekki er hægt að segja að bókin gefi mynd af dæmigerðri íslenskri matargerð síns tíma. Hún mun heldur ekki hafa haft mikil áhrif á matargerð Íslendinga.
Bókin var endurútgefin árið 1998 af Söguspekingastifti og hefur verið endurprentuð tvisvar.
Heimildir
breyta- Einfaldt Matreidslu Vasa-Qver, fyrir heldri manna Húss-freyjur á Bækur.is.
- Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur. Inngangur eftir Þorfinn Skúlason og Örn Hrafnkelsson. Hafnarfirði 1998, ISBN 978-9979-92312-1