Landsréttur

Áfrýjunardómstóll á Íslandi

Landsréttur er áfrýjunardómstóll á Íslandi með fimmtán fastadómurum. Hann var settur á fót með lögum um dómstóla nr. 50/2016 frá 7. júní 2016 en dómstóllinn tók þó ekki til starfa fyrr en 1. janúar 2018. Við stofnun hans var bætt við dómstigi milli héraðsdómstólanna og Hæstaréttar, og hafði þá ekki verið þriggja dómstiga fyrirkomulag á Íslandi síðan Landsyfirréttur var lagður niður árið 1919. Samkvæmt lögunum á dómstóllinn að vera með aðsetur í Reykjavík en þar sem ekki fannst hentugt húsnæði fyrir hann innan Reykjavíkur var sett inn ákvæði til bráðabirgða í lögin þar sem veitt var tímabundin undanþága frá þessu skilyrði fram til 1. janúar 2022. Hefur hann því aðsetur í Kópavogi þessa stundina.

Forsendur fyrir stofnun hans breyta

Ein meginforsendan fyrir stofnun dómstólsins var að innleiða milliliðalausa sönnunarfærslu þegar málum væri áfrýjað og ásamt því að létta af álaginu sem hafði hvílt á Hæstarétti í nokkurn tíma. Niðurstöðum héraðsdómstólanna yrði þá aðallega skotið til Landsréttar í stað Hæstaréttar áður og frekara málskot yrðu háð áfrýjunarleyfum frá Hæstarétti. Þar að auki yrði Landsréttur betur í stakk búinn til þess að endurskoða málin efnislega. Í algjörum undantekningartilvikum væri hægt að skjóta málum beint frá héraðsdómstólum til Hæstaréttar. Með þessu fyrirkomulagi gæti Hæstiréttur haft meira val um hvaða mál hann tæki að sér.

Landsréttarmálið breyta

Árið 2019 dæmdi Mannréttindadómstól Evrópu á þá leið að einn af dómurum Landsréttar hafi verið ólöglega skipaður.[1] Í kjölfar þess sagði Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra af sér.

Tenglar breyta

Tilvísanir breyta

  1. „MDE segir Landsrétt ólöglega skipaðan“. RÚV. 12. mars 2019. Sótt 18. mars 2019.