63°52′05″N 21°49′20″V / 63.86806°N 21.82222°V / 63.86806; -21.82222

Herdísarvík, í kringum 1900

Herdísarvík í Selvogi er vestasta jörð og samnefnd vík í Árnessýslu í landi Sveitarfélagsins Ölfuss. Einar Benediktsson skáld bjó í Herdísarvík í um áratug en nú er jörðin í eyði. Hús skáldsins, sem hann reisti þar, er núna í eigu Háskóla Íslands. Hamrar Herdísarvíkurfjalls eru 329 m háir og gnæfa upp yfir víkinni til norðurs. Herdísarvík er eyðilegur staður en þar er fjölskrúðugt dýralíf.

Jörðin Herdísarvík státar af þúsund ára búsetu en nú stendur þar lítið annað en hús Einars Benediktssonar sem hann reisti eftir að hann flutti á jörðina. Hlaðnir túngarða og veggir frá fyrri tíð eru þar á jörðinni og hluti af þeim er húsið sem Einar bjó í þegar hann fluttist fyrst í Herdísarvík. Ólafur Þorvaldsson, þingvörður, var bóndi að Herdísarvík um tíma. Hann var gildur bóndi, átti til dæmis þúsund fjár á fjalli seinasta árið sem hann bjó í Herdísarvík. Það var fardagaárið 1932 – 1933. Landsdrottinn Ólafs þar var Einar sem fluttist þangað 1932 og var því samtímis Ólafi í eitt ár. Einar bjó í Herdísarvík þar til hann lést árið 1940.

Einar Benediktsson fluttist til Herdísarvíkur með Hlín Johnson sem annaðist hann þar þegar ellin tók að herja á Einar. Þegar Einar lést arfleiddi hann Háskóla Íslands að jörðinni, húsinu og bókasafni sínu. Herdísarvík er 4.218 ha land sem hefur verið friðlýst og á lista yfir friðlýst svæði á Íslandi frá árinu 1988.[1]

Árið 1952 var fé sett til höfuðs Herdísarvíkur-Surtlu sem varð frægasta og dýrasta sauðkind landsins. Kind þessi var í eigu Hlínar Johnson og sú síðasta í þúsund ára sauðfjárstofni Grunur um mæðiveiki olli því að fella varð allt fé á suðurlandi. Fjölda manna leitaði að Surtlu í langan tíma áður en hún náðist. Einhverjir töldu að Surtla hefði ekki getað verið sýkt vegna þess þreks sem hún sýndi í eltingaleiknum sem stóð yfir í meira en eitt ár. Í dag prýðir hauskúpa Surtlu vegg í Tilraunastöðinni á Keldum til minningar og sem fulltrúi þessa harðgera sauðkindastofns.

Nafn Herdísarvíkur

breyta

Víkin ber nafn sitt af munnmælasögu af Herdísi tröllskessu sem var systir Krýsu og segir sagan að ófriðurinn á milli þeirra hafi bitnað á landgæðum sveitanna í kringum Krýsuvík og Herdísarvík.

Útgerð og búskaparhættir í Herdísarvík

breyta

Í Herdísarvík var áður bær á flöt við tjarnarbakkann og var viðarverkið í bænum unnið úr rekaviði úr fjörunni, Bærinn var svo nálægt sjó að stundum flæddi inn í bæinn. Það gerðist veturinn 1925. Þá gerði storm af hafi í stórstraum. Flóðið kom inn í bæinn og varð fólkið að flýja upp í hlöðu uppi á túninu sem stóð hærra en bærinn. Það eru tvö tún í Herdísarvík og fékkst af þeim 179 hestar af heyi í meðalári á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.

Í Herdísarvík eru fornleifar frá þeim tímum er útgerð var stunduð þar í stórum stíl. Þar eru leifar sjóbúða og óteljandi hraungarða hlaðnir af mannahöndum sem voru þurrkreitir þar sem fiskurinn var hertur. Herdísarvík þótti gott fiskver og var róið út á víkina og fékkst oft góður afli. Seinna var farið að róa í Selvogssjó. Fiskgöngur koma þarna oftast nær beint af hafi. Eftir sumarmál fór fiskur á svonefndar „Forir“ og aflaðist oft vel þar í vertíðarlok. Útgerð lagðist að mestu af í Herdísarvík um tíma en fyrir aldamótin 1900 hófst útgerð þar aftur og veturinn 1896 gengu þaðan átta skip. Þá var farið að salta allan fisk. Nýjar sjóbúðir risu. Þá var róið þarna á tíæringum [2]

Suðurstrandavegur

breyta

Suðurstrandarvegur liggur frá GrindavíkÞorlákshöfn um sveitir þeirra Krísu og Herdísar og þar er vegastæðið þeim kosti búið að í miklum snjóaveðrum er þar auður strandvegur og því greiðfær flesta daga ársins. Suðurstrandavegi er ætlað að auka samgöngur milli landsvæða og ekki síst auka á atvinnuhorfur sunnlendinga með meðal annara ferðamennsku í huga. Herdísarvík er gróskumikið og vinsælt berjaland á sumrin og má sjá fjölmarga bíla lagt í kantinn þegar líða tekur að hausti þar sem finna má krækiber, bláber og einnig hrútaber. Landið er úfið hraun með sjó oft beljandi við ströndina á aðra hönd og bratt berg á hina. Birkikjarr vex þar nú upp eftir að urðu til að beit létti með tilkomu sauðfjárgirðingar.

Tilvísanir

breyta
  1. Gísli Sigurðsson. Seiður lands og sagna III; Áfangastaðir Suðvestanlands. Skrudda. Reykjavík. (2004): bls. 8.
  2. Árni Óla. Landið er fagurt og frítt. Bókfellsútgáfan. Reykjavík. (1944): bls. 59-64.

Tenglar

breyta