Wikipedia:Framkoma á Wikipediu

Þessi síða fjallar um nokkur atriði er varða framkomu á Wikipediu eða „Wikiquette“ — þ.e. nokkrar ábendingar um hvernig er best að vinna með öðrum á Wikipediu.

Þeir sem skrifa og leggja af mörkum til Wikipediu hafa ólíkan bakgrunn. Við höfum ólík viðhorf og sjónarhorn og stundum munar miklu. Það er lykilatriði í árangursríku samstarfi við að skrifa alfræðirit að koma fram við aðra af virðingu.

Nokkur atriði um framkomu á Wikipediu

breyta
  • Gerðu ráð fyrir að fólki gangi gott eitt til. Hingað til hefur Wikipedia verkefnið gengið furðu vel með nær algeru ritstjórnarfrelsi höfunda. Fólk kemur á Wikipediu til að starfa saman og skrifa góðar greinar.
  • Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
  • Gjörið svo vel að vera kurteis!
    • Hafið í huga að ritaður texti getur verið margræður og virðist oft beinskeyttari, jafnvel dónalegri, en ef manneskja segði sömu orðin við okkur. Kaldhæðni er ekki alltaf augljós – texti er án andlitssvips, ítónunar og annars látbragðs. Gættu vel að orðavali þínu — það sem þú ætlaðir að segja er ekki alltaf það sem aðrir lesa úr texta þínum og það sem þú lest úr texta annarra er ekki endilega það sem þeir ætluðu að segja.
  • Skráðu þig og skrifaðu undir innlegg þitt á spjallsíðum (en ekki skrifa undir greinar!) nema þú hafir góða ástæðu til að gera það ekki.
  • Reyndu að ná samkomulagi.
  • Láttu rök þín snúast um staðreyndir, ekki persónur.
  • Ekki hunsa spurningar.
    • Ef aðrir eru ósammála þér um breytingar, útskýrðu þá ástæður þess að þú telur þær vera við hæfi.
  • Ef þú átt ekki svar við rökum annarra, játaðu þig þá sigraðan; eða játaðu að þú sért ósammála á grundvelli innsæis eða smekks eigi það við.
  • Hagaðu þér sómasamlega.
  • Þótt það sé skiljanlega erfitt í heitum umræðum skaltu gæta þess að ef viðmælandi þinn er ekki eins kurteis og þú myndir helst kjósa, þá verðir þú eigi að síður kurteisari.
    • Hikaðu þó ekki við að láta viðmælanda þinn vita á hlutlausan hátt að þér sé ekki vel við tóninn í máli hans, ef hann gerist dónalegur.
  • Vertu viðbúinn því að biðjast afsökunar.
    • í heitum umræðum segjum við oft hluti sem við sjáum eftir seinna. Segðu það ef svo er.
  • Fyrirgefum og gleymum.
  • Viðurkenndu hvar þú ert hlutdrægur og reyndu að láta hlutdrægni þína ekki koma fram í greinum.
  • Lofaðu aðra þegar þeir verðskulda lof. Öllum þykir gaman að vera vel metnir, einkum í aðstæðum sem krefjast oft málamiðlunar. Skrifaðu eitthvað skemmtilegt á spjallsíður annarra notenda.
  • Hjálpaðu öðrum að miðla málum.
  • Ef þú átt í deilum, taktu þér hlé; ef þú ert að miðla málum í deilum annarra, leggðu þá til að þeir taki sér hlé.
    • Taktu því rólega. Ef þú ert reiður, taktu þér þá tíma til að jafna þig í stað þess að skrifa eða gera breytingar. Komdu aftur eftir einn dag eða viku. Ef til vill hefur einhver annar gert breytingar eða athugasemdir eins og þú vildir. Ef enginn er til þess að miðla málum og þú telur að þörf sé á málamiðlun, leitaðu þá til einhvers.
    • Láttu kyrrt liggja eða finndu þér aðra grein á Wikipediu til að dreifa huganum — það eru 59.498 greinar á íslensku útgáfu Wikipediu! Beindu athygli þinni að öðrum þörfum verkefnum, svo sem síðum sem þarfnast athygli og stubbum.
  • Mundu hvað Wikipedia er ekki.
  • Forðastu að taka aftur breytingar og eyða greinum eftir fremsta megni og haltu þig við reglur Wikipediu um hvenær skal taka aftur breytingar nema þegar um skemmdarverk er að ræða. Útskýrðu hvers vegna þú tekur aftur breytingar í breytinga boxinu.
  • Mundu að þetta er fólk sem þú ert að eiga við, einstaklingar með tilfinningar sem eiga sennilega aðra að sem elska þá. Reyndu að leyfa þeim að halda virðingu sinni.

Að forðast dónaskap á spjallsíðum

breyta
  • Flestir eru stoltir af framlagi sínu og af skoðunum sínum. Þegar breytingar eru gerðar getur stolt manns auðveldlega særst en spjallsíður eru ekki staðurinn til að snúa vörn í sókn eða hefna sín. Þær eru hins vegar ágætur staður til að hugga aðra eða til að lina sársauka þeirra en umfram allt eru þær til þess að hægt sé að ná samkomulagi um breytingar sem eru greinunum fyrir bestu. Sé einhver ósammála þér, reyndu þá að skilja hvers vegna og gefðu þér tíma til að útskýra á spjallsíðunum hvers vegna þú telur að þín leið sé betri.
  • Ekki vera með persónuárásir og ekki ráðast á breytingar sem aðrir hafa gert.
    • Notkun orða eins og „rasismi“, „karlremba“, „kvenremba“ eða „illa skrifað“ setur fólk í varnarstöðu. Þá er erfitt að ræða á árangursríkan hátt um innihald greinanna. Ef þú þarft að gagnrýna, þá verður þú að gera það á kurteisan og uppbyggilegan hátt.

Nokkur atriði sem hafa ber í huga

breyta
  • Greinar á Wikipediu eiga að fjalla um allar hliðar málsins (sjá nánar um þetta á Wikipedia:Hlutleysisreglan), en ekki draga taum eins sjónarmiðs fremur en annars. Spjallsíðurnar eru ekki staðurinn til þess að deila um gildisdóma, um hvaða sjónarmið er rétt og hvaða sjónarmið er rangt. Notaðu spjallsíðurnar til þess að ræða um framsetningu staðreynda, hlutdrægni eða aðra hnjóði greinarinnar.
  • Ef einhver er ósammála þér, þá þýðir það ekki að: (1) viðkomandi hati þig, (2) viðkomandi haldi þig heimskan, (3) viðkomandi sé heimskur, (4) viðkomandi sé illur, o.s.frv. Þegar aðrir viðra skoðanir sínar um hvernig væri best að breyta grein, þá er best að vega og meta þær tillögur. Þín skoðun er ekki endilega rétt eða röng.
  • Reyndu að forðast það að eyða efni. Þegar þú gerir breytingar er ótrúlegt hversu gagnlegt það sem þegar hefur verið skrifað getur reynst. Flestir hafa eitthvað gagnlegt að segja. Þú líka. Eyðingar koma fólki í uppnám og því finnst sem það hafi sóað tíma sínum.
  • Vertu djarfur í breytingum. Áður en þú hefur umræður, spurðu sjálfan þig hvort þeirra sé raunverulega þörf: Þarf að ræða þetta? Gæti ég útskýrt breytingar mínar í breytingaboxinu og beðið eftir að aðrir hefji umræðu um þær?
    • Þú getur alltaf hafið umræðu á notandasíðu þinni ef hún er ekki bráðnauðsynleg fyrir greinina.
  • Ef þú veist að þér semur illa við einhvern, reyndu þá að eiga ekki meiri samskipti við viðkomandi en nauðsynlegt er. Ónauðsynlegar deilur koma öllum í uppnám; það er ógaman að horfa upp á aðra munnhöggvast. Að elta einhvern sem þér mislíkar á Wikipedia getur talist áreitni og einelti og er ekki vel séð. Reyndu að vingast en ef það ber engan árangur, reyndu þá að forðast viðkomandi.

Önnur góð ráð

breyta
  • Verið opin og takið vel á móti öðrum; ekki vera eyland.
  • Einbeittu þér að því að leggja af mörkum til alfræðirits, ekki umræðuvefs.
  • Lofaðu besta framlagið, sem er ítarlegast, byggt á staðreyndum, vel upplýst og stutt góðum heimildum.
  • Leggðu þig fram um að skilja hvers hlutleysi krefst í hverju tilviki fyrir sig og hvers vegna það er svo mikilvægt fyrir Wikipediu.
  • Komdu fram við náungann af virðingu og trúðu að honum gangi gott eitt til.
  • Reyndu að laða að gott fólk sem býr yfir miklum fróðleik og er vel skrifandi.
  • Láttu ekki þursa og skemmdarvarga vaða uppi. (Hafðu samt í huga að ekki allir sem eru ósammála þér eru þursar eða skemmdarvargar.)


Wikipedia samfélagið
 
Potturinn | Samfélagsgátt | Gátlistinn | Handbókin
Reglur: Hlutleysisreglan | Sannreynanleikareglan | Engar frumrannsóknir |

Æviágrip lifandi fólks | Máttarstólpar Wikipedia | Markvert efni

Önnur stefnumál: Nafnavenjur | Flokkakerfið | Viðhald | Deilumál | Framkoma á Wikipediu
Notendur: Möppudýr | Vélmenni | Hver erum við? | Notendur eftir breytingafjölda | Notendakassar
Annað: Samvinna mánaðarins | Tillögur að úrvalsgreinum | Tillögur að gæðagreinum | Merkisáfangar | Hugtakaskrá