Kristján 1.

konungur Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar á tíma Kalmarsambandsins (1426-1481)
(Endurbeint frá Kristján I)

Kristján 1. (1426 - 21. maí 1481) var fyrsti konungurinn af Aldinborgarættinni. Hann var konungur Danmerkur frá 1448 til 1481, Noregs frá 1450 til 1481 og Svíþjóðar frá 1457 til 1464.

Skjaldarmerki Aldinborgarar Konungur Danmerkur,
Noregs og Svíþjóðar
Aldinborgarar
Kristján 1.
Kristján 1.
Ríkisár 1448 - 1481
Danmörku
1450 - 1481
Noregi
1457 - 1464
Svíþjóð
Fæddurfebrúar 1426
 Aldinborg
Dáinn21. maí 1481
 Kaupmannahöfn
GröfRoskilde
Konungsfjölskyldan
Faðir Diderik af Oldenburg
Móðir Hedevig af Holsten
DrottningDóróthea af Brandenborg

Kristján var sonur Diðriks greifa af Aldinborg (Oldenburg) og konu hans Hedevig af Holstein, sem var afkomandi Eiríks klippings, Danakonungs á 14. öld. Kristófer af Bæjaralandi, konungur Danmerkur frá 1440, dó óvænt árið 1448. Hann var barnlaus og vandi að finna erfingja. Adolf hertoga af Slésvík, móðurbróður Kristjáns, var boðin kórónan en hann benti á systurson sinn og var hann valinn, meðal annars með því skilyrði að hann giftist ekkju Kristófers, Dórótheu drottningu, og að allar meiri háttar ákvarðanir þyrftu að fá samþykki ríkisráðsins. Norðmenn voru þó tregir til að samþykkja Kristján sem konung og Svíar vildu hann alls ekki, sprengdu Kalmarsambandið og völdu Karl Knútsson Bonde sem konung.

Eftir átök við Svía um yfirráð yfir Noregi var Kristján krýndur konungur Noregs í Niðarósdómkirkju sumarið 1450 af Marcellusi Skálholtsbiskupi, en tveimur árum síðar fór Karl Knútsson í stríð við Dani og réðist á Skán. Stríðið stóð í fimm ár og veitti ýmsum betur en á endanum unnu Danir sigur, Kristján var krýndur konungur Svíþjóðar og Kalmarsambandið var endurreist.

Marcellus Skálholtsbiskup, sem raunar kom aldrei til Íslands, var einn helsti ráðgjafi Kristjáns 1. á fyrsta áratug valdaferils hans. Marcellus var ævintýramaður sem tókst að koma sér í mjúkinn hjá konungi og fékk hann jafnvel til að velja sig sem erkibiskupsefni í Niðarósi en þau áform náðu þó ekki fram að ganga. Marcellus varð hins vegar kanslari og einn valdamesti maður Danmerkur og raunar Norðurlanda allra, þar til hann drukknaði 1460.

Þegar Adolf hertogi af Slésvík dó barnlaus 1459 tókst Kristjáni að fá sig hylltan sem hertoga af Slésvík og greifa af Holstein en það kostaði mikið fé, auk þess sem hann þurfti að eiga í stríði við ýmsa aðra sem þóttust eiga tilkall til erfða og það varð honum dýrt. Hann neyddist til að hækka skatta og steypti sér í miklar skuldir. Nokkru síðar gerðu Svíar uppreisn og kölluðu Karl Knútsson aftur til valda. Kristján fór í stríð við Svía eftir lát Karls 1470 og reyndi að vinna ríkið að nýju en beið ósigur í orrustunni við Brunkebjerg 1471.

Þegar frá leið tókst Kristjáni að greiða hluta af skuldum sínum og fá eftirgjöf á öðru og styrkja veldi sitt. Árið 1468 kallaði hann saman fyrsta stéttaþingið sem haldið var í Danmörku.

Kristján 1. dó í Kaupmannahöfn 21. maí 1481 og er legstaður hans í Hróarskeldudómkirkju. Kona hans var sem fyrr segir Dóróthea af Brandenborg (um 1430 - 10. nóvember 1495), ekkja Kristófers af Bæjaralandi, og áttu þau þrjú börn sem upp komust, Hans og Friðrik 1., sem báðir urðu konungar Danmerkur, og Margréti, sem giftist Jakob 3. Skotakonungi.

Heimild

breyta

* Fyrirmynd greinarinnar var „Christian 1.“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. október 2009.


Fyrirrennari:
Kristófer af Bæjaralandi
Konungur Danmerkur
(1448 – 1481)
Eftirmaður:
Hans Danakonungur