Konrad von Maurer

(Endurbeint frá Konrad Maurer)

Konrad Heinrich von Maurer (29. apríl 182316. september 1902) var þýskur réttarsagnfræðingur, þjóðfræðingur og norrænufræðingur. Á Íslandi er hann er meðal annars þekktur fyrir dagbók sína er hann skrifaði á Íslandsferð sinni árið 1858 og þann stuðning sem hann sýndi Íslendingum í sjálfstæðisbaráttunni.

Olíumálverk af Konrad Maurer eftir Knud Bergslien, málað árið 1876. Í eigu háskólans í Ósló.
Konrad Maurer
Konrad Maurer, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn

Konrad Maurer var sonur Georg Ludwig von Maurer og Friederike Maurer (fædd Heydweiller). Systir hans var Charlotte (1821-1874). Árið 1826 fluttist fjölskyldan frá Frankenthal í Pfalz til München því faðir hans hafði fengið ráðningu sem prófessor í þýskri réttarsögu við Ludwig-Maximilians háskólann í München. Sjö ára að aldri missti Konrad Maurer móður sína. Í tvö ár dvaldi hann í Grikklandi þar sem faðir hans starfaði í ráðuneyti Ottós I Grikklandskonungs, meðal annars við gerð stjórnarskrár landsins. Að því loknu flutti fjölskyldan aftur til München.

Konrad Maurer fékk tilsögn hjá einkakennurum og lauk stúdentsprófi árið 1839 frá Altes Gymnasium í München (nú Wilhelmsgymnasium). Áhugi hans stefndi til náttúruvísinda, einkum steindafræði. Samkvæmt ósk föður síns lagði hann stund á lögfræði í München, Leipzig og Berlín. Í námi sínu varð Konrad Maurer fyrir miklum áhrifum af lögfræðingnum Wilhelm Eduard Albrecht sem og Jacob Grimm, upphafsmanni þýskrar þjóðfræði og fornfræði.

Störf

breyta

Konrad Maurer lauk doktorsprófi árið 1845 einungis 22 ára gamall og þáði árið 1847 (eiginlega gegn sínum eigin vilja) stöðu aðstoðarprófessors í lögfræði við háskólann í München. Árið 1855 var hann ráðinn prófessor í þýskum einka- og ríkisrétti.

Konrad Maurer fékk mikinn áhuga á norrænum þjóðum og menningu þeirra, bókmenntum og sögu, en þó sérstaklega Íslandi og Noregi. Á Íslandi er litið á hann sem einn af helstu bandamönnum landsins á 19. öldinni. Frá árinu 1856 gerðist hann talsmaður sjálfstæðis Íslands og studdi Jón Sigurðsson í sjálfstæðisbaráttu hans.

Ferð Konrad Maurers til Íslands

breyta

Vorið 1858 ferðaðist Maurer til Íslands og dvaldi þar í hálft ár. Hann ferðaðist víða um landið ásamt jarðfræðingnum Georg Winkler og leiðsögumanninum Ólafi Ólafssyni. Á ferðinni safnaði hann íslenskum þjóðsögum, sem gefnar voru út í Leipzig árið 1886, rannsakaði sögustaði og lagði sig fram við að kynnast fólki sem gat veitt honum upplýsingar um land og þjóð. Leið hans lá fyrst um Suðurland og síðan norður yfir Sprengisand. Frá Bárðardal fór hann til Akureyrar og þaðan vestur í Dali og Breiðafjörð og þaðan lá leiðin til Borgarfjarðar og síðan til Reykjavíkur.

Hann hélt dagbók allan tímann og skrifaði síðar mikla ferðasögu. Sú saga lá lengi gleymd og grafin, en fannst árið 1972. Á þýsku er hún aðeins til í handriti en var þýdd á íslensku og gefin út árið 1997[1].

Starfsævi Konrads Maurers

breyta

Konrad Maurer sérhæfði sig í norrænni réttarsögu og var í fararbroddi fræðimanna á því sviði. Hann hélt fyrirlestra í München, Ósló og Kaupmannahöfn. Með rannsóknum sínum lagði hann grunninn að norrænum fræðum. Árið 1865 var Konrad Maurer tekinn inn í bæversku vísindaakademíuna vegna stefnumarkandi rannsókna sinna.

Árið 1876 var hann heiðraður með þjónustuorðu bæversku kórónunnar og samkvæmt reglum orðunnar fékk hann aðalsnafnbótina „Ritter von“. Hann hafnaði því hins vegar alla tíð að nota þessa nafnbót í persónulegum samskiptum. Sama ár var hann tilnefndur heiðursdoktor við háskólann í Kristjaníu (Ósló). Hann neitaði að taka stöðu prófessors sem kennd var við hann sjálfan sem ráðgert var að stofna við háskólann í Kristjaníu.

Fjölskylda og vinir

breyta

Nokkrum dögum eftir heimkomuna frá Íslandi giftist Konrad Maurer Valerie von Faulhaber. Þau eignuðust átta börn. Af þeim létust tvö á barns aldri. Elsti sonur þeirra, Ludwig Maurer (1859-1927) varð prófessor í stærðfræði í Tübingen. Markus Maurer (1861-1891) var sagnfræðikennari í Würzburg. Yngsti sonurinn, Friedrich Maurer, (1866-1914) var major í 14. sveit bæversku fótgönguliðanna.

Á meðal vina hans frá Noregi voru Peter Christen Asbjørnsen, Henrik Ibsen og Bjørnstjerne Bjørnson. Á áttunda áratug 19. aldarinnar var heimili Maurers í München eins konar samkomustaður skandinavískra listamanna, rithöfunda og fræðimanna. Þeir sem vöndu komu sína til hans voru t.d. Henrik Ibsen, Marcus Grønvold, Eilif Peterssen, Christian Meyer Ross, Oscar Wergeland og Sophus Bugge.

Konrad Maurer á efri árum

breyta

Þrátt fyrir að Maurer hafi notið mikillar virðingar sem réttarsagnfræðingur og fyrirlestrar hans hafi notið mikillar hylli, þótti honum leitt að geta ekki sinnt áhugamálum sínum betur vegna kennslustarfa sinna. Þegar aldurinn færðist yfir hann varð hann þunglyndur og dró sig til baka frá opinberum vettvangi.

Árið fékk Maurer lausn frá störfum vegna lasleika og lést árið 1902 í München þar sem hann var jarðsettur í kirkjugarðinum Alter Südfriedhof (svæði 30). Ferðafélag Íslands ákvað að heiðra minningu Konrad Maurers og lét útbúa legsteina og letra á þá kveðju frá íslensku þjóðinni. Þeim var komið fyrir á gröf Konrads og Valerie Maurer árið 1998 í tilefni af 175 ára afmæli Maurers.

Hið mikla bókasafn hans sem taldi um 9000 titla var að mestu leyti selt til Harvardháskólans í Bandaríkjunum og einnig til Bar Association New York. Hluti þeirra bóka er nú aðgengilegur annars vegar í bókasafni lagadeildar Yaleháskóla[2] og hins vegar í bókasafni lagadeildar George Washington University.

Tilvísanir

breyta
  1. Konrad Maurer, Íslandsferð 1858. Ferðafélag Íslands, Reykjavík 1997. Þýðandi: Baldur Hafstað.
  2. Reports of the President and the Treasurer of Harvard College 1903-04. Cambridge, Mass.: Harvard University, 1905. (The University Publication Vol. II. No. 4), S. 214ff.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta