Múhameð Resa Pahlavi

Keisari Írans frá 1941 til 1979

Múhameð Resa Sja (persneska: محمد رضا شاه پهلوی‎‎ Mohammad Rezâ Šâhe Pahlavi; 26. október 191927. júlí 1980) var Íranskeisari frá 16. september 1941 þar til honum var steypt af stóli í írönsku byltingunni 11. febrúar 1979. Hann tók sér titilinn Shāhanshāh („konungur konunganna“ eða keisari) 26. október 1967. Hann var annar og síðasti keisarinn af Pahlavi-ætt á eftir föður sínum, Resa Sja.

Skjaldarmerki Pahlavi-ætt Keisari Írans
Pahlavi-ætt
Múhameð Resa Pahlavi
Múhameð Resa Pahlavi
محمدرضا پهلوی‎
Ríkisár 16. september 194111. febrúar 1979
SkírnarnafnMohammad Rezâ Šâhe Pahlavi
Fæddur26. október 1919
 Teheran, Persíu
Dáinn27. júlí 1980 (60 ára)
 Kaíró, Egyptalandi
GröfAl-Rifa'i-moska, Kaíró
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Resa Sja
Móðir Tadj ol-Molouk
EiginkonurFosía af Egyptalandi (g. 1939; skilin 1948)
Soraja Esfandiary-Bakhtiari (g. 1951; skilin 1958)
Farah Diba (g. 1959)
Börn5

Þegar Múhameð Mossadek sem var forsætisráðherra frá 1951 hugðist þjóðnýta olíuframleiðslu landsins framdi Pahlavi valdarán eftir þrýsting frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Við það fékk hann meiri bein völd og erlend olíufyrirtæki tóku aftur yfir olíuiðnaðinn í Íran. Árið 1963 hleypti hann Hvítu byltingunni af stokkunum sem var ætlað að færa landið nær nútímanum og gera það veraldlegra. Við þetta missti hann stuðning sjíaklerka og lágstéttanna. Þetta leiddi til írönsku byltingarinnar 1979. Resa Pahlavi flúði frá Íran ásamt eiginkonu sinni Farah Diba 17. janúar. Fljótlega eftir það var einveldi afnumið og Íran gert að íslömsku lýðveldi með klerkastjórn.

Í útlegðinni bjó Múhameð Resa á ýmsum stöðum, meðal annars í Egyptalandi, Marokkó, Bahamaeyjum, Mexíkó og Panama. Hann lést í Egyptalandi.

Æviágrip

breyta

Múhameð Resa Pahlavi fæddist árið 1919 í Teheran. Faðir hans, Resa Kan, var þá ofursti í persneska hernum.[1] Faðir hans varð forsætisráðherra landsins árið 1923. Árið 1925 lýsti Resa Kan sjálfan sig nýjan keisara Írans undir nafninu Resa Sja Pahlavi. Þar með varð hinn ungi Múhameð Resa krónprins nýju Pahlavi-keisaraættarinnar.

Á unglingsárum sínum var Pahlavi sendur í nám til Sviss. Hann sneri aftur til Írans árið 1936 og gekk í hernaðarháskóla til ársins 1938. Eftir útskrift þaðan tók Múhameð Resa á sig hluta af verkum föður síns og fékk herflokk til þess að stjórna.[1] Árið 1939 kvæntist Múhameð Resa konu sem faðir hans hafði valið fyrir hann; egypsku prinsessunni Fosíu, sem var systir Farúks Egyptalandskonungs.[2]

Faðir Múhameðs Resa var mjög hallur undir Þýskaland og þegar seinni heimsstyrjöldin braust út leiddi þessi vinskapur til þess að hann komst upp á kant við Breta og Sovétmenn. Herir ríkjanna tveggja réðust árið 1941 inn í Íran og neyddu Resa Sja til þess að segja af sér keisaratign. Eftir afsögn keisarans var Múhameð Resa leiddur fyrir þingið og hann sór embættiseið sem nýr keisari landsins.[2]

Valdatíð (1941–1979)

breyta

Múhameð Resa skildi við Fosíu árið 1944. Þau höfðu eignast eina dóttur, Sjahnas. Árið 1951 giftist hann annarri konu sinni, írönsku leikkonunni Soraju Esfandiary. Þeim Soraju varð ekki barna auðið og því ákvað Múhameð Resa árið 1958 að skilja við hana til þess að geta eignast erfingja af krúnunni.[3] Hann giftist þriðju konu sinni, Fara Díba, árið 1959 og eignaðist með henni son næsta ár.[4]

Snemma á valdatíð Múhameðs Resa náðu róttækar og umbótasinnaðar hreyfingar völdum yfir borgaralegri ríkisstjórn Írans. Keisaranum var mjög illa við forsætisráðherrann úr röðum þessara umbótasinnuðu afla, Múhameð Mossadek, og taldi hann vilja losna við keisarafjölskylduna úr landinu. Mossadek vann sér einnig inn óvild Bretlands og Bandaríkjanna eftir að lýðræðislega kjörin ríkisstjórn hans lét þjóðnýta íranska olíuiðnaðinn, sem áður hafði verið undir stjórn ensk-íranska olíufélagsins (enska: Anglo-Iranian Oil Company eða AIOC). Óvild vesturveldanna til Mossadeks leiddi til þess að bresku og bandarísku leyniþjónustunnar skipulögðu valdarán gegn stjórn Mossadeks ásamt keisaranum. Valdaránið var framið þann 19. ágúst 1953 og leiddi til þess að Múhameð Resa varð í reynd einráður í Íran líkt og faðir hans hafði verið.[5]

Á einræðisárum sínum beitti Múhameð Resa stórtækri leyniþjónustu sem kallaðist SAVAK og var skipulögð með bandarísku leyniþjónustuna að fyrirmynd. Leyniþjónustan réð yfir heilum landshlutum Írans ef þeir þóttu ótrúir keisarastjórninni og beitti bæði pyntingum og ofsóknum gegn grunuðum andófsmönnum.[6] Múhameð Resa lét fangelsa foringja stjórnarandstöðunnar, takmarkaði fjölmiðlafrelsi í Íran og stjórnaði því hvaða stjórnmálaflokkar máttu bjóða fram til þings. Lengst af var formlega séð tveggja flokka kerfi við lýði í Íran en á valdatíð Múhameðs Resa var flokksstarfsemin svo takmörkuð að landsmenn kölluðu flokkana tvo jafnan „Já“- og „Já, herra“-flokkana.[7]

Líkt og faðir sinn var Múhameð Resa duglegur að vísa til glæstrar fortíðar Írans fyrir daga íslams í viðleitni til þess að rækta íranska þjóðernishyggju. Þá vísaði hann oft til Kýrosar mikla Persakonungs og landvinninga hans. Árið 1971 skipulagði keisarinn mikil hátíðarhöld í rústum fornu höfuðborgarinnar Persepólis til þess að fagna 2.500 ára afmæli Persaveldis.[8] Til þess að hægt væri að halda hátíð á staðnum voru nýir vegir lagðir til Persepólis, tré voru flutt inn frá Frakklandi til að lífga upp á svæðið og tjaldborg var reist í borgarrústunum fyrir erlenda gesti. Sex klukkustunda langur kvöldverður var haldinn fyrsta daginn af fjórum sem hátíðin stóð yfir á og annan daginn hófst mikil hernaðarsýning með herliðum sem áttu að tákna allar keisaraættir sem hefðu ríkt yfir Íran. Alls er talið að kostnaðurinn við hátíðarhöldin hafi numið meira en hundrað milljónum Bandaríkjadollara. Keisarinn réttlætti síðar eyðsluna með því móti að þetta hefði verið „það minnsta sem [Íranar] gátu gert“ fyrir gestina.[9]

Ríkistekjur Írans jukust verulega við olíukreppuna árið 1973. Keisarinn vildi ólmur nýta sér þessa hagsæld til þess að gera Íran að marktæku iðnaðarveldi en þessar þreifingar hans leiddu til ógætilegrar eyðslu og mikillar þenslu. Óánægja með störf keisarans jókst stöðugt, ekki síst vegna tilfinningar um að hagsældin væri einkum að skila sér til félaga keisarans á meðan alþýða landsins þurfti að glíma við verðbólgu og skort á nauðsynjavörum.[10] Einn helsti gagnrýnandi keisarans varð sjíaklerkurinn Ruhollah Khomeini, sem sakaði Múhameð Resa um að grafa undan íslömskum gildum og um að vera strengjabrúða Bandaríkjamanna.

Íranska byltingin

breyta

Árið 1978 hófst mótmælaalda margvíslegra andstæðinga keisarans gegn ríkisstjórninni. Múhameð Resa var á þessum tíma þungt haldinn af krabbameini. Honum tókst ekki að marka afgerandi stefnu gegn mótmælendunum og í reynd gerði kona hans, Fara Díba, meira til þess að skipuleggja viðbrögð stjórnvalda. Múhameð Resa reyndi að verða við kröfum mótmælendanna með því að skipa nýjan forsætisráðherra, sleppa pólitískum föngum, leyfa stjórnmálaflokka sem höfðu verið bannaðir og draga úr völdum SAVAK. Auk þess lét hann banna starfsemi næturklúbba og spilavíta til þess að reyna að sefa sjíaklerkana.[9] Sáttatillögur keisarans féllu í grýttan jarðveg og því skipti keisarinn brátt alveg um stefnu. Þann 8. september setti keisarinn herlög í Teheran, setti útgöngubann og bannaði allar fjöldasamkomur. Herlögin leiddu einungis til þess að til átaka kom milli lögreglunnar og mótmælendanna og verkamenn landsins fóru í allsherjar verkfall.

Mótmælin færðust einungis í aukana á næstu mánuðum og stórir hlutar landsins féllu í hendur mótmælenda sem hliðhollir voru Khomeini. Þann 16. janúar árið 1979, er Múhameð Resa hafði í reynd misst öll tök í landinu, steig hann um borð í flugvél og hélt í útlegð til Egyptalands. Stuttu síðar sneri Ruhollah Khomeini heim til Írans úr eigin útlegð við mikinn fögnuð og stofnaði íhaldssama, íslamska klerkastjórn.

Múhameð Resa, sem þá var orðinn fárveikur, entist ekki lengi í útlegðinni. Eftir að hafa ferðast á milli landa í rúmt ár lést hann úr krabbameininu í Kaíró í Egyptalandi, þar sem hann dvaldi ásamt fjölskyldu sinni í boði Anwars Sadat Egyptalandsforseta.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Múhameð Resa Pahlavi (2. janúar 1970). „Ævi mín og konurnar mínar þrjár“. Vikan. Sótt 22. janúar 2019.
  2. 2,0 2,1 Múhameð Resa Pahlavi (8. janúar 1970). „Fyrsta konan mín – systir Farúks“. Vikan. Sótt 22. janúar 2019.
  3. Múhameð Resa Pahlavi (15. janúar 1970). „Skilnaður okkar Soraju gerði mig gráhærðan“. Vikan. Sótt 22. janúar 2019.
  4. Múhameð Resa Pahlavi (29. janúar 1970). „Ég grét þegar ég sá son minn“. Vikan. Sótt 22. janúar 2019.
  5. „Fall Pahlavi-ættarinnar“. Þjóðviljinn. 26. janúar 1979. Sótt 22. janúar 2019.
  6. Dagur Þorleifsson (16. nóvember 1971). „Frá Múhameð til Pahlavi“. Tíminn. Sótt 22. janúar 2019.
  7. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. bls. 261.
  8. „2500 ára afmæli Persaveldis var haldið hátíðlegt með glæsibrag!“. Morgunblaðið. 31. október 1971. Sótt 22. janúar 2019.
  9. 9,0 9,1 Vera Illugadóttir (5. janúar 2018). „Þegar klerkar tóku við af keisara“. RÚV. Sótt 22. janúar 2019.
  10. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. bls. 263.


Fyrirrennari:
Resa Sja
Íranskeisari
(16. september 194111. febrúar 1979)
Eftirmaður:
Keisaraveldið leyst upp
Ruhollah Khomeini sem æðstiklerkur Írans