Spænski sósíalíski verkamannaflokkurinn

Spænski sósíalíski verkamannaflokkurinn (sp. Partido Socialista Obrero Español; skammstafað PSOE), oft kallaður Sósíalistaflokkurinn í daglegu tali, er spænskur stjórnmálaflokkur. Flokkurinn var stofnaður árið 1879 og er elsti starfandi stjórnmálaflokkur á Spáni.

Spænski sósíalíski verkamannaflokkurinn
Partido Socialista Obrero Español
Fylgi 31,7%¹
Forseti Cristina Narbona
Aðalritari Pedro Sánchez
Þingflokksformaður Adriana Lastra (neðri deild)
Ander Gil (efri deild)
Stofnár 2. maí 1879; fyrir 145 árum (1879-05-02)
Höfuðstöðvar C/ Ferraz, 70 28008, Madríd, Spáni
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Sósíalismi
Einkennislitur Rauður  
Sæti á neðri þingdeild
Sæti á efri þingdeild
Sæti á Evrópuþinginu
Vefsíða psoe.es
¹Fylgi í þingkosningum 2023

PSOE er aðili að Flokki evrópskra sósíalista og Alþjóðasambandi sósíalista.

Saga flokksins

breyta

Pablo Iglesias stofnaði flokkinn þann 2. maí árið 1879 með það í huga að tala máli og gæta hagsmuna verkalýðsstéttar Spánar. Flokkurinn var stofnaður á grundvelli sósíalisma og marxískra kenninga. Árið 1936 gekk flokkurinn í ríkisstjórn ásamt öðrum vinstriflokkum spænska lýðveldisins. Eftir að herforinginn Francisco Franco gerði tilraun til valdaráns ásamt spænskum íhaldsöflum síðar sama ár klofnaði PSOE í þrjár fylkingar: í marxískan byltingarflokk, í miðvinstrisinnaðan stjórnmálaflokk og í umbótaflokk.

Eftir að Franco og stuðningsmenn hans unnu spænsku borgarastyrjöldina og komu á einræði var spænski sósíalíski verkamannaflokkurinn bannaður. Flokknum var ekki leyft að starfa á ný fyrr en árið 1977, eftir dauða Francos og endalok einræðisstjórnarinnar. Flokkurinn vann sigur í þingkosningum árið 1982 og stofnaði ríkisstjórn þar sem aðalritari flokksins, Felipe González, varð forsætisráðherra. González var forsætisráðherra Spánar fyrir flokkinn til ársins 1996, en þá bað flokkurinn ósigur í þingkosningum fyrir Þjóðarflokknum og borgaraleg hægristjórn undir forsæti José María Aznar tók við völdum á Spáni.

Árið 2004 tókst flokknum að vinna sigur gegn Þjóðarflokknum og mynda nýja ríkisstjórn með flokksleiðtogann José Luis Rodríguez Zapatero sem forsætisráðherra. Stjórn Zapateros hélt velli eftir kosningar árið 2008 en árið 2011 hlaut Sósíalistaflokkurinn sína verstu kosningu frá tíma borgarastyrjaldarinnar og Þjóðarflokkurinn vann hreinan meirihluta á þingi.

Á öðrum áratugi 21. aldar var sósíalíski verkamannaflokkurinn lengst af stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn ásamt Borgaraflokknum og vinstriflokknum Podemos. Frá árinu 2014 hefur Pedro Sánchez verið aðalritari flokksins. Hann varð forsætisráðherra Spánar árið 2018 eftir að hafa leitt vantrauststillögu gegn stjórn Mariano Rajoy.[1] Í kosningum sem haldnar í apríl árið 2019 vann flokkurinn um 30 prósent atkvæða og varð stærsti flokkurinn á spænska þinginu.[2][3] Sánchez tókst þó ekki að mynda meirihlutastjórn og því var aftur haldið til kosninga þann 10. nóvember sama ár. Í þeim kosningum viðhélt flokkurinn svipuðu fylgi.[4]

Sósíalistar lentu í öðru sæti á eftir Þjóðarflokknum í kosningum í júlí 2023 en enginn flokkur náði meirihluta á þinginu.[5] Stjórnarkreppa ríkti næstu mánuði á Spáni en í nóvember gerði Sánchez samkomulag við flokk aðskilnaðarsinna í Katalóníu um að þeir myndu styðja áframhaldandi stjórn sósíalista. Sánchez náði fram samkomulaginu með því að lofa að veita leiðtogum katalónskra sjálfstæðissinna sem höfðu staðið að ólöglegri sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu árið 2017 sakaruppgjöf.[6]

Aðalritarar flokksins

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Pedro Sánchez, nou president del Govern espanyol“ (valensíska). À Punt. Sótt 12. nóvember 2019.
  2. „Sanchez segir framtíðina hafa sigrað“. RÚV. 28. apríl 2019. Sótt 28. apríl 2019.
  3. „Sósíalistar langstærstir á Spáni“. Fréttablaðið. 28. apríl 2019. Afrit af upprunalegu geymt þann 31. mars 2023. Sótt 28. apríl 2019.
  4. Sylvia Hall (10. nóvember 2019). „Nýjar kosningar gerðu lítið til þess að höggva á hnútinn“. Vísir. Sótt 10. nóvember 2019.
  5. Heimir Már Pétursson (24. júlí 2023). „Stjórnarkreppa að loknum kosningum á Spáni“. Vísir. Sótt 9. nóvember 2023.
  6. „Spánn: Sósíalistar sitja áfram með stuðningi aðskilnaðarsinna“. Varðberg. 9. nóvember 2023. Sótt 9. nóvember 2023.