Kvika eða bergkvika (“magma” á ensku) verður til við bráðnun bergs í möttli (basalt) og skorpu (ríólít) jarðar. Hún inniheldur blöndu af gösum, kristöllum og meira eða minna bráðnu bergi.[1]

Bráðnun bergs
Hlutbráðnun

Efnasamsetning hennar er mjög mismunandi og fer eftir myndunarstað. Algengustu tegundir innihalda 45-75% SiO2 og myndast við 700-1200 °C á 3-100 km dýpi í jörðinni. [2]

Staðsetning kvikunnar

breyta

Undir yfirborði jarðar vex hitastigið hratt með auknu dýpi. Á kyrrlátum meginlandssvæðum hækkar það um 2-4°C/100 m. Á Íslandi, sem er nær möttulstróknum hækkar hitastigið hraðar, 5-10°C/100 m utan rekbeltisins og 10-100°C/100 m á eldvirkum svæðum. Til að komast í 1000 – 1500 °C – sem er hitastig basaltkviku - , væri eiginlega nauðsynlegt að fara mjög djúpt niður. En samt er það oft ekki svo - sérstaklega ekki undir eldstöðvum -, þar getur kvikan leynst á aðeins fárra kílómetra dýpi.[3]

Hún getur staldrað við í mismunadum tegundum af geymslum: kvikuþróum, kvikuhólfum, sillum eða/og berggöngum.

Bræðslumark

breyta

Yfirleitt liggur bræðslumark þekktra bergtegunda á bilinu 800-1200°C. Þar sem þrýstingur hækkar bræðslumark efna, verður hitastigið á nokkurra kílómetra dýpi (= undir töluverðum þrýstingi) að vera miklu hærra til þess að kvika, bráðið berg, nái að myndast. En jarðskorpan og efri möttull, efstu hlutar jarðkúlunnar, eru að mestu úr föstu efni. Til þess að bræða efnið þarf háan og hækkandi hita á tilteknum stað eða færslu á heitu efni upp á við, móti lækkandi þrýstingi.[3]

Ris bergmassa

breyta

Í misheitum möttli rís efni sums staðar en sekkur annars staðar. Þrátt fyrir að mishitahreyfingarnar séu afar hægar, næga þær þó til að láta bergið berast upp í svæði þar sem það byrjar að bráðna.[3]

Hins vegar hafa steindir möttulbergs (eða skorpubergs) mismunandi bræðslumark. Þar getur ákveðið hitastig við tiltekinn þrýsting valdið bráðnun sumra steinda eða efnasambanda en ekki annarra. Sú bergtegund sem hefur lægst bræðslumark og verður fyrst kvika er basalt.[3]

Kvikugerðir

breyta

Margar kvikutegundir eru til og þær gefa af sér ólíkar gos- eða djúpbergstegundir. T.d. er talað um að kvika sé basísk, ísúr eða súr eftir innihaldi hennar af mismunandi efnum,[3] sérstaklega SiO2.[4]

Munurinn á kviku og hrauni

breyta

Þegar kvikan er að nálgast yfirborð jarðarinnar, fer hún strax að losa sig við gös (stundum þegar í kvikuhólfinu), svo að samsetning hrauns er dálitið öðruvísi en samsetning kvikunnar í iðrum jarðar. [2]

Tilvísanir

breyta
  1. http://volcanoes.usgs.gov/images/pglossary/magma.php Magma. VHP Photo glossary: Magma and magma reservoir. USGS. Skoðað: 17.11.2015
  2. 2,0 2,1 Sigurður Steinþórsson. „Hvað er hraun og hvað er kvika?“ Vísindavefurinn, 11. september 2013. Sótt 17. nóvember 2015. http://visindavefur.is/svar.php?id=63785.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Ari Trausti Guðmundsson, Ragnar Th. Sigurðsson: Íslenskur jarðfræðilykill. Reykjavík, Mál og Menning, 2004
  4. Þorleifur Einarsson: Geology of Iceland. Rocks and landscape. Reykjavík, Mál og Menning, 1994, 34

Heimildir

breyta