Kolbeinsstaðir eru kirkjustaður í Borgarbyggð á Vesturlandi. Þetta forna höfuðból og höfðingjasetur er austan vegar þegar ekið er norður með Eldborgarhrauni. Á Kolbeinsstöðum var í kaþólskum sið kirkja helguð guði og Maríu Guðsmóður, Pétri Postula, Magnúsi eyjajarli, heilögum Nikulási, heilögum Dómeníkusi og ölum heilögum í kaþólskum sið. Til er máldagi Kolbeinsstaðakirkju frá 1397, þar sem taldir eru upp margir góðir gripir í eigu kirkjunnar, svo og jarðir og aðrar eignir. Prestur sat þar til 1645 en nú heyrir sóknin undir Söðulsholtsprestakall. Núverandi kirkja er reist árið 1933. Hún er byggð úr steinsteypu og vígð árið 1934. Altaristafla er eftir Brynjólf Þórðarson listmálara og þar er silfurkaleikur frá 14-15 öld og forn skírnarskál úr tini frá 1732. Á Kolbeinsstöðum er einnig félagsheimili hreppsins, Lindartunga.

Á miðöldum voru Kolbeinsstaðir um langt skeið eitt helsta valdasetur landsins, þegar jörðin var í eigu og ábúð embættismannaættar sem kölluð hefur verið Kolbeinsstaðamenn. Ketill Þorláksson, lögsögumaður og prestur frá Hítardal og mágur Gissurar Þorvaldssonar, settist þar að um 1235. Sonur hans var Þorleifur hreimur Ketilsson, sem var síðasti íslenski lögsögumaðurinn, en tengdasonur Ketils var Narfi Snorrason frá Skarði, sem bjó á Kolbeinsstöðum. Synir hans, Þorlákur, Þórður og Snorri, urðu allir lögsögumenn og bjó Þorlákur á Kolbeinsstöðum. Sonur hans var Ketill Þorláksson hirðstjóri og riddari á Kolbeinsstöðum, einn helsti tignarmaður landsins á fyrri hluta 14. aldar. Kona Ketils var Una Guttormsdóttir, systir Jóns skráveifu, hirðstjóra og lögmanns, sem mun hafa dvalist hjá þeim og gaf hann kirkjunni á Kolbeinsstöðum hálfa jörð fyrir sálu sinni.

Kolbeinsstaðir héldust lengi í ættinni og má á meðal síðari eigenda nefna Erlend Erlendsson sýslumann á Hlíðarenda, föður Vigfúsar Erlendssonar lögmanns og hirðstjóra og Þorvarðar Erlendssonar lögmanns, föður Erlendar Þorvarðarsonar lögmanns, sem bjó um tíma á Kolbeinsstöðum.

Heimildir

breyta
  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, H-GK. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og menning. ISBN 9979-3-0853-2.
  • „Máldagi Kolbeinsstaðakirkju. Sunnudagsblað Tímans, 25. október 1970“.
   Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.