Hjálp:Áreiðanlegar heimildir

Þessi síða fjallar um áreiðanlegar heimildir. Heimildaskráning er mikilvæg fyrir Wikipediu, til að auka trúverðugleika ritsins. Allt efni á Wikipediu verður að vera sannreynanlegt og má ekki fela í sér frumrannsóknir. Notkun heimilda hjálpar til við að tryggja að svo sé. Greinar á Wikipediu ættu enn fremur að minnast á öll mikilvæg sjónarmið, þar með talin minnihlutasjónarmið, sem birst hafa í traustum heimildum. Sjá Wikipedia:Hlutleysisreglan.

En það eru ekki allar heimildir jafn traustar. Greinar á Wikipediu ættu að styðjast við viðurkenndar og traustar, óháðar heimildir. Traustar heimildir eru þær sem gefnar eru út með traustsverðu útgáfuferli, svo sem ritrýni, og höfundar þeirra njóta einhvers konar viðurkenningar á því sviði sem um ræðir (gegna til dæmis prófessorsstöðu o.s.frv.). Heimildir ættu að styðja fullyrðingar í greinum Wikipediu. Ef engar heimildir eru um eitthvert efni, þá ætti Wikipedia ekki að hafa grein um það.

Yfirlit breyta

Greinar ættu að styðjast við áreiðanlegar, óháðar, útgefnar heimildir sem njóta einhvers konar viðurkenningar. Óáreiðanlegar heimildir eru meðal annars heimildir sem höfundur gefur út á eigin vegum, bloggsíður (oftast nær) og hvers kyns vefsíður sem óljóst er hver heldur uppi.

Vert er að geta þess að Wikipedia er ekki óháð heimild. Þess vegna er ekki hægt að styðja fullyrðingu í einni grein á Wikipediu með tilvísun í aðra grein á Wikipediu, hvort sem það er grein á íslensku eða öðru tungumáli. Síðarnefnda Wikipediu-greinin, sem á að styðja þá fyrrnefndu, er engu traustari en sú fyrri ef ekki er vísað í óháðar heimildir í henni. En ef það er vísað í heimildir í síðarnefndu greininni, þá er einnig hægt að vísa í þær sömu heimildir í fyrrnefndu greininni svo að notkun einnar greinar á Wikipediu til þess aðstyðja fullyrðingar í annarri grein á Wikipediu er hvort tveggja í senn ófullnægjandi og ónauðsynlegt.

Fræðilegar heimildir breyta

Margar greinar á Wikipediu fjalla um fræðilegt efni og styðjast við fræðilegar heimildir. Venjulega eru fræðilegar heimildir og ritrýndar heimildir áreiðanlegustu heimildir sem völ er á. Stundum getur það þó gerst að fræðileg heimild verður umdeild eða jafnvel úrelt þegar rannsóknum fleygir fram. Valið á viðeigandi heimildum veltur á samhenginu.

 • Þegar um fræðilegt efni er að ræða ætti heimildin einnig að vera fræðilegs eðlis. Blaðagreinar eru til að mynda ekki fræðileg umfjöllun og eru sjaldan fullnægjandi heimild í þessu samhengi. Ef greinin fjallar til dæmis um fornleifafræði, erfðafræði eða mannfræði ætti heimildin líka að vera fræðileg umfjöllun um fornleifafræði, erfðafræði eða mannfræði eftir því sem við á, en ekki blaðagrein í dagblaði, bloggfærsla o.s.frv.
 • Þegar upplýsingar hafa hlotið samþykki innan fræðasamfélags teljast þær áreiðanlegar; samkomulagið þarf þó ekki að vera einróma, það nægir að víðtæk sátt sé um sjónarmiðið innan fræðasamfélagsins.
 • Grein telst sjaldan áreiðanleg ef nafn höfundar er ekki birt.
 • Ganga má úr skugga um að heimild sé viðurkennd innan fræðasamfélags með því að athuga hversu oft er vísað í hana í tilvísanaskrám.
 • Einstaka rannsóknir eða kannanir eru venjulega ekki taldar fulláreiðanlegar enda getur margt breyst með frekari rannsóknum. Áreiðanleiki einnar könnunar veltur stundum á fræðigreininni. Varast ber að láta eina könnun eða rannsókn vega of þungt í umfjöllun um efnið. Stundum veita góðar og ítarlegar kennslubækur (t.d. ætlaðar háskólanemum) betri yfirsýn og setja hlutina í samhengi. Aftur á móti eru kennslubækur ætlaðar grunnskólum sjaldan nægilega traustverðar heimildir um fræðilegt efni.

Fréttamiðlar breyta

Ágætt getur verið að nota fréttamiðla sem heimildir, einkum ef fréttamiðillinn sem um ræðir hefur gott orð á sér. Dæmi um slíka miðla eru The Washington Post, The New York Times og The Associated Press. Aðrir miðlar hafa orð á sér fyrir að vera óáreiðanlegir og þá ber að forðast. Nokkur varnaðarorð:

 • Fréttir eru ekki það sama og álitsgreinar. Álitsgreinar í dagblöðum og fréttamiðlum eru einungis áreiðanlegar heimildir um skoðanir höfundarins en ekki um meintar staðreyndir í þeim; þegar stuðst er við slíka heimild ætti að geta þess í meginmálinu. Þegar fjallað er um lifandi fólk ætti einungis að styðjast við slíkar greinar úr allra bestu fréttamiðlum.
 • Enda þótt sögusagnir geti stundum haft fréttagildi er Wikipedia engu að síður ekki fréttamiðill heldur alfræðirit. Greinar á Wikipediu ættu einungis að innihalda fullyrðingar sem hafa verið staðfestar í áreiðanlegum heimildum. Wikipedia er ekki staðurinn til að birta sögusagnir og slúður.
 • Þegar kemur að fræðilegu efni, eins og eðlisfræði eða fornaldarsögu ætti ekki að styðjast við fréttamiðla sem heimildir heldur fræðilegar heimildir. Fréttamiðlar geta átt það til að ofureinfalda eða gefa skekkta mynd af fræðilegu viðfangsefni. Til dæmis gleymist oft í fréttum af fræðilegu efni að taka fram hver aðferðafræðin var sem stuðst var við.

Efni gefið út á eigin vegum breyta

Nota má efni sem gefið er út á eigin vegum höfundarins í sumum tilvikum en þó ber að hafa varann á. Hafa ber í huga að ef upplýsingarnar eru þess virði að á þær sé minnst, þá er að öllum líkindum minnst á þær í einhverri áreiðanlegri og óháðri heimild.

Landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum breyta

Gagnasöfn Tímaritasöfn
Britannica Online EBSCOhost
Greinasafn Morgunblaðsins* ProQuest 5000 International
Grove Art Wiley (Blackwell Synergy)
Grove Music Elsevier
Web of Science ScienceDirect
  Karger Online
  Sage Premier
* - með 3ja ára birtingartöf SpringerLink

Frá því á árinu 1999 hafa allir þeir sem eru nettengdir á Íslandi haft svokallaðan landsaðgang að völdum rafrænum gagnasöfnum og tímaritum. Í Landsaðgangi eru heildartextar um 21.000 tímarita og um 10.000 tímarit með útdráttum greina[1] en einnig má finna rafbækur frá Springer í Landsaðgangi.[2] Talsverð skörun er á titlum í EBSCOhost, ProQuest og öðrum söfnum.[3] Mörg þessara tímarita eru leiðandi fagtímarit á sínu sviði og þar af leiðandi ákjósanlegar sem heimildir. Hægt er að leita í tímaritalista á vef Landsaðgangsins - hvar.is, að ákveðnum tímaritum. Sem dæmi má nefna að hægt er að nálgast blöð bandaríska dagblaðsins The New York Times frá 1. júní 1980 og til dagsins í dag á vef ProQuest og þar er einnig hægt að binda leit við það blað. Svo annað dæmi sé tekið eru tölublöð Chemical Engineering, fagtímarits í efnaverkfræði, aðgengileg frá 1987. Þriðja dæmið, valið af handahófi, gæti verið tímaritið Journal of Popular Music Studies, sem er aðgengilegt frá árinu 1988.

Af innlendum vettvangi má benda á vefinn Tímarit.is - stafrænt bókasafn Landsbókasafns Íslands. Á honum má finna ljósmynduð afrit af yfir 4,5 milljónum blaðsíðna af blöðum og tímaritum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Meðal þess efni sem þar má finna eru blöð eins og Morgunblaðið (og Lesbók Morgunblaðsins), Ísafold, Alþýðublaðið, Tíminn og Þjóðviljinn. Tímarit eins og Frjáls verslun, Náttúrufræðingurinn og Vísbending er þar einnig að finna.

Loks má benda á vef Skemmunar en þar er að finna safn lokaritgerða nemenda við háskóla landsins sem mörg hver eru opin almenningi. Þar er einnig að finna rannsóknir starfsmanna háskólanna, sem dæmi hefur Þjóðarspegill Félagsvísindastofnunar verið settur inn á Skemmuna. Þjóðarspegillinn er árleg ráðstefna á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem „er ætlað að kynna og miðla því sem efst er á baugi í rannsóknum í félagsvísindum á Íslandi ár hvert.“[4] Enn má nefna íslensk fræði- og fagrit sem eru ókeypis á netinu:

Heiti Svið
Stjórnmál og stjórnsýsla Vefrit Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála
Bókasafnið Blað Upplýsingar: Félags bókasafns- og upplýsingafræða
Mánaðarblaðið Faxi Staðbundið blað Málfundafélagsins Faxa í Keflavík (64.-73. árgangar)
Læknablaðið Blað Læknafélags Íslands
SFR-blaðið Blað SFR - Stéttarfélags í almannaþjónustu
Fréttabréf ASÍ Fréttabréf ASÍ
Stefnir Rit SUS
Scandinavian Political Studies Skandinavískt fræðirit um stjórnmál (birtar greinar 1966-2000)
Íslenska þjóðfélagið Tímarit félagsfræðinga
ScieCom info Nordic-Baltic Forum for Scientific Communication
Vefnir Vefrit Félags um átjándu aldar fræði.

Tilvísanir breyta

 1. Hvar.is. „Um landsaðgang“. Sótt 7. apríl 2014.
 2. Hvar.is. „Rafbækur“. Sótt 7. apríl 2014.
 3. Ársskýrsla Landsaðgangs 2009
 4. Þjóðarspegill 2010 | Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands

Tengt efni breyta

Tenglar breyta