Arfurinn - Vitskerti prófessorinn

Arfurinn - Vitskerti prófessorinn var fyrsta bók Frosks útgáfu um Sval og Val, þótt hún sé merkt númer tvö í ritröðinni. Hún hefur að geyma tvær sögur frá upphafsárum Franquins auk styttri skrítla. Bókin er óvenjuleg að því leyti að hún er ekki bein þýðing á erlendri Svals og Vals-útgáfu, heldur eru þar valdar saman sögur sem ekki hafa verið birtar saman á bók á öðrum tungumálum.

Söguþráður

breyta

Arfurinn (franska: L'Héritage) er fyrri aðalsagan. Hún hefst á að Svalur fær tilkynningu um andlát gamals frænda og heldur til fundar við lögfræðing sem upplýsir að arfurinn sé gamalt sveitasetur. Svalur og Valur kanna húsið sem virðist allt hið draugalegasta. Í ljós kemur þó að ekki er um reimleika að ræða heldur gamlan starfsmann frændans sem er á höttunum eftir fjarsjóðskorti. Svalur og Valur yfirbuga starfsmanninn svikula og halda sjálfir í fjarsjóðsleit til Afríku, með tvo glæpamenn sem ágirnast fjársjóðinn á hælunum.

Í Afríku komast félagarnir í tæri við sérlundaðan landkönnuð með tamda górillu sem einkaþjón. Saman halda þeir í fjársjóðsleit og lenda í útistöðum við fjölmörg dýr merkurinnar. Þeir eru gripnir af mannætum, en svo heppilega vill til að drykkfelldur töfralæknirinn í villimannaþorpinu reynist gamall vinur frænda Svals og vörslumaður fjársjóðsins. Vonbrigði þeirra verða mikil þegar í ljós kemur að fjársjóðurinn reynist ógnarmiklar birgðir af viskí. Í sömu andrá koma skúrkarnir aðvífandi. Eftir nokkur átök kviknar í áfengislagernum sem springur í loft upp ásamt glæpamönnunum.

Svalur á ströndinni er safn af fjórum stuttum skrítlum, hver upp á eina blaðsíðu sem birtust í Teiknimyndablaðinu Sval. Í þeim öllum eru Svalur og Valur staddir á baðströnd en lenda í vandræðum með óþæg börn, flugdreka og óstýrilátar skepnur.

Vitskerti prófessorinn (franska: Radar le robot) er seinni aðalsagan. Svalur og Valur eru staddir í smáþorpi sem haldið er í heljargreipum af mannlausri bifreið sem brunar um strætin. Í ljós kemur að bílnum er fjarstýrt af Samovar, sturluðum vísindamanni í nágrenninu. Vísindamaðurinn kynnir Sval fyrir uppfinningum sínum, fullkomnu vélmenni sem gengur undir nafninu Radar og dómsdagsvél sem ætlað er að brenna andrúmsloft jarðar. Svalur og Valur hindra vísindamanninn í að tortíma veröldinni og endar hann að lokum meðvitundarlaus á spítala. Vélmennið Radar reynir að koma fram hefndum en félögunum tekst að tortíma vélinni.

Upprunaleg útgáfa

breyta

Arfurinn - Vitskerti prófessorinn er séríslensk útgáfa í þeim skilningi að sögur þessar hafa ekki verið prentaðar saman á bók í öðrum löndum. Árið 1989 hóf Dupuis-forlagið í Belgíu útgáfu nýs bókaflokks með sígildum Svals og Vals-sögum (franska: Spirou et Fantasio Hors Série). Tvær bækur komu út á árinu 1989 og aðrar tvær árið 2003. Hafa þær allar að geyma sögur eftir teiknara bókaflokksins, einkum byrjendaverk þeirra.

Fyrsta bókin í ritröðinni nefndist Arfurinn eða L'Héritage og hefur að geyma samnefnt ævintýri. Vitskerti prófessorinn eða Radar le robot var titilsaga bókar númer tvö. Þar sem sögur þessar birtust hvor á eftir annarri í Teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1946-47 má segja að röðin sé réttari hjá Froski útgáfu en Dupuis.

Útgáfuupplýsingar

breyta

Arfurinn - Vitskerti prófessorinn var gefin út af Froski útgáfu árið 2013. Jean Antoine Posocco, eigandi útgáfunnar sá um uppsetningu og handskrift. Anita K. Jónsson er skráð fyrir íslenskri þýðingu.

Bókin var endurprentuð árið 2017, með örlitlum breytingum, til dæmis með lagfæringu á málfari.