Þórður Þorkelsson Vídalín
Þórður Þorkelsson Vídalín (1661 – 14. janúar 1742) var skólameistari í Skálholti og síðan bóndi og umboðsmaður í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu og lagði stund á lækningar. Hann stundaði einnig vísindarannsóknir, var fyrsti Íslendingurinn sem gaf sig að jöklarannsóknum og skrifaði fræðirit um jökla. Þórðarhyrna (1659 m) í Vatnajökli er nefnd eftir honum.
Þórður var sonur Þorkels Arngrímssonar prests í Görðum á Álftanesi, sonar Arngríms lærða, og konu hans Margrétar Þorsteinsdóttur. Bræður hans voru Jón Vídalín Skálholtsbiskup og Arngrímur Vídalín, skólameistari í Nakskov í Danmörku. Þórður þótti geysilega góður námsmaður. Hann var í þrjú ár í Skálholtsskóla og varð stúdent sextán ára gamall. Næstu tvö árin lærði hann áfram hérlendis hjá föður sínum og hjá Oddi Eyjólfssyni presti í Holti og áður skólameistara.
Hann fór svo til Kaupmannahafnar og lauk guðfræðiprófi frá háskólanum með góðum orðstír en stundaði einnig nám í læknisfræði. Þorkell faðir hans hafði á sínum tíma orðið fyrstur Íslendinga til að nema læknisfræði við háskóla. Fyrst eftir heimkomuna var Þórður í tvö ár á Bessastöðum sem aðstoðarmaður Heidemanns fógeta en 1686 var hann fenginn til að kenna við Skálholtsskóla og varð svo skólameistari 1688.
Hann gegndi starfinu í tvö ár en sagði þá af sér, flutti austur í Lón og bjó þar embættislaus til æviloka en hafði umboð konungsjarða. Hann stundaði lækningar og ýmsar vísindarannsóknir, skrifaði lækningabók og einnig eitt elsta vísindarit sem til er í heiminum um jökla. Ritið var á latínu, skrifað 1695, kom út á þýsku 1754 en ekki þýtt á íslensku fyrr en 1965. Þórður byggði ritið einkum á rannsóknum sínum á Lambatungnajökli í Lóni.
Hann var talinn einn lærðasti og gáfaðasti maður landsins en meðal almennings hafði hann á sér galdraorð og eru til ýmsar þjóðsögur um fjökynngi hans. Þórður var drykkfelldur og talinn ógæfumaður. Hann giftist ekki en átti nokkur lausaleiksbörn og ein barnsmóðir hans, Helga Magnúsdóttir vinnukona í Lóni, fargaði barni því sem hún ól honum. Fyrir það var henni drekkt 19. júlí 1709.
Heimildir
breytaTenglar
breyta- Þórður Þorkelsson. Sagnagrunnur, skoðað 13. febrúar 2017.
- Tilberar. Af snerpu.is, skoðað 26. júní 2011.