Hernán Cortés

(Endurbeint frá Hernan Cortés)

Hernán(do) Cortés (14852. desember 1547) var spænskur landvinningamaður sem lagði Mexíkó undir Spán.[1] Hann ákvað ungur að reyna fyrir sér í Nýja heiminum og kom þangað fyrst árið 1506. Hann tók þátt í að leggja Kúbu og Hispaníólu undir Spán og hlaut að launum fyrir það stóra landareign, þræla og aðalstign sem markgreifi af Oaxaca-dalnum.

Hernán Cortés
Landstjóri Nýja Spánar
Í embætti
13. ágúst 1521 – 24. desember 1521
Í embætti
30. desember 1521 – 12. október 1524
Persónulegar upplýsingar
Fæddur1485
Medellín (Extremadúra), Kastilíu
Látinn2. desember 1547 Castilleja de la Cuesta, Kastilíu
ÞjóðerniKastilískur (spænskur)
MakiCatalina Suárez
Juana de Zúñiga
BörnDon Martín Cortés
Doña María Cortés
Doña Catalína Cortés
Doña Juana Cortės
Martín Cortés
Leonor Cortés Moctezuma
StarfLandvinningamaður
Undirskrift

Ferðir Francisco Hernández de Córdoba og Juan de Grijalva til Júkatanskaga sannfærðu Cortés um að þar væri gnægð gulls að hafa, svo hann seldi eignir sínar fyrir skip og vistir til að leggja í leiðangur til meginlandsins. 1519 lagði hann upp frá Kúbu í óþökk landstjórans Diego Velázquez de Cuéllar með ellefu skip, 500 menn og fimmtán hesta. Þegar hann kom til Júkatan stofnaði hann staðinn Veracruz og lýsti landið eign Karls 1. Spánarkonungs. Brátt komu til hans sendimenn frá Montesúma II, keisara Asteka í borginni Tenochtitlán, með gjafir og gull sem þeir vonuðu að myndi halda Spánverjunum burtu, en hafði þveröfug áhrif.[2]

Cortés ákvað að reyna að byggja upp veldi í Mexíkó, í stað þess að ræna því sem hann gat og snúa aftur til Kúbu. Hann lét því sökkva öllum skipum leiðangursins, nema einum bát sem átti að halda uppi samskiptum við Spán, og hélt með menn sína inn í landið. Hópurinn kom til hinnar fljótandi borgar Asteka 8. nóvember 1519 og Montesúma bauð þá velkomna. En Cortés gerði kröfur um meira gull, og að musterum Asteka yrði breytt í helgidóma heilagrar Maríu. Hann tók Montesúma höndum sem tryggingu gegn uppreisn.[3] Hann fékk þá boð um að Velázquez landstjóri hefði sent menn til að taka hann höndum fyrir óhlýðni. Hann hélt því með hluta liðs síns aftur til strandar og sigraði Kúbverjana.

Þegar Cortés kom aftur til Tenochtitlán komst hann að því að menn hans höfðu drepið nær alla höfðingja Asteka, og að þeir sem eftir lifðu höfðu kjörið nýjan keisara, Cuitláhuac. 1. júlí 1520 reyndi Cortés að laumast með menn sína og hesta burt frá borginni í skjóli nætur. Ráðagerðin mistókst og endaði með stórorrustu þar sem yfir 400 Spánverjar voru drepnir og Cortés sjálfur slapp naumlega.

Eftir þetta lét Cortés smíða tólf brigantínur til að setjast um borgina úr efnivið úr skipunum sem þeir höfðu sökkt við ströndina. Þegar umsátrið hófst lagðist bólusótt bæði á Spánverjana og íbúa borgarinnar. Veikin braut aftur baráttuþrek Astekanna og síðasti keisari þeirra Cuauhtémoc gafst upp fyrir Cortés 13. ágúst 1521.

Cortés var gerður að landstjóra yfir Nýja Spáni. Sem slíkur reyndi hann að halda uppi reglu og barðist gegn stofnun plantekra, þar sem hann hafði séð hvaða skaða slíkur efnahagur olli á Kúbu og Hispaníólu. Hann sneri að lokum aftur til Evrópu þar sem hann lést í Castilleja de la Cuesta í héraðinu Sevilla á Spáni, vellauðugur maður.

Tenglar

breyta
  1. Oudijk, Michel og Matthew Restall. 2007. Mesoamerican Conquistadors in the Sixteenth Century. I: Indian Conquistadors. Red. af Laura E. Mattew. University of Oklahoma Press.
  2. „Montezuma, konungur Aztekanna“. Vísir. 5. mars 1944. Sótt 19. desember 2018.
  3. Berglind Gunnarsdóttir (12. september 1998). „Fulltrúi sólguðsins felldur“. Morgunblaðið. Sótt 19. desember 2018.