Elliðavatn er stöðuvatn á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs. Vatnið er svokallað sigdældarvatn myndað í sigdæld í sprungusveimi sem oft er kenndur við Krýsuvík. Elliðavatn var upphaflega tvö vötn, Vatnsendavatn sem var í Kópavogi og Vatnsvatn sem tilheyrði Reykjavík. Vötnin tengdust með mjóum ál framan við Þingnes. Árin 1924-1928 nær tvöfaldaðist flatarmál vatnins vegna þess að miðlunarstífla var reist á Elliðavatnsengi. Elliðavatn er nú alls um 2 km² að stærð en vatnið er grunnt og er meðaldýpi um 1 m og mesta dýpi um 2,3 m. Vatnasvið Elliðavatns er um 270 km² Mikill hluti af aðstreymi vatns í Elliðavatn rennur neðanjarðar gegnum hraun. Tvær ár renna í vatnið, Bugða eða Hólmsá og Suðurá. Úr Elliðavatni rennur ein á sem heitir Dimma en neðar taka Elliðaár við. Elliðavatn og vatnasvið Elliðaánna er á náttúruminjaskrá.

Horft yfir Elliðavatn

Við Elliðavatn er Þingnes en þar er talið að sé elsti þingstaður Íslands og staður þar sem hið forna Kjalarnesþing var haldið og var það ein þekktasta jörðin á sínum tíma. Það er mikið um fuglalíf á Elliðavatni víða um svæðið er hægt að finna fræðsluskilti frá Skógræktinni. Það er lítil hætta á að Elliðavatn mengist því vatnið hefur mikinn straum og því helst vatnið ekki á sama stað.[1][2]

Tengt efni breyta

Heiðmörk

Heimildir breyta

Tilvísanir breyta

  1. „Elliðavatn – Ferlir“. Sótt 16. maí 2024.
  2. Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson og Haraldur Rafn Ingvason (Mars 2004). „VÖKTUN Á LÍFRÍKI ELLIÐAVATNS: FORKÖNNUN OG RANNSÓKNATILLÖGUR“. Náttúrufræðistofa Kópavogs. Sótt Maí 2024.