Liège (hérað)
Liege (franska: Liège; hollenska: Luik; þýska: Lüttich) er hérað austast í Belgíu. Það er innan franska menningarsvæðisins í landinu og því hluti af Vallóníu. Austast í Liege býr þó þýskur minnihlutahópur, sem er hluti þýska menningarsvæðisins í Belgíu. Höfuðborg héraðsins heitir sömuleiðis Liege.
Skjaldarmerki | Lega í Belgíu |
---|---|
Upplýsingar | |
Höfuðborg: | Liege |
Flatarmál: | 3.862 km² |
Mannfjöldi: | 1.053.722 (1. jan 2008) |
Þéttleiki byggðar: | 273/km² |
Vefsíða: | [1] |
Lega og lýsing
breytaLiege er 3.862 km2 að stærð og er því næststærsta hérað Belgíu. Aðeins Lúxemborg er stærra. Íbúar eru um ein milljón talsins. Liege er austasta hérað Belgíu og á landamæri að Þýskalandi, Hollandi og furstadæminu Lúxemborg. Auk þess liggur Liege að héruðunum Limburg í norðvestri, Flæmska Brabant, Vallónska Brabant og Namur í vestri, og loks héraðinu Lúxemborg í suðri. Stór hluti Liege er í Ardennafjöllum. Samtals eru fjórir hreppar (arrondissements) í Liege, sem og 84 bæir og sveitarfélög.
Söguágrip
breytaHéraðið Liege varð til árið 1795 eftir að franskur byltingarher hertók Niðurlönd. Svæðið var áður að mestu leyti í eigu furstabiskupanna í borginni Liege, en Frakkar lögðu það furstadæmi niður. Á tímabili voru borgin Liege og svæðið í kring innlimuð í Frakkland. Eftir fall Napóleons 1815 varð héraðið Liege hluti af konungsríki Niðurlanda og síðar, 1839, hluti af konungsríki Belgíu. Upphafsorrusta fyrri heimsstyrjaldarinnar átti sér stað árið 1914 við höfuðborg héraðsins, þegar Þjóðverjar réðust inn í Belgíu til að komast áleiðis til Frakklands. Eftir ósigur Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri 1918 voru tvö lítil héruð í Þýskalandi innlimuð í Liege. Það voru svæðin í kringum bæina Eupen og Malmedy. Þannig urðu núverandi landamæri héraðsins til. Á nýju svæðunum býr þýskumælandi fólk, þannig að austasti hluti héraðsins tilheyrir þýska menningarsvæði Belgíu. Árið 1940 réðust Þjóðverjar aftur inn í Liege og héldu héraðinu til 1945. Patton hershöfðingi frelsaði borgina. Við það tækifæri dönsuðu íbúar borgarinnar á götum úti og fögnuðu Bandaríkjamönnum. Eftir stríð komst mikill iðnaður á í héraðinu en hefur verið að dala síðustu áratugi. Þó er borgin Liege síðasta borgin á franska menningarsvæðinu þar sem stáliðnaður er enn í gangi.
Borgir
breytaStærstu borgir í Liege:
Röð | Borg | Íbúar | Ath. |
---|---|---|---|
1 | Liege | 194 þúsund | Höfuðborg héraðsins |
2 | Seraing | 63 þúsund | |
3 | Verviers | 55 þúsund | |
4 | Herstal | 38 þúsund |
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Provinz Lüttich“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt september 2012.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Liège (province)“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt september 2012.