Magnús Arason (sýslumaður)
Magnús Arason (1599 – 14. nóvember 1635) var íslenskur sýslumaður á 17. öld. Hann bjó á Reykhólum og hafði sýsluvöld í Barðastrandarsýslu frá 1633.
Magnús var elsti sonur Ara Magnússonar í Ögri og konu hans Kristínar Guðbrandsdóttur, Þorlákssonar biskups. Magnús ólst upp í Ögri hjá foreldrum sínum og var með föður sínum þegar hann fór að baskneskum skipbrotsmönnum við Ísafjarðardjúp 1615. Hann átti sjálfur töluverðan þátt í Spánverjavígunum því að hann hafði byssu og felldi Spánverjana einn af öðrum með skotum.
Magnús fór til náms í Hamborg en kom svo heim, kvæntist ungur og bjó á Reykhólum. Hann var umboðsmaður föður síns í Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu 1629-1630 en varð sýslumaður í Barðastrandarsýslu 1633 og hélt til dauðadags.
Kona hans var Þórunn ríka Jónsdóttir (1594 – 17. október 1673). Hún hafði áður verið gift Sigurði, syni Odds Einarssonar biskups, en hann dó 1617. Dóttir þeirra, Hólmfríður, giftist síðar Jóni Arasyni presti í Vatnsfirði, bróður stjúpa síns. Á meðal barna Magnúsar og Þórunnar voru þeir Jón sýslumaður á Reykhólum og Sigurður sýslumaður á Skútustöðum, faðir Magnúar í Bræðratungu.