La Femme léopard (Hlébarðastúlkan) er sjöunda bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2014. Höfundur sögunnar er Yann en listamaðurinn Schwartz teiknaði. Sagan sjálfstætt framhald bókarinnar Le Groom Vert-de-Gris.

Söguþráður breyta

 
Belgískt veggmálverk, endurgerð myndaramma úr Hlébarðastúlkunni.

Sögusviðið er Brussel árið 1946. Svalur starfar enn sem vikapiltur á hóteli en hallar sér ótæpilega að flöskunni þar sem hann hugsar í sífellu um táningsstúlkuna Audrey sem væntanlega hefur látist í útrýmingarbúðum nasista.

Á hótelinu hefst við gamall veiðimaður í þaksvítu sem er full af minjagripum um veiðiafrek í Afríku. Aniota, þeldökk stúlka í hlébarðabúningi brýst inn í íbúð veiðimannsins í leit að fágætri styttu sem reynist hafa verið seld safnara frá París. Þau takast á í bardaga upp á líf og dauða þegar Svalur kemur aðvífandi. Stúlkan leggur á flótta eftir húsþökum borgarinnar en byssukúla veiðimannsins særir hana. Svalur kemur henni til bjargar, en uppgötvar að þau eru elt af einhvers konar vélmennum sem minna helst á tröllvaxna górilluapa. Hann grípur því til þess ráðs að fela hlébarðastúlkuna í íbúð Vals, sem er spjátrungslegur blaðamaður sem á í mestu vandræðum með að skrifa grein um existensíalisma.

Svalur eigrar um götur Brussel og finnst hann sjá Audrey í hverju horni. Hann hleypur líka í flasið á þýska nasistaforingjanum Helmut von Knochen í fylgd nokkurra orðljótra Bandaríkjamanna, en kennir áfengisneyslu sinni um ofsjónirnar. Þegar á hótelið er komið, er honum sagt upp störfum vegna skipulagsbreytinga.

Í ljós kemur að Svalur sá engar ofsjónir. Von Knochen er enn í Brussel, en nú sem fangi Bandaríkjamanna sem reyna að fá gamla nasista til starfa fyrir sig. Þeir hafa handsamað nokkra færustu vísindamenn Þriðja ríkisins á sviði kjarnorkuvopnasmíði. Von Knochen hyggst svipta sig lífi, en á síðustu stundu er hann frelsaður af dularfullu vél-górillunum, sem nema þýsku nasistana á brott úr herstöð Bandaríkjamanna.

Hlébarðastúlkan, sem hafði stungið af úr íbúð Vals, snýr aftur í skjóli nætur og neyðir Val til að keyra sig til Parísar. Bensín er af skornum skammti, en uppfinningamaðurinn Valur hafði hannað farartæki sem gengur fyrir steikingarfeiti. Síðar sömu nótt kemur Glu-Glu, unnusta Vals í heimsókn til hans til ástarfundar í tilefni afmælisdags hans. Henni bregður mjög við að hitta Sval í rúmi ástmanns síns. Þau uppgötva að Val hafi verið rænt og hefja samstundis eftirför.

Þau hittast öll á kaffihúsi í París, þar sem Valur og hlébarðastúlkan, sem reynist heita Aniota og vera Brusselbúi en ættuð frá Belgísku-Kongó, hafa fyrir tilviljun rekist á heimspekinginn Jean-Paul Sartre og konu hans Simone de Beauvoir. Ágætur vinskapur tekst með þeim öllum og þau skemmta sér vel á jazz-búllum Parísar. Hjónin kynna þau fyrir listmunasafnara sem reynist vera sá sem keypti styttuna sem Aniota er á höttunum eftir. Kröftugar ræður hennar um kynjajafnrétti verða de Beauvoir hins vegar umhugsunarefni og hún fær hugmyndina að bók sinni Hinu kyninu.

Í ljós kemur að listsafnarinn lumar aðeins á helmingi styttunnar og hinn hlutinn sé að öllum líkindum glataður. Það er Aniotu þungt áfall, þar sem um töfragrip sé að ræða sem verði að flytja í heild sinni til Kongó án tafar. Gnu-Gnu reynist hins vegar hafa rekist á hinn hlutann á flóamarkaði skömmu fyrr og keypt í afmælisgjöf fyrir Val. Þeim tekst að setja styttuna saman og Svalur, Valur og Aniota leggja af stað til Afríku með farþegaskipi.

Fróðleiksmolar breyta

  • Bókin er full af vísunum í atburði og persónur í sögu Belgíu og Frakklands undir lok fimmta áratugarins. Öfugt við fyrri sögu þeirra Schwartz og Yann í ritröðinni fer þó minna fyrir vísunum í gamlar aukapersónur úr Svals & Vals-heiminum, en þeim mun meira er um skírskotanir til Tinna-bókanna.
  • Teiknistíll bókarinnar minnir um margt á ókláraða Svals & Vals-sögu eftir Yves Chaland frá árinu 1982, en í henni koma einnig við sögu torkennileg vélmenni, gamall veiðimaður með söfnunaráráttu og ferðalag til Kongó.
  • Svalur og Glu-Glu lenda í árekstri í Parísarborg við bíl og hóp ungmenna sem minnir töluvert á Hin fjögur fræknu.
  • Vísanir í kynlíf og áfengisneyslu er meiri í sögunni en gerist og gengur í bókum um Sval & Val, enda markhópur sögunnar eldri.
  • Framhald sögunnar, Le Maître des hosties noires, kom út árið 2017.