Hallgerður Gísladóttir

Hallgerður Gísladóttir (f. í Seldal í Norðfjarðarhreppi 28. september 1952, d. í Reykjavík. 1. febrúar 2007) var íslenskur sagnfræðingur og þjóðfræðingur. Foreldrar hennar voru Gísli Friðriksson bóndi í Seldal og Sigrún Dagbjartsdóttir húsfreyja. Hallgerður varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1974, nam mannfræði og sögu við Manitóbaháskóla í Winnipeg í Kanada 1974-75, tók B.A. próf í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 1981 og lauk þaðan cand. mag prófi 1991.

Hallgerður Gísladóttir. Myndin er tekin 1990
Hallgerður Gísladóttir og Steinunn Ingimundardóttir á forsíðu sænska tímaritsins Mat och Land 48/1990

Hallgerður starfaði lengst af við þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands, varð deildarstjóri hennar 1995 og síðar fagstjóri þjóðháttasafns. Sérgrein hennar var íslensk matargerð og hefðir henni tengdar. Árið 1999 kom út bók hennar, Íslensk matarhefð. Bókin er aðalrit Hallgerðar og hlaut viðurkenningu Hagþenkis og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna þegar hún kom út. Hallgerður sá um fjölmarga þætti í útvarpi og sjónvarpi um matarhætti og skyld efni. Hún stundaði einnig rannsóknir á manngerðum hellum og skrifaði ásamt Árna Hjartarsyni og Guðmundi J. Guðmundssyni bók um manngerða hella 1983. Hallgerður var ljóðskáld og birti verk sín í tímaritum en sendi einnig frá sér ljóðabók árið 2004.

Eiginmaður Hallgerðar var Árni Hjartarson jarðfræðingur. Þau eignuðust þrjú börn, Sigríði (1975-1997), Guðlaug Jón (1979) og Eldjárn (1983).

Bækur

breyta
 • Hvað er á seyði? Eldhúsið fram á okkar daga. Sýning í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands maí-október 1987. Sýningarskrá, 30 bls. (The Icelandic kitchen from the time of settlement to the 20th century).
 • Eldamennska í íslensku torfbæjunum. Byggðasafn Skagfirðinga 2000. (Cooking in Icelandic turf houses).
 • Íslensk matarhefð. Mál og menning/Þjóðminjasafn Íslands 1999. (Icelandic culinary tradition).
 • Ásamt Árna Hjartarsyni og Guðmundi J. Guðmundssyni. Manngerðir hellar á Íslandi. Reykjavík, Menningarsjóður 1991. (Man made caves in Iceland).
 • Ásamt Helga Skúla Kjartanssyni. Lífið fyrr og nú : stutt Íslandssaga. Freydís Kristjánsdóttir teiknaði myndir. 1998. (A short Icelandic history for children).
 • Í ljós. (Ljóð). Bókaútgáfan Salka, 2004.

Í ritstjórn eða ritnefnd

 • Dagamunur gerður Árna Björnssyni sextugum 16. janúar 1992. Reykjavík 1992.
 • Dagbók Íslendinga. Mál og menning, Reykjavík 1999.
 • Kvennaslóðir. Afmælisrit til heiðurs Sigríði Erlendsdóttur sjötugri. Reykjavík 2001.
 • Í eina sæng. Íslenskir brúðkaupssiðir. Rit Þjóðminjasafns Íslands 4. Reykjavík 2004.

Tenglar

breyta

Heimildir

breyta
 • Árni Björnsson. „Hallgerður Gísladóttir. In memoriam“. Saga. 45 (2) (2007): 141-146.
 • Gunnar Karlsson. „Saknað. Minning Hallgerðar Gísladóttur.“. Tímarit Máls og menningar. 68 (2) (2007): .