Langhús

(Endurbeint frá Landnámsbær)

Langhús er notað um hverskyns stórar aflangar byggingar. Það er notað jafnt um híbýli manna sem um önnur hús og þekkist t.d. sem nafn á fjárhúsum á Íslandi.

Langhús af gerð sem tíðkast meðal frumþjóða við Kyrrahafsströnd Ameríku.

Langhús er notað í sértækari merkingu um þá húsagerð sem var ráðandi í Norður-Evrópu frá bronsöld og fram á miðaldir. Langhús er stundum notað í enn þrengri merkingu til að gera greinarmun á þeim húsum sem höfðu fjós undir sama þaki og hinum sem höfðu það ekki og eru þau síðarnefndu þá fremur kölluð skáli eða eldaskáli.

Landnámsbær er stundum notað í sömu merkingu og eldaskáli um elstu gerð mannabústaða á Íslandi. Enginn skáli hefur þó verið rannsakaður sem óyggjandi er að byggður sé af landnámsmanni og gerðin tíðkaðist á Íslandi alla víkingaöld.