Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi

Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var holdsveikraspítali í Laugarnesi starfræktur á árunum 1898-1943. Húsið stóð á grunni biskupsstofu sem þar stóð áður. Yfirlæknir var Sæmundur Bjarnhéðinsson.

Holdssveikraspítalinn á mynd sem Magnús Ólafsson tók árið 1910.
Holdsveikraspítalinn árið 1937

Aðdragandi

breyta
 

Á fyrstu áratugum 20 aldarinnar var rekinn holdsveikraspítali í Laugarnesi í glæsilegu timburhúsi. Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var vígður 27. júlí 1898 og fyrstu sjúklingarnir komu á spítalann 10. október 1898. Holdsveikraspítalinn var gjöf dönsku Oddfellowreglunnar til íslensku þjóðarinnar. Hann var byggður fyrir gjafafé sem safnað var í Danmörku. Nokkru áður eða sumrin 1895 og 1896, ferðaðist hér um landið á vegum landstjórnarinnar danskur læknir dr. Edvard Ehler til að kynna sér útbreiðslu holdsveiki og meðferð sjúkra á Íslandi. Ehler skrifaði blaðagreinar og hélt erindi í Danmörku um bágborið ástand í heilbrigðismálum á Íslandi og lýsti holdsveiki sem smitsjúkdóm þar sem einangrun holdsveikra og hentug spítalavist væri áhrifamesta vörnin.

 
Laugarnesspítali var vígður 1898

Spítalinn var þá stærsta hús sem hafði verið reist á Íslandi­ og hann er stærsta timburhús sem nokkru sinni hefur risið hér á landi. Holdsveikraspítalinn var gerður fyrir 60 sjúkrarúm, en talið er að um aldamótin 1900 hafi um 237 verið holdsveikir á Íslandi. Þegar holdsveikum fækkaði var hluti byggingarinnar tekinn til annarra nota. Spítalabyggingin brann til grunna 7. apríl 1943. Hernámsliðið hafði þá yfirtekið spítalann. Þeir fáu holdsveikisjúklingar sem enn voru á landinu höfðu nokkru áður verið fluttir á Kópavogshæli.

Upphaf hjúkrunarnáms

breyta

Holdsveikraspítalinn markar upphaf spítalabygginga á Íslandi og þangað má líka rekja upphaf hjúkrunarnáms. Gjöf Oddfellowreglunnar fylgdi sú krafa, að hjúkrun á spítalanum yrði undir stjórn fulllærðrar hjúkrunarkonu en engar hjúkrunarkonur voru þá til á Íslandi. Þess vegna voru fyrstu yfirhjúkrunarkonur Holdsveikraspítalans danskar og þær fluttu til landsins erlendan spítalaaga, sem var Íslendingum framandi. Strax haustið 1898 voru ráðnar stúlkur að spítalanum til aðstoðar við hjúkrunina, og þannig hófst skipulegt hjúkrunarnám á Íslandi, því síðar fóru þessar stúlkur til Danmerkur og luku hjúkrunarnámi þar.

Christophine Bjarnhéðinsson lauk hjúkrunarnámi í Danmörku árið 1897 en sigldi til Íslands í júlímánuði 1898 og varð fyrsta yfirhjúkrunarkona Holdsveikraspítalans. Hún hafði aldrei séð holdsveika manneskju þegar hún hóf störf.

Christophine gegndi stöðu yfirhjúkrunarkonu þar til hún gekk að eiga Sæmund Bjarnhéðinson prófessor og yfirlækni spítalans árið 1902. Frumburður þeirra hjóna, Kolfinna, fæddist svo sumarið 1903 (Margrét Guðmundsdóttir, 2010).

Fröken Harriet Kjær tók við stöðu yfirhjúkrunarkonu í Laugarnesi af frú Bjarnhéðinsson. Petrus Beyer yfirmaður Oddfellowreglunnar í Danmörku réð Kjær til starfa. Hún lauk hjúkrunarnámi árið 1890 og hafði unnið við hjúkrun í 13 ár. Læknisfrúin hefur eflaust létt þessum samlanda sínum fyrstu sporin hér á landi og komið henni í kynni við mágkonu sína, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, ristjóra Kvennablaðsins. Þau kynni urðu til þess að Kjær hóf skrif um hjúkrun á árunum 1903-4.

Heimildir

breyta
  • „Hundrað ár frá vígslu Holdsveikraspítalans í Laugarnesi - Fréttabréf HÍ 1998“. Sótt 13.febrúar 2006.
  • „Gjöf danskra Oddfellowa – Laugarnesspítali“. Sótt 13.febrúar 2006.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Leprosy“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. febrúar 2006.
  • Margrét Guðmundsdóttir. 2010. Saga hjúkrunar á Íslandi á 20. öld. Bls. 1-6. Reykjavík: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.
  • Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi, Læknablaðið, 3. tölublað (01.03.2014), Blaðsíða 3

Tenglar

breyta