Julie Payette

Kanadískur geimfari og 29. landstjóri Kanada

Julie Payette (f. 20. október 1963) er kanadískur verkfræðingur og geimfari sem var landstjóri Kanada frá 2017 til 2021. Hún hefur farið í tvær ferðir til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar, árin 1999 og 2009. Árið 2017 skipaði Elísabet 2. drottning Payette í embætti landstjóra Kanada samkvæmt meðmælum Justins Trudeau forsætisráðherra landsins. Payette sagði af sér í janúar 2021 vegna ásakana um einelti á vinnustað.

Julie Payette
Landstjóri Kanada
Í embætti
2. október 2017 – 21. janúar 2021
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
ForsætisráðherraJustin Trudeau
ForveriDavid Johnston
EftirmaðurMary Simon
Persónulegar upplýsingar
Fædd20. október 1963 (1963-10-20) (61 árs)
Montréal, Québec, Kanada
ÞjóðerniKanadísk
MakiFrançois Brissette (skilin 1999)
William Flynn (skilin 2015)
Börn1
HáskóliMcGill-háskóli
Massey-háskóli
Háskólinn í Torontó
StarfGeimfari, verkfræðingur, stjórnmálamaður
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Payette ólst upp í úthverfinu Ahuntsic norðan við Montréal. Móðir hennar var endurskoðandi og faðir hennar verkfræðingur. Eftir að hafa lokið skólagöngu við Collège Regina Assumpta hlaut Payette námsstyrk frá alþjóðasamtökunum International Baccalaureate til að nema við háskólann United World College of the Atlantic í Wales.[1]

Payette nam síðar við McGill-háskóla og útskrifaðist þaðan árið 1986 með bakkalársgráðu í rafeindatækni og síðan með mastersgráðu í upplýsingatækni frá Háskólanum í Torontó árið 1990.[2] Árið 2013 lauk hún námi í viðskiptastjórnun við Laval-háskóla og tölvuöryggi við York-háskóla.[2]

Payette starfaði hjá Kanadadeild raftækjafyrirtækisins IBM frá 1986 til 1988 og gerðist síðan aðstoðarmaður á rannsóknastofu í Háskólanum í Torontó frá 1988 til 1990. Hún var gestarannsakandi við rannsóknarstofu IBM í Zürich árið 1991 og var rannsóknarverkfræðingur á fjarskiptafyrirtækinu Bell-Northern Research í Montréal árið 1992.[2]

Payette talar frönsku og ensku reiprennandi og er einnig viðræðuhæf á ítölsku, rússnesku, spænsku og þýsku.[2]

Geimfari

breyta

Í júní árið 1992 var Payette ráðin ásamt þremur öðrum til starfs hjá kanadísku geimferðastofnuninni (CSA).[2] Þar starfaði hún við verkefni tengd Alþjóðlegu geimstöðinni. Hún hlaut flugmannsréttindi og lærði rússnesku til þess að undirbúa sig fyrir geimferðina.

Eftir að hafa lokið geimfaraþjálfun hjá Johnson-geimmiðstöð NASA í Houston var Payette árið 1999 send, fyrst Kanadamanna, með geimskutlunni Discovery til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.[2] Dvöl hennar á sporbaug um jörðina varði frá 27. maí til 6. júní 1999. Payette var höfuðgeimfari kanadísku geimferðastofnunarinnar frá 2000 til 2007.[2]

Payette fór í annað skipti út í Alþjóðlegu geimstöðina árið 2009. Í þetta sinn ferðaðist hún þangað með geimskutlunni Endeavour. Í þetta sinn var hún á sporbaug frá 15. til 31. júlí árið 2009. Alls hefur Payette dvalið rúmlega 611 klukkustundir úti í geimnum.[2]

Árið 2010 var Payette meðal þeirra sem báru Ólympíufánann við opnunarathöfn vetrarólympíuleikanna í Vancouver.[2] Árið 2016 varð Payette stjórnarmeðlimur í ólympíunefnd Kanada.[1]

Payette lauk störfum hjá CSA árið 2013.

Seinni störf og landstjóraferill

breyta

Frá 2013 til 2016 starfaði Payette við Vísindamiðstöð Montréal og var varaforseti ríkisrekna fasteignafyrirtækisins Canada Lands Company.[2] Payette hefur jafnframt verið meðlimur í stjórn Þjóðbanka Kanada og í stjórn Drottningarháskólans í Kingston.[2]

Í júlí árið 2017 tilkynnti Justin Trudeau forsætisráðherra að Payette hefði verið valin sem næsti landstjóri Kanada.[3] Hún tók við af David Johnston í embættinu þann 2. október árið 2017.

Payette sagði af sér sem landstjóri þann 21. janúar árið 2021 eftir að skýrsla var birt þar sem fjöldi embættismanna sakaði hana um einelti á vinnustað.[4]

Viðurkenningar

breyta

Payette hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga á ferli sínum. Árið 2002 var hún sæmd þjóðarorðu Québec og þjóðarorðu Kanada árið 2010.[2] Árið 2001 hlaut Payette La Pléiade-orðuna frá Samtökum frönskumælandi ríkja. Hún hlaut Montréal-orðuna árið 2013 og var gerð að yfirmanni hennar árið 2016.

Árið 2010 var nafn Payette fært inn í frægðarsal kanadískra flugmanna.[2] Payette er heiðursdoktor við 27 háskóla og menntastofnanir.[5] Sem landstjóri Kanada er Payette yfirmaður og orðuveitandi kanadískra heiðursorða.[6]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 «Julie Payette», The Canadian Encyclopedia. Sótt 30. október 2019.
  2. 2,00 2,01 2,02 2,03 2,04 2,05 2,06 2,07 2,08 2,09 2,10 2,11 2,12 «Biography of Julie Payette», Canadian Space Agency. Sótt 30. október 2019.
  3. «Prime Minister Trudeau announces The Queen’s approval of Canada’s next Governor General» Geymt 23 júlí 2019 í Wayback Machine, skrifstofa forsætisráðherra Kanada, 13. júlí 2017. Sótt 30. október 2019.
  4. Aaron Wherry (21. janúar 2021). „Payette is the one resigning — but Justin Trudeau has to wear it“. CBC News. Sótt 22. janúar 2021.
  5. «Governor General Julie Payette», Landstjóri Kanada. Sótt 30. október 2019.
  6. «Insignia», Landstjóri Kanada. Sótt 30. október 2019.


Fyrirrennari:
David Johnston
Landstjóri Kanada
(2. október 201721. janúar 2021)
Eftirmaður:
Mary Simon