Friðrik 1. Danakonungur

Friðrik 1. (7. október 147110. apríl 1533) var konungur Danmerkur, Noregs og Íslands frá 1523 til dauðadags. Hann tók við konungdæmi eftir að Kristjáni 2. bróðursyni hans var velt úr sessi.

Friðrik 1. Danakonungur

Friðrik var yngri sonur Kristjáns 1. og konu hans, Dórótheu af Brandenborg. Faðir hans lést 1481 og tók þá Hans bróðir Friðriks, sem var 16 árum eldri, við konungdæminu. Hann ólst upp í hertogadæmunum Slésvík og Holstein, en þaðan var föðurætt hans, og stýrði hertogadæmunum frá 1490 við góðan orðstír. Hann bjó í Gottorphöll í Slésvík.

Hans dó 1513 og sonur hans, Kristján 2., tók við konungdæminu. Hann varð þó fljótt óvinsæll hjá danska aðlinum og árið 1523 gerðu aðalsmenn - eða hluti þeirra - bandalag við Friðrik hertoga. Þann 8. mars það ár sagði Friðrik Kristjáni bróðursyni sínum stríð á hendur og átján dögum síðar lét hann hylla sig konung í Viborg. Kristján 2. flúði land 2. apríl og Friðrik 1. var hylltur konungur Dana og Norðmanna. Ríkisráð Norðmanna samþykkti 23. ágúst 1524 að taka Friðrik til konungs yfir Noregi (og þar með Íslandi) og sat Jón Arason þann fund eins og íslensku biskuparnir áttu rétt á ef þeir voru staddir í Noregi.

Stjórnartíð Friðriks 1. var nokkuð óróasöm, enda vildu margir borgarar og bændur fá Kristján 2. aftur á konungsstól. Søren Andersen Norby, lénsmaður á Gotlandi og áður hirðstjóri á Íslandi, var einn helsti andstæðingur konungs og leiddi bændur á Skáni og Blekinge í uppreisn en beið lægri hlut. Árið 1532 tókst Friðrik að blekkja Kristján 2. til að koma til Danmerkur og hét honum friðhelgi en sveik loforðið, lét handtaka frænda sinn og hélt honum föngnum þar til hann lést 1559.

Friðrik hélt sig í Gottorphöll eða hertogadæmunum svo til alla stjórnartíð sína og kom ekki til Danmerkur nema það væri óhjákvæmilegt. Noreg heimsótti hann aldrei. Honum tókst þó að hafa í fullu tré við aðalinn þótt hann hefði orðið að gefa honum ýmis loforð þegar hann tók við völdum. Til dæmis hafði hann heitið því að vernda kaþólsku kirkjuna en leyfði þó lútherstrú í raun og hafði lútherskan hirðprest.

Friðrik gekk árið 1502 að eiga Önnu, dóttur kjörfurstans af Brandenborg, sem þá var 15 ára. Hún lést 1514 og varð því aldrei drottning. Þau áttu tvö börn og var annað þeirra Kristján 3. Árið 1518 giftist Friðrik Soffíu af Pommern (1498 - 13. maí 1568) og eignuðust þau fimm börn.


Fyrirrennari:
Kristján 2.
Konungur Danmerkur
(15231533)
Eftirmaður:
Kristján 3.


Heimild

breyta