Lisa Murkowski

Bandarísk stjórnmálakona og lögfræðingur

Lisa Ann Murkowski (f. 22. maí 1957) er bandarísk stjórnmálakona úr Repúblikanaflokknum sem hefur setið á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Alaska frá árinu 2002.

Lisa Murkowski
Murkowski árið 2017.
Öldungadeildarþingmaður fyrir Alaska
Núverandi
Tók við embætti
20. desember 2002
ForveriFrank Murkowski
Persónulegar upplýsingar
Fædd22. maí 1957 (1957-05-22) (67 ára)
Ketchikan, Alaska, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarísk
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiVerne Martell (g. 1987)
Börn2
HáskóliGeorgetown-háskóli
Willamette-háskóli
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Lisa Murkowski er dóttir Franks Murkowski, fyrrum öldungadeildarþingmanns fyrir Alaska. Árið 2002 sagði Frank Murkowski upp þingsæti sínu á öldungadeild Bandaríkjaþings þegar hann var kjörinn fylkisstjóri Alaska. Sem fylkisstjóri útnefndi Frank Murkowski dóttur sína, Lisu Murkowski, í þingsætið sem hafði losnað. Ákvörðun hans um að útnefna sína eigin dóttur í þingsætið var mjög umdeild og var víða úthrópuð sem dæmi um frændhygli.[1] Þrátt fyrir að taka við þingsætinu á umdeildan hátt tókst Murkowski að verja sætið á móti frambjóðanda Demókrataflokksins í þingkosningum ársins 2004.

Faðir Murkowski tapaði endurkjöri í fylkisstjórakosningum árið 2006 á móti Söruh Palin og Palin tók afstöðu gegn Lisu Murkowski í forvali Repúblikanaflokksins fyrir kosningar á öldungadeildina árið 2010. Murkowski tapaði í forvalinu á móti frambjóðanda úr Teboðshreyfingunni en bauð sig sjálfstætt fram á þingið og tókst aftur að ná endurkjöri, í þetta sinn án hjálpar Repúblikanaflokksins.[2] Lög Alaska heimila kjósendum að skrifa nafn einhvers annars en þeirra frambjóðenda sem eru á kjörseðlunum og greiða þeim atkvæði. Sigur Murkowski var fyrsta skipti í fimmtíu ár sem frambjóðanda sem ekki var á kjörseðlinum tókst að vinna með þessu móti.[3]

Murkowski er talin heyra til hófsamari vængs Repúblikanaflokksins og hún hefur stundum átt í deilum við íhaldssamari meðlimi í flokknum. Árið 2017 greiddi hún atkvæði gegn lagafrumvarpi Donalds Trump Bandaríkjaforseta um afnám Obamacare-heilbrigðislaganna, sem stuðlaði að því að frumvarpið var fellt þrátt fyrir að Repúblikanar væru þá í meirihluta á öldungadeildinni.[4] Árið 2018 greiddi hún jafnframt atkvæði gegn skipun Bretts Kavanaugh, sem Trump hafði tilnefnt, í sæti við Hæstarétt Bandaríkjanna.[5]

Murkowski var ein af sjö öldungadeildarþingmönnum Repúblikana sem kusu með því að sakfella Trump þegar hann var kærður til embættismissis árið 2021 í kjölfar árásar stuðningsmanna hans á Bandaríkjaþing þann 6. janúar það ár.[6] Fjandskapur þeirra leiddi til þess að Trump lýsti yfir stuðningi við mótframbjóðanda gegn Murkowski innan Repúblikanaflokksins, Kelly Tshibaka, í kosningum á öldungadeildina árið 2022.[7] Murkowski hafði engu að síður betur gegn Tshibaka í kosningunum og hélt þingsæti sínu.[8]

Murkowski hefur oft tjáð sig um málefni Norðurslóða og hefur heimsótt Ísland nokkrum sinnum í tengslum við þau, auk þess sem hún hefur átt í nánu samstarfi við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrum forseta Íslands.[9] Hún hefur nokkrum sinnum flutt erindi á ráðstefnum Hringborðs Norðurslóða (Arctic Circle), samtaka Ólafs. Á ráðstefnu samtakanna árið 2021 sagðist hún vilja stofna til fríverslunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og sagðist hafa viðrað þær hugmyndir við Joe Biden forseta.[10][11] Hún var meðal flutningsmanna frumvarps á öldungadeildinni í október 2023 til að auka efnahags- og viðskiptafrelsi Íslendinga við Bandaríkin.[12]

Viðurkenningar

breyta

Murkowski hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2021 fyrir „framlag til að styrkja og efla tengsl Íslands við Alaska og Bandaríkin“.[13]

Tilvísanir

breyta
  1. Davíð Logi Sigurðsson (26. október 2004). „Repúblikanar líklegir til að hafa áfram meirihluta á þinginu“. Morgunblaðið. bls. 23.
  2. Þorgils Jónsson (10. september 2012). „Vill auka verulega samstarf við Ísland“. Fréttablaðið. bls. 8.
  3. „Telur sig geta sigrað Barack Obama“. Fréttablaðið. 19. nóvember 2010. bls. 12.
  4. Bogi Þór Arason (29. júlí 2017). „Mikið áfall fyrir Donald Trump“. Morgunblaðið. bls. 23.
  5. „Kavanaugh skipaður dómari – Einn Repúblikani kaus gegn honum“. DV. 7. október 2018. Sótt 29. ágúst 2023.
  6. Hildur Margrét Jóhannsdóttir (13. febrúar 2021). „Trump sýknaður af ákæru um embættisglöp“. RÚV. Sótt 29. ágúst 2023.
  7. Kristján Kristjánsson (21. júní 2021). „Þetta er Repúblikaninn sem Trump beinir spjótum sínum að þessa dagana“. DV. Sótt 29. ágúst 2023.
  8. Kristján Kristjánsson (24. nóvember 2022). „Enn einn ósigur Trump – Hún er þyrnir í augum hans en hafði betur“. DV. Sótt 29. ágúst 2023.
  9. „NYT um ákæruna gegn Trump og afstöðu Lisu Murkowski“. Varðberg. 5. janúar 2020. Sótt 29. ágúst 2023.
  10. Heimir Már Pétursson (16. október 2021). „Ekki lengur hrópandinn í eyðimörkinni“. Vísir. Sótt 29. ágúst 2023.
  11. Gunnlaugur Snær Ólafsson (14. október 2021). „Vill fríverslunarsamning við Ísland“. mbl.is. Sótt 29. ágúst2023.
  12. „Leggja fram frumvarp um Ísland í öldungadeildinni“. mbl.is. 4. október 2023. Sótt 6. október 2023.
  13. Sjá Orðuhafaskrá á vefsíðu íslenska forsetaembættisins.