Sambandslögin voru lög um samband Íslands og Danmerkur sem voru samþykkt árið 1918 í þjóðaratkvæðagreiðslu með miklum meirihluta, 90,9% greiddra atkvæða. Kosningaþátttaka var 43,8%.

Íslendingar fagna fullveldi Íslands fyrir framan Stjórnarráðshúsið í Reykjavík þann 1. desember árið 1918.

Danir áttu frumkvæði að því að samið var um ný sambandslög við Ísland. Jón Magnússon, forsætisráðherra Íslands, hafði í upphafi aðeins beðið Dani um leyfi til þess að taka upp sérstakan siglingafána fyrir Ísland. Carl Theodor Zahle, forsætisráðherra Danmerkur, bauð Íslendingum þess í stað til viðræðna um að endurskoða sambandslög landanna í heild sinni.[1] Ríkisstjórn Zahle setti saman nefnd skipaða meðlimum Róttæka vinstriflokksins, Jafnaðarmanna og Vinstriflokksins til þess að semja við Íslendinga um ný sambandslög milli ríkjanna.

Kosið var um skilmálana sem sambandsnefndin hafði samið um í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ísland varð þar með fullvalda og frjálst ríki í konungssambandi við Danmörku, þjóðirnar höfðu sama þjóðhöfðingja, Danakonung, sem þá var Kristján 10. Danir skyldu fara með utanríkismál Íslendinga í umboði þeirra og ríkisborgararéttur átti að vera gagnkvæmur milli ríkjanna. Auk þess voru ákvæði til bráðabirgða um að Danir sæju um landhelgisgæslu fyrir Íslendinga og hæstiréttur Danmerkur yrði æðsti dómstóll Íslendinga þar til þeir kysu að taka bæði málin í sínar hendur. Hæstiréttur Íslands var stofnaður tveimur árum seinna 1920. Samninginn var hægt að endurskoða eftir 1940.

1. desember er almennt kallaður fullveldisdagurinn til minningar um þá samþykkt Sambandslaganna að Ísland var viðurkennt sem fullvalda og frjálst ríki. Íslenski fáninn var dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni. Lítið var samt um hátíðahöld, og olli spánska veikin þar mestu um. Meira var þó um hátíðarhöld 100 árum síðar. Með fjölmörgum viðburðum um allt land. Þegar aldarafmæli fullveldisins var minnst.

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Saga Íslands, 10. bindi, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík (2009), bls. 295.

Heimild

breyta
  • Fullveldisviðurkenningin 1918 var engin gjöf; grein í Morgunblaðinu 1939
  • „Skýrsla um þjóðaratkvæði“. Sótt 6. nóvember 2006.
   Þessi sögugrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.