Bárðardalur

Dalur í Suður-Þingeyjarsýslu

Bárðardalur er dalur í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann er einhver lengsti byggði dalur á Íslandi, teygir sig um 45 kílómetra til suðurs, inn að mörkum Sprengisands og Ódáðahrauns.

Bárðardalur við Goðafoss.

Dalurinn er sagður heita eftir landnámsmanninum Bárði Heyangurs-Bjarnarsyni, sem nam þar land að sögn Landnámabókar og bjó á Lundarbrekku en líkaði ekki vistin og hélt suður á land um Bárðargötu og nam land í Fljótshverfi.

Skjálfandafljót rennur eftir endilöngum dalnum, sem er fremur mjór. Vestan hans eru fjöll, yfirleitt 600-700 metra há, sem skilja á milli hans og Fnjóskadals, en austan dalsins er Fljótsheiði, sem er lægri, einkum norðan til. Hlíðarnar eru víðast hvar nokkuð brattar en ágætlega grónar og klettalausar. Dalbotninn er nokkuð sléttur og þakinn grónu hrauni, Bárðardalshrauni, sem er talið um 9000 ára gamalt. Dalurinn er víðast hvar þurrlendur og sumstaðar er töluverður skógur í hlíðunum. Nokkrir fagrir fossar eru í fljótinu; þekktastir þeirra eru Goðafoss og Aldeyjarfoss en einnig má nefna Hrafnabjargafoss, Barnafoss og Ullarfoss.

Allmargir bæir eru í dalnum, báðum megin fljótsins, og eru þeir flestir enn í byggð. Bæirnir standa nokkuð strjált og eru bæjarleiðir víða langar en um 40 kílómetrar eru frá fremstu bæjum til þess innsta, Svartárkots, sem er í jaðri Ódáðahrauns. Innsti bærinn að vestan er Mýri og þaðan liggur vegurinn upp á Sprengisand. Um Bárðardal orti skáldkonan og förukonan Látra-Björg:

Bárðardalur er besta sveit,
þó bæja sé langt í milli.
Þegið hef eg í þessum reit
þyngsta magafylli.

Bárðardalur tilheyrði eitt sinn Ljósavatnshreppi en varð sjálfstæður hreppur, Bárðdælahreppur, árið 1907. Árið 2002 sameinuðust svo Bárðdælahreppur, Hálshreppur, Ljósavatnshreppur og Reykdælahreppur í eitt sveitarfélag, Þingeyjarsveit.