Jóninna Sigurðardóttir

matreiðslukennari og matreiðslubókarhöfundur

Jóninna Sigurðardóttir (11. apríl 187919. september 1962) var matreiðslukennari og matreiðslubókarhöfundur sem hafði mikil áhrif á þróun íslenskrar matargerðar á fyrri hluta 20. aldar.

Jóninna var dóttir Sigurðar Jónssonar og Helgu Sigurðardóttur á Draflastöðum í Fnjóskadal og ólst þar upp. Hún fór í Kvennaskólann á Akureyri 18 ára að aldri og hélt síðan til Noregs til að nema hússtjórn og var þar í hálft ár. Þá fór hún til Danmerkur og stundaði þar hússtjórnar- og kennaranám. Hún kom heim sumarið 1903, fékk þá styrk hjá Búnaðarfélagi Íslands til að ferðast um og kenna húsmæðrum og stundaði farkennslu í matreiðslu um allt Norðurland næstu árin. Námskeið hennar nutu mikilla vinsælda og voru mörg kvenfélög stofnuð í kjölfar þeirra.

Árið 1907 hóf Jóninna matreiðslukennslu í húsnæði Gróðrarstöðvarinnar á Akureyri og rak þar nokkurs konar matreiðsluskóla í nokkur ár. Þar lagði hún meðal annars áherslu á að kenna fólki að nota heimaræktaðar matjurtir, ber og annað. Árið 1915 keypti hún hús og hóf þar greiðasölu og hótelrekstur undir nafninu Hótel Goðafoss. Hótelið rak hún fram til 1945. Jóninna hafði mikinn áhuga á að stofna húsmæðraskóla á Akureyri og beindi kröftum sínum mjög að því síðari hluta ævinnar. Skólinn tók til starfa haustið 1945 og var Jóninna fyrsti formaður skólanefndar.

Þekktust er Jóninna fyrir matreiðslubók sem hún sendi frá sér árið 1915 eftir hvatningu og með tilstyrk George H. F. Schrader, auðugs, þýskættaðs Bandaríkjamanns sem var tíður gestur á Akureyri. Bókin kallaðist Matreiðslubók fyrir fátæka og ríka og var henni mjög vel tekið, hún seldist strax upp og var endurútgefin þegar árið eftir. Jóninna bætti svo miklu við bókina fyrir næstu útgáfu, sem kom út 1927 og hét aðeins Matreiðslubók. Þar íslenskar Jóninna meðal annars nær öll hráefnisheiti, talar til dæmis um eiraldin, tröllasúru og stenglur fyrir apríkósur, rabarbara og makkarónur. Einnig var hitaeiningatafla við hverja uppskrift. Bókin var endurútgefin 1943 í stærra broti og endurprentuð 1945 en skömmu síðar kom út bókin Matur og drykkur eftir Helgu Sigurðardóttur, bróðurdóttur Jóninnu, og má segja að hún hafi ýtt Matreiðslubók Jóninnu til hliðar sem helstu matreiðslubiblíu Íslendinga.

Jóninna var sæmd riddarakrossi Fálkaorðunnar 1959. Hún lést á Akureyri 19. september 1962, tæpum mánuði á eftir Helgu bróðurdóttur sinni.

Árið 2014 samþykkti skipulagsnefnd Akureyrar, að tillögu nafnanefndar, að láta götu heita eftir henni, Jóninnuhaga, í Hagahverfi syðst í bænum þar sem nýbiggingar stóðu fyrir dyrum.


Heimildir

breyta
  • „Húsmæðraskóli Akureyrar. Alþýðublaðið, 22. ágúst 1945“.
  • „Aldarminning: Jóninna Sigurðardóttir. Dagur, 10. maí 1979“.

Tenglar

breyta