Hjálp:Námskeið/Nokkur mikilvæg atriði
Inngangur | Breytingar | Textavinnsla | Tenglar | Heimildaskráning | Spjallsíður | Nokkur mikilvæg atriði | Skráning | Lokaorð |
Það eru nokkur mikilvæg atriði sem gott er að hafa í huga þegar unnið er í Wikipediu.
Meginreglurnar um efnistök
breytaHlutleysi
breytaReglan um hlutlaust sjónarhorn er ein af fimm máttarstólpum Wikipediu og er á meðal stofnlögmála hennar. Samkvæmt reglunni ætti umfjöllun á Wikipediu að viðurkenna allar markverðar skoðanir á tilteknu málefni. Í staðinn fyrir að lýsa því aðeins frá einu sjónarhorni ætti grein á Wikipediu að fjalla um allar viðteknar skoðanir á málinu án fordóma. Markmið okkar er að vera upplýsandi frekar en sannfærandi um eina skoðun umfram aðra. Reglan þýðir ekki að greinar okkar þurfi að vera 100% hlutlægar þar sem að í flestum deilumálum er það svo að allir deiluaðilar telja sig hafa rétt fyrir sér.
Hlutleysisreglan þýðir ekki að allar skoðanir séu jafngildar eða verðskuldi jafn mikið pláss í umfjöllun greina Wikipediu. Innbyrðis hlutföll umfjöllunar um ólíkar skoðanir ættu að taka mið af vægi þeirra í áreiðanlegum heimildum. Þegar umfjöllunarefnið er umdeild jaðarskoðun á borð við helfararafneitun eða efasemdir um gagnsemi bólusetninga þá ætti að koma skýrt fram í umfjölluninni hver skoðun meginþorra sérfræðinga er og jafnframt ætti að lýsa jaðarskoðunum sem slíkum.
Það er í lagi að lýsa skoðunum í greinum, svo lengi sem þær eru kynntar þannig en ekki sem staðreyndir. Sömuleiðis þarf að koma fram hver hefur lýst umræddri skoðun og vísa þar vandlega til heimilda.
Vandamál tengd hlutleysisreglunni eru nokkuð algeng á Wikipediu þar sem hinir ýmsu aðilar geta haft hagsmuni af því að breyta umfjöllun um sig og hagsmunamál sín. Slík vandamál geta verið augljós í tilfelli auglýsingaskrums eða pólitískrar einræðu en málið gæti líka verið lúmskara og falist í ójafnvægi í umfjölluninni þar sem fjallað er um minni háttar atriði í löngu máli. Jafnvel þó að umfjöllunin sem slík sé hlutlaus þá getur slíkt ójafnvægi talist stríða gegn hlutleysisreglunni.
Ef þú ætlar að einbeita þér að breytingum á umdeildum umfjöllunarefnum á borð við stjórnmál og trúarbrögð þá ættir þú að kynna þér hlutleysisregluna í þaula. Þú ættir líka að vera við því búin(n) að upp geti komið deilur við aðra notendur um áherslur. Þá er mikilvægt að halda stillingu og taka ágreininginn ekki inn á sig.
Sannreynanleiki
breytaÁ Wikipediu er þess krafist að öll umfjöllun sé sannreynanleg sem þýðir að þú þarft að gæta að því að skrifa aðeins það sem hægt er að sannreyna í áreiðanlegum heimildum. Ef engar áreiðanlegar heimildir finnast um upplýsingarnar þá ættir þú ekki að setja þær inn, jafnvel þó að þú vitir að þær séu „sannar“. Þú ættir að setja inn vísanir til heimilda við allar fullyrðingar sem gætu reynst umdeildar; annars getur hver sem er fjarlægt þær. Best er að setja heimildir inn um leið og þú skrifar greinina með því að nota tilvísanir og neðanmálsgreinar eins og farið var yfir fyrr í þessu námskeiði. Vandaðar tilvísanir til heimilda auðvelda lesendum að sannreyna efni greina og auka trúverðugleika Wikipediu í heild.
Sumar staðreyndir teljast til almennrar vitneskju sem ekki þarf að rökstyðja með heimildum. „París er höfuðborg Frakklands“ er dæmi um slíka staðhæfingu. Mögulegt væri að vísa í tugi heimilda til þess að sannreyna að þetta er rétt.
Áhugaverðar vefsíður sem varða umfjöllunarefni greinar ætti að skrá í kaflann „Tenglar“ neðst í greininni. Áhugaverðar bækur og annað efni varðandi umfjöllunarefni greina sem ekki voru notaðar sem heimildir ætti að skrá í kaflann „Frekari fróðleikur“.
Engar frumrannsóknir
breytaWikipedia er ekki rétti staðurinn fyrir frumrannsóknir — það er að segja, staðreyndir, fullyrðingar eða hugmyndir, sem ekki er hægt að finna í áreiðanlegum, útgefnum heimildum. Undir frumrannsóknir falla líka sjálfstæðar ályktanir út frá heimildum. Það verður að vera samhljómur á milli þess sem heimildin segir í sínu samhengi og umfjöllunarinnar sem reiðir sig á heimildina. Það þýðir til dæmis ekki að safna saman heimildum um einstaka sérfræðinga um X sem halda fram Y og draga þá ályktun af því að flestir sérfræðingar um X haldi fram Y. Það þarf að koma fram í sjálfstæðri og áreiðanlegri heimild ef fullyrða á slíkt í greininni.
Einfaldir útreikningar, þýðingar úr öðrum tungumálum og eftirritun mælts máls úr útgefnum mynd- og hljóðupptökum teljast yfirleitt ekki til frumrannsókna.
Önnur efnisviðmið
breytaUmfjöllunarefni
breytaWikipedia er breytanlegt alfræðirit — þess vegna ættu greinar hennar að einskorðast við markverðug viðfangsefni. Viðmið Wikipediu um það hvað telst markvert í þessum skilningi eru ekki klippt og skorin og þau eru í sífelldri þróun en það er óhætt að slá því föstu að það eigi ekki að vera greinar á Wikipediu um hvern einasta mann í heiminum, eða um hvert einasta fyrirtæki sem selur eitthvað eða um hverja götu í hverjum smábæ sem til er. Það eru hins vegar rekin systurverkefni á vegum Wikimedia Foundation sem safna vissum upplýsingum sem ekki eiga heima í alfræðiriti.
Greinar í alfræðiriti eru um viðfangsefni fremur en um orðið yfir viðfangsefni þannig að grein sem gerir ekki annað en að skilgreina og útskýra notkun orðs eða orðasambands — líkt og finna má í hefðbundnum orðabókum — ætti frekar erindi við Wiktionary en Wikipediu.
Frumtextar sem ekki eru háðir takmörkunum höfundaréttar eiga heima í vörslum Wikisource.
Þú getur séð tæmandi lista yfir öll Wikimedia-verkefni hér.
Vinsamlegast forðastu að skrifa grein um sjálfan þig eða verk þín þar sem í því felst augljós hagsmunaárekstur. Ef þú ert markverð persóna í skilningi Wikipediu þá verður eflaust skrifuð grein um þig á endanum.
Höfundaréttur
breytaEkki setja inn höfundaréttarvarið efni á Wikipediu án leyfis rétthafa. Notaðu þitt eigið orðalag þegar þú bætir við efni greina. Gakktu út frá því að allt sem þú finnur á vefnum sé varið höfundarétti nema annað sé sérstaklega tekið fram.
Framkoma
breytaSamfélag notenda á Wikipediu er vingjarnlegt og opið. Það koma auðvitað upp ágreiningsmál og stöku sinnum jafnvel harðvítugar deilur en það er ætlast til þess að notendur sýni kurteisi í samskiptum sínum.
Mikilvægast er að ganga ávallt út frá því að ásetningur annarra notenda sé góður þangað til annað kemur í ljós. Ekki ganga út frá því að aðgerðir og hegðun annnars notanda séu af illvilja í þinn garð eða í þeim tilgangi að valda alfræðiritinu skaða. Þegar einhver gerir eitthvað sem þér mislíkar þá ætti þitt fyrsta skref að vera að spyrja notandann kurteisislega út í málið. Mögulega er misskilningur á ferðinni og hægt að leysa málið áður en einhver segir eða gerir eitthvað vanhugsað sem verður ekki tekið til baka.
Að færa eða endurnefna síðu
breytaEf þú skyldir finna grein eða aðra síðu sem þú telur að bera ætti annað nafn — eða ef þú hefur sjálf(ur) stofnað síðu og gert villu í titlinum — þá þarftu að fara rétt að því að færa síðuna yfir á rétt heiti. Ekki stofna nýja síðu undir réttu heiti og afrita innihaldið þangað. Ef þú gerir það þá tapast breytingasagan og uppruni textans verður óljós. Þú þarft að nota innbyggðan möguleika vefsins á því að færa greinina sem er eingöngu í boði ef þú ert skráður notandi. Ef þú ert að færa síðu í fyrsta skiptið þá þarftu að vera viss um að þú skiljir hvað felst í því og hvað valmöguleikarnir sem þér eru gefnir merkja. Ef um aðgreiningarsíðu er að ræða þá ættir þú að lesa umfjöllun um þær á: Wikipedia:Aðgreiningarsíður.