Leoníd Bresnjev

Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins (1906–1982)


Leoníd Iljitsj Bresnjev (rússneska: Леонид Ильич Брежнев; 1. janúar 190710. nóvember 1982) var sovéskur stjórnmálamaður og aðalritari sovéska kommúnistaflokksins. Hann sat við stjórn Sovétríkjanna í átján ár, næstlengst allra Sovétleiðtoga á eftir Jósef Stalín. Á valdatíð hans jukust áhrif Sovétríkjanna á alþjóðavettvangi verulega, meðal annars vegna aukinna útgjalda til sovéska hersins. Hins vegar hófst efnahagsleg og samfélagsleg stöðnun á valdatíð hans.

Leoníd Bresnjev
Леонид Брежнев
Brezhnev-color.jpg
Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins
Í embætti
14. október 1964 – 10. nóvember 1982
Persónulegar upplýsingar
Fæddur1. janúar 1907
Kamenskoje, Úkraínu, rússneska keisaradæminu
Látinn10. nóvember 1982 (75 ára) Moskva, Sovétríkjunum
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna
MakiViktoría Bresnjeva
BörnGalina Bresnjeva
Júrij Bresnjev
StarfVerkfræðingur, stjórnmálamaður
Undirskrift

ÆviágripBreyta

Bresnjev fæddist árið 1906 í Kamenskoje í rússneska keisaradæminu (þar sem nú er Kamianske í Úkraínu) til rússneskrar verkamannafjölskyldu. Hann útskrifaðist úr járnvinnsluskóla í Kamenskoje og gerðist járnverkfræðingur í úkraínska stáliðnaðinum. Hann gekk í ungliðahreyfingu kommúnistaflokksins árið 1923 og var orðinn virkur meðlimur flokksins árið 1929. Þegar seinni heimsstyrjöldin hófst var hann kvaddur í herinn og gegndi herþjónustu til ársins 1946, en þá hafði hann náð tign majór-hershöfðingja. Árið 1952 var Bresnjev útnefndur í miðstjórnarráð sovéska kommúnistaflokksins og varð árið 1957 fullgildur meðlimur miðstjórnarinnar. Árið 1964 tók Bresnjev þátt í valdaráni gegn Nikita Krústsjov, aðalritara flokksins, og tók við af honum sem leiðtogi Sovétríkjanna.

Leiðtogi SovétríkjannaBreyta

Sem leiðtogi Sovétríkjanna jók Bresnjev pólitískan stöðugleika í ríkinu með íhaldssemi sinni, varkárni og viðleitni til að komast að sameiginlegum niðurstöðum með meðlimum miðstjórnarinnar. Spilling jókst hins vegar einnig vegna frændhygli hans og andstöðu við allar umbætur. Samfélagið og efnahagurinn leið fyrir það og tímabilið hefur í seinni tíð verið kennt við „stöðnun Bresnjevs“. Á alþjóðasviðinu ýtti Bresnjev á eftir svokallaðri slökunarstefnu, eða détente; viðleitni beggja heimsveldanna í kalda stríðinu til að slaka á spennu í samskiptum sínum og auka efnahagssamstarf. Þrátt fyrir þetta rak Bresnjev einnig herskáa utanríkisstefnu og Sovétríkin gripu inn í fjölda hernaðardeila á valdatíð hans. Meðal þessara hernaðarinngripa var innrás Sovétmanna í Afganistan. Í desember árið 1981 ákvað hann hins vegar að senda sovéska herinn ekki til þess að kveða niður óeirðir í Póllandi og batt þar með enda á Bresnjev-kenninguna, sem hafði gert ráð fyrir að Sovétmönnum bæri að beita hervaldi til þess að vernda kommúnismann ef honum væri ógnað á áhrifasvæði þeirra.

Eftir að heilsu hans hafði farið hrakandi í mörg ár lést Bresnjev þann 10. nóvember 1982 og Júríj Andropov tók við embætti hans. Bresnjev hafði hvatt til foringjadýrkunar á sjálfum sér, en þó ekki í nærri sama mæli og Stalín hafði gert. Mikhaíl Gorbatsjev, sem leiddi Sovétríkin frá 1985 til 1991, fordæmdi forystu og arfleifð Bresnjevtímans og hóf að gera Sovétríkin frjálslyndari.

Ímynd og orðspor BresnjevsBreyta

Á langri valdatíð sinni sem leiðtogi Sovétríkjanna varð Bresnjev nokkurs konar táknmynd hins litlausa og aldurhnigna skrifræðis sem var farið að einkenna kommúnismann. Bresnjev þótti mjög hégómafullur og glysgjarn og fór í seinni tíð að sæma sjálfan sig fjölmörgum heiðursmerkjum og æ háleitari heiðurstitlum. Hann hlaut fleiri en 100 heiðursmerki á stjórnmálaferli sínum. Hégómi Bresnjevs leiddi til þess að Sovétmenn fóru að gera gys að honum og segja fjölmarga brandara um hann, yfirleitt um óhóflegt dálæti hans á heiðursmerkjum:

  • „Leoníd Iljitsj fór í skurðaðgerð.“ / „Nú, út af hjartanu hans aftur?“ / „Nei, til að stækka bringuna á sér. Hann þarf pláss fyrir eina gullstjörnu í viðbót.“
  • „Hvað myndi koma fyrir krókódíl ef hann æti Bresnjev?“ / „Hann myndi skíta heiðursmerkjum í viku.“[1]

TilvísanirBreyta

  1. Raleigh, Donald J. (10. ágúst 2018). Soviet Baby Boomers. Oxford University Press. bls. 220.


Fyrirrennari:
Nikita Krústsjov
Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins
(1964 – 1982)
Eftirmaður:
Júríj Andropov


   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.