Gregorio Jesús Gil y Gil (12. mars 193314. maí 2004) var spænskur athafnamaður og stjórnmálamaður. Hann vakti athygli fyrir harðar hægrisinnaðar skoðanir sínar og óheflaða framkomu. Jesús Gil var lengi borgarstjóri í borginni Marbella í Andalúsíu og forseti stórliðsins Atlético Madrid.

Ævi og störf

breyta

Gil auðgaðist á sjöunda áratugnum þegar fyrirtæki hans reisti fjölda íbúðahverfa til að mæta sívaxandi húsnæðisþörf á Spáni. Árið 1969 varð stórslys þegar ein af byggingum hans, í San Rafael í úthverfi Segóvíu, hrundi og 58 manns létu lífið. Rannsókn í kjölfarið leiddi í ljós víðtækt misferli þar sem byggt hafði verið án samráðs við arkitekta eða eftirlitsmenn. Gil var dæmdur til fimm ára fangelsisvistar en var náðaður af Fransisco Franco að einu og hálfu ári liðnu.

Árið 1987 var Gil kjörinn forseti Atlético Madrid og hét þá þegar að koma félaginu á toppinn á Spáni. Í því skyni varði hann háum fjárhæðum til leikmannakaupa, en þegar það gaf litla raun greip hann oftar en ekki til þess ráðs að ráða og reka knattspyrnustjóra félagsins. Hann var stóryrtur í fjölmiðlum og kom sér ítrekað í vandræði, m.a. vegna kynþáttaníðs varðandi hollenska félagið Ajax Amsterdam. Stjórnarhættir hans hjá Atlético leiddu að lokum til dómsmálarannsóknar.

Gil nýtti sér frægðina úr fótboltanum til að hefja stjórnmálaferil árið 1991. Hann stofnaði stjórnmálaflokkinn Grupo Independiente Liberal (sem bar skammstöfunina GIL) sem boðaði harðlínu hægristefnu. Flokkurinn bauð fram til sveitarstjórnar í borginni Marbella og var Gil kjörinn borgarstjóri á grunni loforða um að taka hart á smáglæpum. Það bar árangur til skemmri tíma litið, en því fylgdu ýmis mannréttindabrot þar sem lögreglan sýndi t.d. vændiskonum og eiturlyfjaneytendum harðræði og útigangsfólki var greitt fyrir að fara á brott. Á sama tíma varð Marabella-ströndin athvarf fyrir erlenda stórglæpamenn, svo sem rússneska mafíósa.

Andstæðingum Gil þótti framganga hans lítt við hæfi borgarstjóra, þannig kallaði hann stjórnmálakonu úr röðum Sósíalistaflokksins portkonu. Hann lét koma upp brjóstmynd af fasistaleiðtoganum Franco í ráðhúsbyggingunni og var kunnur fyrir að ganga um götur borgarinnar og hrópa ókvæðisorð að vændiskonum og heimilisleysingjum. Stjórnmálaferlinum lauk þó ekki fyrr en árið 2002 þegar honum var vikið úr embætti fyrir lögbrot. Hann hlaut stuttan fangelsisdóm og var bannað að gegna opinberum embættum næstu 28 árin. Ekki reyndi á það bann því árið 2004 lést hann af völdum heilablóðfalls.

Heimildir

breyta