Le Groom Vert-de-Gris
Le Groom Vert-de-Gris (Íslenska: Á valdi kakkalakkanna) er fimmta bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2009. Höfundur sögunnar er Yann en listamaðurinn Schwartz teiknaði. Sagan birtist í tímaritinu Neo Blek árið 2011.
Söguþráður
breytaSögusviðið er Brussel árið 1942, undir hernámi Þjóðverja. Svalur starfar sem vikapiltur á hóteli sem er höfuðstöðvar Gestapo og er því litinn hornauga af mörgum fyrir að þjóna óvininum, þar á meðal af Val vini sínum sem er misheppnaður uppfinningamaður og glaumgosi sem hugsar mest um að dilla sér við djasstónlist. Það sem Valur veit hins vegar ekki, er að Svalur er njósnari á vegum andspyrnuhreyfingarinnar og ber fregnir úr innsta hring hernámsliðsins.
Helmut von Knochen, yfirmanni hernámsliðsins, er ekki hlátur í huga. Einhvers staðar í grennd við Brussel er leynivopn sem grandar flugsveitum Þjóðverja á leið til árása á Bretland og hann hefur uppgötvað að svikari leynist á hótelinu. Á sama tíma stendur Svalur í ströngu, þar sem hin ljóshærð og íturvaxna Úrsúla, millistjórnandi í þýska hernum, reynir ákaft að draga hann á tálar. Valur uppgötvar á hinn bóginn að breskir flugmenn hafa leitað skjóls í íbúð hans og hann reynir að leyna þeim og sjá fyrir nægum mat.
Þjóðverjar egna gildru fyrir Sval og fá hann til að senda röng skilaboð til andspyrnumanna, með þeim afleiðingum að stór hópur þeirra fellur eða er tekinn höndum. Nasistarnir hyggjast handtaka Sval en hann sleppur á flótta og leitar skjóls í þakherbergi. Þar hittir hann unga gyðingastúlku, Audrey, sem leynist þar í felum. Hún kyssir hann í kveðjuskyni og hefur kossinn djúpstæð áhrif á Sval.
Valur reynir að leyna bresku flugmönnunum fyrir umheiminum og vinum sínum, þar á meðal jassgeggjaranum Glu-Glu, sem gerir hosur sínar grænar fyrir Val. Glu-Glu reynist þó vera meðlimur í andspyrnuhreyfingunni, sem tekur flugmennina undir verndarvæng sinn. Á meðan reynir Svalur í kappi við Þjóðverja að grafast fyrir um leynivopnið sem grandar flugvélunum. Í ljós kemur að um er að ræða hersveit af fjarstýrðum leðurblökum sem lúta stjórn sturlaða vísindamannsins Samovars og vélmennisins Radars (sjá: Vitskerti prófessorinn.)
Í örvinglan yfir atvinnuleysi sínu sækir Valur um vikapiltsstarfið sem Svalur gegndi áður. Hann lendir þegar í táldrósinni Úrsúlu og þau sofa saman. Hún gloprar því út úr sér að til standi að taka alla handteknu andspyrnumennina af lífi í dagrenningu. Valur grípur til sinna ráða og tekst með hjálp einnar af skringilegu uppfinningum sínum að beina breska flughernum að herfangelsinu og frelsa gíslana.
Á sama tíma er Svalur handsamaður af Gestapo á heimili sturlaða vísindamannsins og leðurblökuflugherinn fellur í hendur nasista. Þótt Evrópa falli öll í hendur bandamanna getur þýska herdeildin í Brussel enn varist með hjálp þeirra. Andspyrnumenn ná fangelsi nasista á vald sitt og hitta þar fyrir Sval, en handtaka hann og dæma til dauða þar sem þeir kenna honum um að hafa leitt þá í gildru.
Þegar veturinn rennur upp leggjast leðurblökurnar í Þegar veturinn rennur upp leggjast leðurblökurnar í dvala og viðnámi Þjóðverja lýkur. Svalur er frelsaður, en uppgötvar sér til sárra vonbrigða að Audrey er hvergi að finna. Valur og Glu-Glu eru orðin kærustupar, en allt fer í háaloft þegar í ljós kemur að Úrsúla leynist í felum í íbúð Vals.
Fróðleiksmolar
breyta- Þjóðverjar komast á snoðir um staðsetningu leynivopnsins í sögunni eftir að hafa pyntað Steingeir úr sögunni um Sval í hringnum til sagna, en í útgáfu Neo-bleks nefnist hann Stífgeir.
- Sagan er sneisafull af vísunum í belgískar og alþjóðlegar myndasögur. Þannig er illmennið Dr. Müller úr Tinna-bókunum í hlutverki pyntingarmeistara, sem og Doktor Fiðringur úr Neyðarkalli frá Bretzelborg. Alla og Siggi úr samnefndum sögum Hergé sjást hlaupandi á götu, sem og félagarnir Palli og Toggi. Á tilraunastofu nasista má sjá teikningar af faratækjum Zorglúbbs og geimflaug úr ævintýrum Tinna. Og svo mætti lengi telja.
- Sagan er blóðugri en gerist og gengur með Svals og Vals-ævintýri, þar sem allnokkrar persónur láta lífið.
- Titill bókarinnar á frummálinu vísar í grængráan vikapiltsbúning sem Svalur skartar í sögunni í stað hins hefðbundna rauða. Á Norðurlandamálunum og þýsku nefndist sagan Leðurblökuaðgerðin (danska: Operation Flagermus).
- La Femme léopard frá árinu 2014 er sjálfstætt framhald sögunnar.
Íslensk útgáfa
breytaSagan birtist í íslenskri þýðingu í þremur hlutum í tímaritinu Neo Blek á árinu 2011. Hún var prentuð í svarthvítu ef undan er skilinn síðasti fjórðungurinn sem er í lit. Árið 2023 kom bókin svo út á vegum Frosks útgáfu í endurskoðaðri þýðingu Anitu K. Jónsson.