Helgi magri

Helgi magri Eyvindarson var íslenskur landnámsmaður, sem nam land í Eyjafirði. Hann var kristinn og bjó á Kristnesi.

Helgi magri, stytta á Akureyri

Faðir hans var Eyvindur austmaður Bjarnarson, fæddur á Gautlandi í Svíþjóð. Björn faðir Eyvindar deildi við Sigfast mág Sölvars Gautakonungs, brenndi hann inni og fór að því búnu til Noregs, fyrst til Gríms hersis en þá Öndótts kráku á Ögðum. Á sumrum fór Björn í vesturvíking. Móðir Eyvindar var Hlíf dóttir Hrólfs Ingjaldssonar Fróðasonar konungs. Kona Eyvindar var Rafarta dóttir Kjarvals Írakonungs. Önnur dóttir Kjarvals var Kormlöð móðir Þorgríms Grímólfssonar sem var aftur bróðursonur Álfs egðska. Sonur Þorgríms var Eyvindur faðir Össurar er átti Beru dóttur Egils Grímssonar. Björgu systur Helga átti Úlfur skjálgi Högnason.

Helgi var fæddur á Írlandi. Eyvindur og Rafarta létu Helga í fóstur í Suðureyjum þegar hann var barn að aldri en þegar þau komu að sækja hann tveimur vetrum seinna hafði hann verið sveltur svo að þau þekktu hann ekki. Eftir það var hann kallaður Helgi magri. Hann varð virðingarmaður mikill er hann fullorðnaðist. Hann kvæntist Þórunni hyrnu, dóttur Ketils flatnefs, og áttu þau mörg börn.

Helgi hafði tekið kristni en var blendinn í trúnni og hét á Þór til sjófara og harðræða. Hann ákvað að fara til Íslands með konu sína og börn og nema þar land. Þegar hann sá til lands hét hann á Þór að vísa sér til lands og sigldi síðan norður um land og inn í Eyjafjörð og tók land á Árskógsströnd. Helgi kaus ábúð í fjarðarbotni og bjó í eitt ár á bænum Bíldsá, sem nú kallast Kaupangur, þar sem gott útsýni er um fjörðinn. Svo fór að Helgi settist að á Kristnesi, kannski vegna jarðhita og nam allan Eyjafjörð. Sagt er að áður en hann reisti bæ sinn hafi Þórunn kona hans orðið léttari í Þórunnareyju í Eyjafjarðará og alið þar dóttur sem kölluð var Þorbjörg hólmasól.

Þar sem landnám Helga var mjög stórt fengu margir landnámsmenn sem síðar komu land hjá honum, auk þess sem börn hans og aðrir ættingjar fengu hluta af landnámi hans.

Synir hans voru Hrólfur á Gnúpufelli og Ingjaldur á Efri-Þverá en dætur hans voru Helga kona Auðuns rotins Þórólfssonar, Hlíf kona Þorgeirs Þórðarsonar, Þórhildur kona Auðólfs landnámsmanns í Öxnadal, Þóra kona Gunnars sonar Úlfljóts lögsögumanns, Ingunn kona Hámundar heljarskinns og Þorbjörg hólmasól kona Böðólfs Grímssonar.

Heimild: https://timarit.is/page/2047532#page/n0/mode/2up

TengillBreyta