Jóhannes Sveinsson Kjarval

íslenskur listmálari og rithöfundur (1885-1972)
(Endurbeint frá Jóhannes S. Kjarval)

Jóhannes Sveinsson Kjarval, oftast ritað Jóhannes S. Kjarval, (15. október, 188513. apríl 1972) var íslenskur listmálari og rithöfundur. Hann afþakkaði stórkross Hinnar íslensku fálkaorðu sem átti að veita honum árið 1965. Sættir náðust þó með því að orðan var varðveitt í Listasafni Íslands en Jóhannes vildi aldrei fá hana í hendur. Þetta er eina fálkaorðan sem ekki hefur þurft að skila við andlát orðuhafa.

Jóhannes Sveinsson Kjarval
Jóhannes Sveinsson Kjarval árið 1934
Fæddur
Jóhannes Sveinsson

15. október 1885
Dáinn13. apríl 1972 (86 ára)
Önnur nöfnGiovanni Efrey
StörfListmálari
Rithöfundur
MakiTove Merrild (g. 1915 s. ~1922)
BörnAase
Sveinn Kjarval
ForeldrarSveinn Ingimundarson
Karítas Þorsteinsdóttir

Afkomendur Kjarvals véfengja listaverkagjöf Kjarvals Reykjavíkurborg til handa, en Kjarvalsstaðir hýsa verk þau sem um ræðir.

Þegar Jóhannes var að verða 25 ára tók hann upp eftirnafnið Kjarval ásamt tveim bræðrum sínum. Kjarval er írskt konungsnafn.[1]

Ævisaga

breyta

Jóhannes fæddist á fátæka torfbænum Efri-Ey í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu árið 1885. Foreldrar hans voru Sveinn Ingimundarson (f. 1843) og Karítas Þorsteinsdóttir (f. 1852). Saman eignuðust þau þrettán börn og Kjarval var það níunda. Það er ekki vitað með vissu hvaða dag Jóhannes fæddist. Hann hélt sjálfur að hann ætti afmæli 7. nóvember en á fæðingarvottorðinu stendur að hann hafi fæðst 15. október. Það er hinn opinberi fæðingardagur hans.

Þegar Jóhannes var fjögurra ára gamall var hann sentur í fóstur hjá frændfólki sínu í Geitavík á Borgarfirði eystra. Þegar hann var sex ára gætti hann kindanna og síðar varð hann líka smali.[1] Sjálfur sagðist hann hafa byrjað að teikna þegar hann var átta ára gamall. Þá teiknaði hann myndir af fólki sem var á leið til Ameríku og vildi hafa þessar myndir með sér.[2]

Haustið 1902 sigldi hann frá Austfjörðum suður fyrir landið og til Keflavíkur. Þangað hefðu foreldrar hans flutt þegar þau gáfust upp á búskap á Efri-Ey. Þaðan fluttu þau öll í Framfélagshúsið sem stóð við Vesturgötu í Reykjavík. Þar gerðist hann verkamaður og næstu árin þvældist hann um og starfaði víða. Hann komst inn í skóla í Hafnarfirði og bjó á heimavist þar í tvo vetur. Hann náði ekki að ljúka prófum á vorin því þá hafði hann ráðið sig um borð í fiskibáta. Hann sinnti myndlistinni í frítíma sínum og hélt fyrstu myndlistasýningu sína árið 1908.

Námsár

breyta

Vinir Jóhannesar tókst að safna nokkru fé og þeir hjálpuðust einnig að við að taka lán til að draumur Jóhannesar um myndlistarnám gæti ræst. Í desember 1911 sigldi hann með fiskitogara til London. Jóhannes fékk aðstoð frá íslendingum sem bjuggu í borginni við að finna skóla og sækja um umgöngu. Hann komst ekki í nám í London og notaði tímann til að skoða verk annarra og teikna þau upp. Eftir þrjá mánuði í London hélt hann af stað ásamt Einari Jónssyni, vini sínum og myndhöggvara, til Kaupmannahafnar. Í Kaupmannahöfn komst Jóhannes loksins í myndlistarskóla þar sem hann fékk inngöngu í Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn í október árið 1913 og þar var hann í fjóra vetur.

Andlát

breyta
 
Legsteinn Kjarvals í Hólavallagarði.

Í janúar árið 1969 var Jóhannes lagður inn á sjúkrahús og þar var hann þangað til hann lést þann 13. apríl 1972. Þrettán dögum síðar fór jarðarförin fram.[1]


Hjónaband

breyta

Jóhannes kynntist rithöfundinum Tove Merrild í Kaupmannahöfn. Þann 17. mars 1915 giftust þau og byrjuðu að búa saman. Næstu árin eignuðust þau tvö börn saman, dótturina Aase (f. 1916) og soninn Svein (f. 1919). Árið 1920 fengu hjónin styrk til að fara til Ítalíu, Jóhannes til að kynna sér ítalska myndlist og Tove til að skrifa bók.

Árið 1922 fluttu Jóhannes og Tove til Íslands með börnin tvö. Dag einn fór Jóhannes niður á höfn til að kaupa fisk á meðan Tove beið heima með krakkana. Þegar hann kom niður á höfn hafði verið skip þar frá Borgarfirði eystra. Hann ákvað að fara um borð og fór austur í tvo mánuði án þess að láta fjölskylduna sína vita. Tove skildi við hann eftir þetta og flutti til Danmerkur með krakkana.[1]

Verðlaun

breyta

Annað

breyta

Fáni Íslands

breyta

Árið 1914 var haldin samkeppni um fána fyrir Ísland. Jóhannes sendi inn tillögur í keppnina en vann þó ekki.

2.000 kr.

breyta

Árið 1995 var 2.000 kr. seðillinn fyrst settur í umferð. Á framhlið seðilsins er mynd af Kjarval. Á bakhlið seðilsins er myndin Flugþrá eftir Kjarval og teikningu hans, „Kona og blóm“.[3][4]

Árdegisblað listamanna - Essensism

breyta

Jóhannes stofnaði Árdegisblað listamanna - Essensism árið 1925 með því markmiði að skrifa um list og hvetja aðra til dáða. Hann skrifaði auk þess margar greinar í önnur blöð um myndlist, dans, skipulagsmál og margt annað. Stundum skrifaði hann undir dulnefni. Hann notaði til dæmis Giovanni Efrey. Fyrra nafnið er ítalska útgáfan af nafninu Jóhannes en Efrey vísar í Efri-Ey, bæinn þar sem hann fæddist.

Eitt og annað um Kjarval

breyta
  • Árið 1992 tók Hannes Sigurðsson, listfræðingur, viðtal við Clement Greenberg (1909–1994) sem síðar birtist í Lesbók Morgunblaðsins. Clement var frægur bandarískur myndlistargagnrýnandi, sem fékk viðurnefnið „páfi“ sökum þess hversu óvæginn hann var í gagnrýni sinni. Hannes sýndi honum í lok viðtalsbók með verkum Kjarvals, og Greenberg leit í hana og sagði: „Hann virðist góður...vissulega er hann góður...heyrðu, þessi náungi getur virkilega málað... ég er einstaklega hrifinn af landslaginu hjá honum. Vinsælasti listamaður á Íslandi segirðu? Það kemur mér ekki á óvart“.[5]
  • Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir svo frá í dagbókum sínum árið 1970 að Eggert Stefánsson hafi sagt við Kristján Albertsson: „Hugsaðu þér hvað Kjarval var snjall að fá þessa stórkostlegu ídeu að halda Reykjavík út með því að þykjast vera geðveikur - og leikur Hamlet innan um alla idjótana - en svo kemur hann til Parísar - og geturðu ímyndað þér hvernig mér leið, þegar hann hélt áfram að leika Hamlet í París? Þá stóðst ég ekki mátið en fór á hóruhús til að fixera mig upp!“[6]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Margrét Tryggvadóttir (2019). Kjarval - Málarinn sem fór sínar eigin leiðir. Iðunn. ISBN 978-9979-1-0556-5.
  2. „Sagnir - 1. tölublað (01.04.1981) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 16. október 2023.
  3. Margrét Tryggvadóttir (2019). Kjarval - Málarinn sem fór sínar eigin leiðir. Iðunn. bls. 75. ISBN 978-9979-1-0556-5.
  4. „Seðlar í gildi“. sedlabanki.is. Seðlabanki Íslands. Sótt 15. maí 2022.
  5. Í fílabeinsturni Clements Greenbergs. Lesbók Morgunblaðsins, 7. tölublað (15.02.1992), Blaðsíða 10
  6. Af Matthias.is

Tenglar

breyta