Landsréttarmálið

Landsréttarmálið er mál sem vísar til eftirmála þess þegar 15 einstaklingar voru skipaðir dómarar við Landsrétt í júní 2017. Málið leiddi til afsagnar Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) kvað upp úrskurð þess efnis þann 12. mars 2019 að dómaraskipan í Landsrétt hafi brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Úrskurður MDE var síðar staðfestur af yfirnefnd MDE þann 1. desember 2020.

Skipunarferlið breyta

Landsréttur var nýr dómstóll sem tók til starfa 1. janúar 2018. Í febrúar árið 2017 voru 15 stöður dómara við réttinn auglýstar lausar til umsóknar. 37 einstaklingar sóttu um stöðurnar, 14 konur og 23 karlar en síðar drógu fjórir umsækjendur umsóknir sínar til baka. Sérstök dómnefnd um hæfi dómara fór yfir umsóknirnar og skilaði dómsmálaráðherra lista yfir 15 umsækjendur sem hún taldi hæfasta en á lista nefndarinnar voru tíu karlar en fimm konur. Skömmu eftir að listinn var gerður opinber létu þingmenn Viðreisnar í ljós óánægju með listannn og gáfu til kynna að þau myndu ekki samþykkja hann með óbreyttu kynjahlutfalli.[1] Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins lagði tillögur sínar um skipan dómara fyrir Alþingi í lok maí en á lista ráðherra voru sjö konur og átta karlar. Tillaga ráðherra var því ekki í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar en fjórir umsækjendur á lista dómnefndar var ekki að finna í tillögum dómsmálaráðherra.[2] Sigríður rök­studdi breytta röðun sína með því að hún hafi viljað auka vægi dóm­ara­reynslu en það virtist hins vegar ekki standast skoðun.[2] Fjölmargir gagnrýndu dómsmálaráðherra fyrir að breyta listanum, m.a. þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna og Lögmannafélag Íslands. Atkvæðagreiðsla um málið fór fram á Alþingi 1. júní og var tillaga dómsmálaráðherra samþykkt með 31 atkvæði þing­manna ríkisstjórnarflokkanna þriggja Sjálf­stæð­is­flokks, Bjartrar fram­tíðar og Við­reisnar gegn atkvæðum þingmanna Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Vinstri grænna. Þingmenn Fram­sókn­ar­flokk­sins sátu hjá. Gagnrýnisraddir töldu að Alþingi hefði ekki staðið rétt að atkvæðagreiðslunni og í stað þess að greiða atkvæði um tillögur dómsmálaráðherra í heild sinni hefði átt að greiða atkvæði um hverja skipun fyrir sig. Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata gagnrýndi þetta harðlega og biðlaði m.a. til Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands að staðfesta ekki samþykkt Alþingis.[3] Nokkrum dögum síðar staðfesti forseti samþykkt Alþingis með því að undirrita skipunarbréf dómaranna 15 en sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu og sagði undirritun sína vera í samræmi við formlegar og sjálfsagðar stjórnarathafnir.[4]

Umsækjendur leita réttar síns breyta

Skömmu eftir að dómarnir 15 höfðu verið skipaðir ákvaðu tveir umsækjanda, Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson að stefna ríkinu vegna þeirrar ákvörðunar dómsmálaráðherra að skipa þá ekki dómara við Landrétt en þeir voru í hópi þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd mat hæfasta.[5][6] Máli Ástráðs og Jóhannesar lauk í Hæstarétti í desember 2017 með þeirri niðurstöðu að ríkið var sýknað af kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Þeim voru hins vegar dæmdar 700 þúsund krónur í bætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar. Rök Hæstaréttar fyrir því að hafna skaðabótakröfu þeirra voru þau að þeir hefðu ekki sýnt fram á fjárhagslegt tjón en þeir kusu að framvísa ekki skattframtölum máli sínu til stuðnings. Síðar leituðu umsækjendurnir Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson einnig réttar síns og var íslenska ríkið dæmt skaðabótaskylt í málum þeirra beggja. Í dómum Hæstaréttar í málum Ástráðs og Jóhannesar komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð dómsmálaráðherra hefði verið andstæð 10. grein stjórnsýslulaga, rannsóknarreglunni. Ráðherra hefði ekki rannsakað málið með fullnægjandi hætti, svo henni væri fært að taka aðra ákvörðun um hæfni umsækjenda en dómnefnd hefði tekið.[7]

Landsréttarmálið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu breyta

Í febrúar árið 2018 óskaði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður eftir því fyrir hönd skjólstæðings síns sem hafði verið dæmdur fyrir umferðarlagabrot að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari viki sæti sem dómari í máli við Landsrétt vegna vanhæfis. Arnfríður var ein hinna fjögurra dómara sem skipuð var í Landsrétt þvert á niðurstöðu hæfnisnefndarinnar.[8] Vilhjálmur taldi að vegna skipunar hennar hefði skjólstæðingur sinn ekki hlotið réttláta og sjálfstæða málsmeðferð fyrir óvilhöllum dómstóli sem sé skipaður af lögum. Landsréttur féllst ekki á kröfu Vilhjálms sem skaut málinu þá til Hæstaréttar sem svo staðfesti dóm Landsréttar.[9] Í kjölfar þess var málinu skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sem kvað upp úrskurð þess efnis þann 12. mars 2019 að dómaraskipun Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra í Landsrétt hafi brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Íslenska ríkið óskaði í kjölfarið eftir endurskoðun yfirdeildar Mannréttindadómstólsins á dómi MDE. Yfirdeildin staðfesti úrskurð Mannréttindadómsstólsins þann 1. desember 2020.

Vantrauststillaga á dómsmálaráðherra breyta

Í mars árið 2018 lögðu þingmenn Samfylkingar og Pírata fram tillögu á Alþingi um vantraust á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra vegna ólöglegra skipana hennar á dómurum í Landsrétti. Vantrauststillagan var felld með 33 atkvæðum gegn 29. Allir þingmenn stjórnarandstöðunnar fyrir utan Bergþór Ólason þingmann Miðflokksins greiddu atkvæði með tillögunni auk þess sem tveir þáverandi þingmenn Vinstri grænna þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir studdu tillöguna. Aðrir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks greiddu atkvæði gegn tillögunni.[10]

Afsögn dómsmálaráðherra breyta

Eftir að Mannréttindadómstóllinn kvað upp úrskurð sinn þann 12. mars 2019 töldu ýmsir að Sigríði Andersen væri ekki stætt í embætti dómsmálaráðherra og þingmenn stjórnarandstöðu kölluðu eftir afsögn ráðherra. Þann 13. mars, degi eftir úrskurð MDE sagði Sigríður af sér ráðherraembættinu. Hún sagðist við það tækifæri skynja að menn hafi ætlað sér: „með réttu eða röngu, að láta persónu mína trufla þær ákvarðanir og þau skref sem þarf að taka í dómsmálaráðuneytinu. Ég ann dómsmálunum meira en svo að ég læt það líðast.“ Aðspurð sagðist Sigríður ekki hafa verið beitt þrýstingi frá ríkisstjórnarflokkunum til þess að segja af sér.[11] Sama dag og Sigríður tilkynnti afsögn sína sagðist Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þó hafa rætt við Sigríði og lýst yfir áhyggjum sínum af stöðu mála tengdum Landsrétti.[12]

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók við embætti dómsmálaráðherra við afsögn Sigríðar.

Tilvísanir breyta

  1. Stundin.is, „Viðreisn segist hafa rekið Sigríði Andersen til baka“ (skoðað 7. desember 2020)
  2. 2,0 2,1 Kjarninn.is, „Tíu staðreyndir um skipan dómara í Landsrétt“ (skoðað 7. desember 2020)
  3. Visir.is, „Jón Þór biðlar til forsetans“ (skoðað 8. desember 2020)
  4. Kjarninn.is, „Guðni staðfesti skipan dómara við Landsrétt“ (skoðað 8. desember 2020)
  5. Mbl.is, „Ástráður stefnir ríkinu“ (skoðað 8. desember 2020)
  6. Kjarninn.is, „Jóhannes Rúnar stefnir ríkinu vegna skipunar á Landsréttardómara“ (skoðað 8. desember 2020)
  7. Visir.is, „Ríkið dæmt til að greiða skaðabætur vegna skipunar dómara við Landsrétt“ (skoðað 8. desember 2020)
  8. Visir.is, „Krefst þess að Arnfríður víki sæti í Landsrétti vegna vanhæfis“ (skoðað 8. desember 2020)
  9. Ruv.is, „Arnfríður mátti dæma í Landsrétti“ (skoðað 8. desember 2020)
  10. Visir.is, „Vantrauststillaga Samfylkingar og Pírata felld“ (skoðað 8. desember 2020)
  11. Ruv.is, „Sigríður segist ekki vera að fórna sér“ (skoðað 8. desember 2020)
  12. Visir.is, „Katrín lýsti yfir áhyggjum sínum við Sigríði í gær“ (skoðað 8. desember 2020)